[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Knattspyrnuþjálfarinn Þorlákur Árnason hefur skrifað undir tveggja ára samning við Damaiense í Portúgal en hann tók við kvennaliði félagsins í október. Það náði fjórða sæti í vetur, besta árangrinum í sögu félagsins

Knattspyrnuþjálfarinn Þorlákur Árnason hefur skrifað undir tveggja ára samning við Damaiense í Portúgal en hann tók við kvennaliði félagsins í október. Það náði fjórða sæti í vetur, besta árangrinum í sögu félagsins.

Jóhann Berg Guðmundsson, landsliðsfyrirliði í knattspyrnu, leikur áfram með Burnley eftir allt saman. Hann kvaddi félagið í vor, eftir að það féll úr ensku úrvalsdeildinni, en hann hefur spilað með því undanfarin átta ár, sjö þeirra í úrvalsdeildinni. Á laugardaginn samdi hann við Burnley á ný.

Stefán Teitur Þórðarson, landsliðsmaður í knattspyrnu, er í þann veginn að ganga til liðs við enska B-deildarfélagið Preston. Hann fór þangað í gær til að gangast undir læknisskoðun og undirritun samnings í kjölfarið. Stefán hefur leikið með Silkeborg í Danmörku undanfarin fjögur ár en tvö önnur ensk B-deildarlið, Derby og QPR, voru með hann í sigtinu.

Bryndís Arna Níelsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, skoraði sitt fyrsta mark fyrir Växjö í sænsku úrvalsdeildinni á laugardag þegar það vann Brommapojkarna, 2:1. Bryndís slasaðist í fyrsta leik liðsins í vor og er nýbyrjuð að leika með því aftur.

Eggert Aron Guðmundsson skoraði sitt fyrsta mark fyrir Elfsborg í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á laugardaginn. Hann kom inn á sem varamaður gegn Brommapojkarna rétt fyrir leikslok og skoraði þriðja markið í 3:0-sigri Elfsborgar.

Birnir Snær Ingason skoraði sitt fyrsta mark í sömu deild í gær þegar hann jafnaði fyrir Halmstad gegn toppliðinu Malmö. Það dugði þó skammt því Malmö vann stórsigur, 5:1.

Vicente Valor tryggði ÍBV sigur á Leikni úr Reykjavík, 1:0, í 1. deild karla í knattspyrnu á Hásteinsvelli á laugardag og lyfti með því Eyjamönnum í þriðja sæti deildarinnar.

Þróttur í Reykjavík komst upp í 8. sæti 1. deildar karla með sigri á botnliðinu Dalvík/Reyni, 4:1, í Laugardalnum. Kári Kristjánsson og Hlynur Þórhallsson skoruðu tvö mörk hvor fyrir Þrótt en Áki Sölvason kom þó Dalvíkingum yfir í byrjun síðari hálfleiks.

Austfjarðaliðið FHL stefnir hraðbyri upp í Bestu deild kvenna í fótbolta og vann Selfoss 3:0 á Reyðarfirði á laugardaginn. Emma Hawkins skoraði tvö mörk og það þriðja var sjálfsmark en FHL er komið með tíu stiga forskot á þriðja lið í 1. deildinni.

Þá tryggði Thelma Lind Steinarsdóttir Frömurum stig gegn ÍR í 1. deild kvenna þegar hún jafnaði, 3:3, í uppbótartíma í leik liðanna í Mjóddinni.

Kvennalandsliðið í körfubolta, 20 ára og yngri, vann Austurríki en tapaði fyrir Úkraínu þegar B-deild Evrópumótsins hófst í Búlgaríu um helgina. Agnes María Svansdóttir skoraði 18 stig í sigrinum á Austurríki og Hekla Nökkvadóttir var atkvæðamest gegn Úkraínu og skoraði 14 stig. Liðið mætir Búlgaríu í dag í úrslitaleik um sæti í átta liða úrslitunum.

Spænski knattspyrnumaðurinn Thiago Alcantara hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna, 33 ára gamall, vegna meiðsla. Hann var afar sigursæll með Barcelona og Bayern München og lék síðan með Liverpool frá árinu 2020.

Færeyski handboltamarkvörðurinn Silja Ásgrímsdóttir Müller er gengin til liðs við Val frá Neistanum í Þórshöfn. Hún er tvítug, á íslenskan föður og hefur spilað þrjá A-landsleiki fyrir Færeyjar.

Bandaríska körfuboltakonan Shaniya Jones er komin til liðs við nýliða Tindastóls í úrvalsdeildinni. Hún er 24 ára bakvörður og kemur frá Brod na Savi í Króatíu.

Úkraínski hástökkvarinn Yaroslava Mahuchikh sló í gær 37 ára gamalt heimsmet í hástökki kvenna þegar hún stökk 2,10 metra á móti í Demantamótaröðinni í París. Stefka Kostadinova frá Búlgaríu hafði átt metið frá árinu 1987 þegar hún stökk 2,09 á HM það ár.

Annað heimsmet féll á mótinu í París því Faith Kipyegon, tvöfaldur ólympíumeistari frá Kenía, sló eigið met í 1.500 metra hlaupi kvenna þegar hún hljóp á 3:49,04 mínútum.