Sigurviss Jean-Luc Mélenchon var snöggur í ræðustólinn við lok kosninga.
Sigurviss Jean-Luc Mélenchon var snöggur í ræðustólinn við lok kosninga. — AFP/Sameer Al-Doumy
Vinstriflokkabandalagið Nýja Alþýðufylkingin í Frakklandi er stærsti flokkurinn á franska þinginu eftir síðari umferð frönsku þingkosninganna í gær – niðurstaða sem ekki hafði verið talin sú líklegasta eftir fyrri umferð kosninganna

Atli Steinn Guðmundsson

atlisteinn@mbl.is

Vinstriflokkabandalagið Nýja Alþýðufylkingin í Frakklandi er stærsti flokkurinn á franska þinginu eftir síðari umferð frönsku þingkosninganna í gær – niðurstaða sem ekki hafði verið talin sú líklegasta eftir fyrri umferð kosninganna. Þegar Morgunblaðið fór í prentun í gær hafði Alþýðufylkingin hlotið 176 þingsæti, Endurreisnarflokkur Emmanuels Macrons forseta 154 og Þjóðfylking Marine Le Pen 140.

Kosið um 501 þingsæti

Samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar, sem birtar voru á slaginu klukkan 20 að frönskum tíma, þegar kjörstöðum var lokað, var Nýju Alþýðufylkingunni spáð 172 til 192 þingsætum en franska þingið telur 577 sæti og stóð síðari umferðin í gær um 501 þeirra. Niðurstaða fékkst í 76 kjördæmum í fyrri umferðinni á sunnudaginn fyrir viku.

Endurreisnarflokkur Macrons átti von á 150 til 170 sætum samkvæmt könnuninni en Þjóðfylkingin, sem var sigurstrangleg eftir fyrri umferðina, stefndi á þriðja sætið með 132 til 152 þingsæti.

„Þetta er gríðarlegur léttir fyrir þjóðina,“ sagði Jean-Luc Mélenchon, leiðtogi Nýju Alþýðufylkingarinnar, sem var kominn í ræðustól sjö mínútum eftir að niðurstöður fyrrgreindrar könnunar birtust við lok kosninga, „nú hlýtur Alþýðufylkingin að setjast í ríkisstjórn. Enn einu sinni höfum við bjargað lýðræðinu.“

59,7 prósenta þátttaka

„Franska þjóðin hefur talað, kosningaþátttaka var söguleg,“ sagði Jordan Bardella leiðtogi Þjóðfylkingarinnar og bætti því við að kjósendur hefðu nú varpað Frakklandi í fang Mélenchon og vinstribandalags hans. „Við munum bretta upp ermarnar sem stjórnarandstöðuflokkur,“ sagði Bardella vígreifur í ávarpi í gær.

Þegar klukkan sló 19 í Frakklandi í gær, klukkustund fyrir lokun kjörstaða, höfðu 59,7 prósent kosningabærra Frakka gengið að kjörborðinu sem er mesta kosningaþátttaka í landinu í rúmlega 40 ár. Á sama tíma í síðustu kosningum, árið 2022, höfðu aðeins rúm 38 prósent rennt kjörseðlinum í kassann og hefur þátttakan nú verið túlkuð sem hávært ákall Frakka um breytingar.

Gabriel Attal, forsætisráðherra Endurreisnarflokksins, miðjuflokks Macrons forseta, boðaði í gær að hann hygðist í dag ganga á fund forseta og segja af sér embætti. Líklegt er þó talið að hann sitji áfram um sinn sem starfandi forsætisráðherra þar til ný stjórn hefur verið mynduð en Alþýðufylkingarleiðtoginn Mélenchon lét þau orð falla í gær að nú væri annað útilokað en að flokkur hans leiddi stjórnarmyndunarviðræður.

Franska lögreglan hafði mikinn viðbúnað um allt land á kjördaginn og var 30.000 lögreglumanna liðsauki á vakt, þar af tæplega 3.000 í höfuðborginni París.

Höf.: Atli Steinn Guðmundsson