— Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Einar Gústafsson, forstjóri American Seafoods í Bandaríkjunum, segir að þær ytri aðstæður sem hafa valdið því að ákveðið var að gera hlé á söluferli meirihluta hlutafjár fyrirtækisins hafi meðal annars verið undirverðlagning Rússa á mörkuðum og…

Viðtal

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Einar Gústafsson, forstjóri American Seafoods í Bandaríkjunum, segir að þær ytri aðstæður sem hafa valdið því að ákveðið var að gera hlé á söluferli meirihluta hlutafjár fyrirtækisins hafi meðal annars verið undirverðlagning Rússa á mörkuðum og aðgerðaleysi gagnvart viðskiptaháttum þeirra, umgengni þeirra við auðlindina og hvernig viðskiptaþvinganir séu sniðgengnar. Hann gagnrýnir harðlega Marine Stewardship Council (MSC), sem vottar sjálfbæra nýtingu sjávarafurða, og telur fjárhagslega hvata knýja áframhaldandi vottun rússneskra afurða þar sem ekki sé hægt að gera fullnægjandi úttektir á starfsháttum þeirra.

Markaðir fyrir afurðir American Seafoods hafa tekið þó nokkrum breytingum undanfarin misseri að sögn Einars sem útskýrir að American Seafoods sé í raun alltaf til sölu þar sem það er í eigu fjárfestingafélags, en að á síðasta ári hafi verið farið í virka leit að kaupanda.

Spurður um ástæðu þess að gert var hlé á því ferli svarar hann: „Okkur fannst við ekki líkleg til að fá verð í samræmi við það sem við teljum vera verðmæti fyrirtækisins. Þessi markaðssveifla er tímabundin og mun hún snúast við og fáum við þá hagstæðara verðmat. Þess vegna töldum við óskynsamlegt að halda áfram með formlegt söluferli nú. Við erum enn arðbær – þó arðsemin sé minni. Við höfum augljóslega lagað reksturinn að þessum aðstæðum. Þetta fyrirtæki er ótrúlega seig sjóðstreymisvél.“

Kallar á aðgerðir

American Seafoods framleiðir afurðir sem seldar eru um heim allan og er lögð áhersla á alaskaufsa og kyrrahafslýsing, en togarar félagsins veiða um 350 þúsund tonn á ári hverju. Einar segir að markaðurinn fyrir frystar flakablokkir hafi náð jafnvægi en það er meðal mikilvægustu vara sem félagið framleiðir.

Súrímí skipar einnig mikilvægan sess í vöruframboði félagsins en um er að ræða próteinbúðing úr fiski sem er stór þáttur í asískri matarmenningu en selst víðar. Einar segir mikla lækkun á gengi japanska jensins hafa haft veruleg áhrif á súrímímarkaðinn en samhliða því hafi Rússar dælt afurðum á markaði á undirverði í Asíu.

„Rússar sögðust fyrir sex mánuðum ætla að koma Bandaríkjunum út af mörkuðum í Asíu. Þeir eru ekki að hækka verð, jafnvel eftir að ESB lagði tolla á rússneskar sjávarafurðir. Þeir hafa sagt það opinberlega að þeir muni selja á hvaða verði sem er. Það er ekkert annað en undirboð. G7-ríkin þurfa að gera meira til að tryggja sanngjarna markaði og hætta að verðlauna yfirgang Rússa,“ segir Einar.

Vegna ólöglegrar innrásar Rússlands í Úkraínu 2022 hafa fjölmörg ríki beitt Rússland ýmsum viðskiptaþvingunum og innleiddu Bandaríkin bann við innflutningi á rússnesku sjávarfangi, en rússneskar afurðir rötuðu samt til Bandaríkjanna í gegnum Kína. Evrópusambandið hefur einnig boðað bann en hefur aldrei gengið alla leið í innleiðingu þess.

„Megnið af kínverskum ufsa sem fer til ESB er í raun rússneskur fiskur sem fer í gegnum glufu sem þarf að bregðast við. Bandaríkin lokuðu bara þeirri glufu sjálf, sem sýnir að það er hægt.

Og Rússar merkja allt sem alaskaufsa. Ímyndaðu þér ef Rússar reyndu að flytja Bordeaux-vín ræktað á Krím til Frakklands? Því yrði hellt út við landamærin. Við þurfum sömu meðferð á rússneskum sjávarafurðum sem eru ranglega merktar sem alaskaufsi innan ESB. Henda rússneska fiskinum sem er rangt merktur og vera heiðarleg við neytendur sem búast við sjálfbæru sjávarfangi þegar þeir sjá „Alaska“ á vörumerkingum.“

Fjármagn í stað umhverfisverndar

Einar beinir gagnrýni sinni einnig að MSC og bendir á að Rússar haldi áfram að auka ufsaveiðar sínar og að þeir hafi gefið til kynna að þeir hyggist hefja veiðar á alþjóðlegu hafsvæði og þannig hunsa alþjóðlega sáttmála og samninga. „Þeir virðast ætla að veiða það sem þeim sýnist og það er ótrúlegt að það virðist viðgangast. Það fer ekki á milli mála að MSC vottar rússneskar fiskveiðar og að MSC veitir undanþágur frá reglunum, sem dregur úr trúverðugleika starfs þeirra þegar kemur að sjálfbærri nýtingu alaskaufsa.“

Vörur vottaðar af MSC hafa alla jafna getað náð betra verði á mörkuðum þar sem neytendur vilja frekar sjávarfang sem aflað er með sjálfbærum hætti. Þannig styður vottunin við sölu rússneskra afurða að sögn Einars sem bendir á að Rússland hafi innleitt útflutningstoll á sjávarfang í þeim tilgangi að fjármagna stríðið í Úkraínu. „Hvers vegna votta þeir rússnesku stríðsvélina? Er „MSC“ skammstöfun fyrir Moskvu? Þetta er óskiljanlegt.“

Fjárhagslegur hvati er að baki þessum starfsháttum MSC að mati Einars. „Þegar MSC hóf starf sitt voru allir fylgjandi því. Það er gott enda verðum við að vernda hafið. Nú hefur hins vegar félagið orðið sjálfhverft skrifræðisskrímsli. Þeir eru að reyna að búa til tekjustreymi og virðast hafa misst sjónar á upprunalegu verkefninu. Þetta snýst um magn. Ef þeir draga til baka vottun Rússa myndu augljóslega vera miklu færri bláar vottunarmerkingar sem borga lógógjöld til MSC. “

Hann telur neytendur blekkta og að það komi að því að þeir sjái í gegnum blekkingarleikinn. „Það er athyglisvert að neytendur um allan heim, sérstaklega í Evrópu og Japan, halda áfram að kaupa rússneskt sjávarfang og styðja þar með við stríðsrekstur Rússlands. Þetta má líklega rekja til þekkingarleysis sem byggist á lélegum merkingum og skorti á fjölmiðlaumfjöllun um hvernig rússnesku sjávarafurðafyrirtækin fjármagna stríðsreksturinn.

Á einhverjum tímapunkti held ég að neytendur muni vakna og segjast ekki vilja fóðra rússnesku stríðsvélina,“ segir hann að lokum.

Höf.: Gunnlaugur Snær Ólafsson