Sigurgeir Bjarni Árnason fæddist á Ísafirði 11. apríl 1953. Hann lést á Landspítalanum 20. júní 2024.

Móðir Sigurgeirs var Jóna Friðgerður Ingibjörg Sigurgeirsdóttir, f. 14. maí 1932, d. 6. apríl 1997. Faðir hans var Árni Hlöðver Árnason, f. 19. desember 1927, d. 11. janúar 1980.

Stjúpfaðir Sigurgeirs Bjarna, eiginmaður Ingibjargar, var Þorgrímur Guðnason, hann er látinn.

Systir Sigurgeirs er Pálína Þórarinsdóttir, f. 6. september 1951, hún er búsett á Ísafirði og á tvo syni. Bróðir Sigurgeirs samfeðra var Reynir Ágúst Árnason, f. 25. ágúst 1963, d. 18. nóvember 2013.

Sigurgeir Bjarni giftist barnsmóður sinni Margréti Ingimundardóttur, f. 31. janúar 1955 í Reykjavík. Þau bjuggu saman í nokkur ár en síðan skildi leiðir þeirra.

Börn þeirra eru: 1) Oddgeir Már Ingþórsson, f. 7. september 1978, unnusta hans er Malin Eldh. Börn þeirra eru Karen Anja og Rafael Fannar. 2) Árni Hlöðver, f. 27.12. 1979, hans synir eru Kristvin Máni og Eyþór Atli. 3) Jóna Ingibjörg, f. 21.9. 1981, hennar börn eru Isabella Sif, Magni Týr og Sigvaldi Freyr.

Sigurgeir Bjarni fæddist á Ísafirði en flutti á fyrstu mánuðum ævi sinnar til Reykjavíkur með foreldrum sínum og bjuggu þau í braggahverfinu í Reykjavík, fáum árum síðar fluttist hann með móður sinni aftur til Ísafjarðar og sleit þar barnsskónum. Hann stundaði nám í Barna- og gagnfræðaskóla Ísafjarðar. Fimmtán ára fer hann fyrst sem sjómaður munstraður á bát, sá starfsvettvangur átti eftir að verða hans ævistarf. Sigurgeir bjó um tíma á Ísafirði með sína fjölskyldu en hefur búið og starfað í Reykjavík síðustu áratugi.

Sigurgeir Bjarni verður jarðsunginn frá Guðríðarkirkju í Grafarholti í dag, 8. júlí 2024, kl. 13. Jarðneskar leifar hans verða síðar jarðsettar í Réttarholtskirkjugarði á Ísafirði við hlið móður hans.

Drottinn er minn hirðir,

mig mun ekkert bresta.

Á grænum grundum

lætur hann mig hvílast,

leiðir mig að vötnum,

þar sem ég má næðis njóta.

Hann hressir sál mína,

leiðir mig um rétta vegu

fyrir sakir nafns síns.

Jafnvel þótt ég fari um dimman dal,

óttast ég ekkert illt,

því að þú ert hjá mér,

sproti þinn og stafur hugga mig.

Þú býr mér borð

frammi fyrir fjendum mínum,

þú smyr höfuð mitt með olíu,

bikar minn er barmafullur.

Já, gæfa og náð fylgja mér

alla ævidaga mína,

og í húsi Drottins bý ég langa ævi.

(23. Davíðssálmur)

Elska þig elsku pabbi minn.

Þinn sonur,

Árni Hlöðver (Hlölli).

Elsku pabbi, við munum sakna þín svo mikið, en það huggar okkur að vita að þú ert laus frá öllum þjáningum og loksins frjáls. Þú hefur alltaf verið þú sjálfur, fylgt þinni eigin tísku, óháð hvað öðrum fannst. Sem krakki og unglingur reyndi ég að fá þig til að klæðast eins og aðrir, en það tókst aldrei. Þú kenndir mér að vera ekki hrædd við að vera öðruvísi og að finna mitt eigið frelsi. Þínar bestu gjafir voru þær sem þú barst sjálfur, með stóru og fallegu hjarta, alltaf tilbúinn að hjálpa öðrum. Þú gafst mér og krökkunum mínum svo mikið með kærleika þínum og ást, sem gerði okkur að betri einstaklingum. Við verðum ævinlega þakklát fyrir allar stundirnar með þér og munum heiðra minningu þína með því að láta hjartalag þitt lifa áfram í hjörtum okkar. Elsku pabbi, ég kveð þig með söknuði og allri minni ást.

Þín einlæg dóttir

Jóna Ingibjörg
Sigurgeirsdóttir

Það er enn þá mjög sárt og ég hef enn ekki náð að sætta mig við að þú sért farinn elsku afi. En það er sagt við mig að þér líði betur þarna uppi og ég trúi því.

Ég mun alltaf geyma allar minningarnar í hjarta mínu og vera þakklát fyrir allan tímann sem ég fékk að eiga með þér.

Ég mun aldrei gleyma þér, ég vona að þér líði betur og ég elska þig meira en allt.

Þín

Ísabella Sif.

Á litlum skóm ég læðist inn

og leita að þér, afi minn.

Ég vildi að þú værir hér

og vært þú kúrðir hjá mér.

Ég veit að þú hjá englum ert

og ekkert getur að því gert.

Í anda ert mér alltaf hjá

og ekki ferð mér frá.

Ég veit þú lýsir mína leið

svo leiðin verði björt og greið.

Á sorgarstund í sérhvert sinn

ég strauminn frá þér finn.

Ég Guð nú bið að gæta þín

og græða djúpu sárin mín.

Í bæn ég bið þig sofa rótt

og býð þér góða nótt.

(S.P.Þ.)

Elsku afi, þú hefur alltaf verið okkur svo góður.

Við eigum efftir að sakna þín mikið.

Ástarkveðja

Magni Týr og Valdi Freyr

Elsku frændi minn Sigurgeir Bjarni er látinn, þótt andlát hann kæmi ekki á óvart er eins og maður sé aldrei tilbúinn fyrir kveðjustundina.

Þá er gott að finna sér huggun í minningum og þar er af nógu að taka.

Ævir okkar Sigurgeirs hafa alltaf verið samofnar, mæður okkar voru systur úr stórri og samheldinni fjölskyldu og alla tíð mjög nánar.

Í minningunni stóð Sína amma í stafni og hélt utan um hópinn sinn.

Vallarborg, heimili stórfjölskyldunnar, var í mínum huga þá miðdepill alheimsins, við yngri krakkarnir litum upp til þeirra eldri og þar kom Sigurgeir Bjarni oft sterkur inn enda skemmtilegur strákur og úrræðagóður.

Skólaganga Sigurgeirs var á Ísafirði en fimmtán ára var hann munstraður í fyrsta sinn á bát og þar með var ævistarfið ráðið.

Í þá daga var sjómannsstarfið ekki sambærilegt við það sem það er í dag, aðbúnaður mannanna um borð bágborinn og vinnuaðstaðan oft og tíðum hættuleg og skipin misvel búin.Sjóslys voru tíð við Ísland og þessir ungu strákar sáu oft á eftir félögum sínum í hafið, það tók á alla sem í því lentu .

Sigurgeir var vinsæll sjómaður verklaginn og duglegur.Hann upplifði þá miklu framför sem varð þegar stóru skuttogararnir komu vestur á firði og var í nokkur ár á Páli Pálssyni ÍS.

Það var á togaraárunum þegar þeir frændur, Sigurgeir Bjarni og Sigurgeir Hrólfur, voru í sitt hvoru togaraplássinu, annar á Páli Pálssyni ÍS og hinn á Guðbjarti ÍS en það átti til að ruglast hvor var hvor þegar þeir bárust í tal.

Að vestfirskum sið var því snarað á þá viðurnefni og Sigurgeir Bjarni sem var ljósari yfirlitum fékk viðurnefnið geirfuglinn og sá dekkri, Sigurgeir Hrólfur, svartfuglinn, þannig var leyst úr því hvor var hvor og hvors var hvað.

Sigurgeir Bjarni var oftast hrókur alls fagnaðar hvar sem hann kom, léttur í bragði, stríðinn og skemmtilegur. Hann var tilfinningaríkur, hlýr og góður maður og átti auðvelt með að setja sig í spor annarra. Ef einhvern vantaði aðstoð var hann manna fyrstur til að rétta fram hjálparhönd.

Skuttogaralífið vestur á Fjörðum á árunum áður var hörkuvinna en gat gefið mjög góðar tekjur og þá höfðu menn úr meiru fjármagni að spila, það þótti ekkert tiltökumál í þá daga þegar kom að landlegu að hluti áhafnarinnar tæki skyndiákvörðun og skellti sér á ball í öðrum landshlutum og ræsti út leigubíl eða flugvél til að komast á staðinn .Flestir skiluðu sér heim á réttum tíma fyrir brottför á sjóinn og svo hófst alvara lífsins á ný, ungir menn hlupu af sér hornin og urðu ábyrgðarfyllri með hækkandi aldri og stækkandi fjölskyldum.Það var gaman að heyra Sigurgeir segja frá börnum sínum og barnabörnum, þau fylltu hann stolti og voru það dýrmætasta sem hann átti. Ég vil að lokum senda mínar dýpstu samúðarkveðjur til barna Sigurgeirs og þeirra fjölskyldna, Pálínu systur hans og hennar fjölskyldu og æskuástarinnar Grétu, hann var heppinn að eiga ykkur að.

Elsku hjartans frænda mínum þakka ég samfylgdina og þá tryggð sem hann sýndi mér og mínum alla tíð. Guð blessi minningu hans.

Kolbrún Sverrisdóttir.