Deloitte Legal, Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð fagna nýlegum breytingum sem gerðar voru á virðisaukaskattslögum. Með lagabreytingunum er orðalag skerpt á svokallaðri fjarlægðarreglu (e. destination principle), sem er meginregla í innheimtu virðisaukaskatts í milliríkjaviðskiptum.
Reglan kveður á um að í milliríkjaviðskiptum skuli skattlagning virðisaukaskatts eiga sér stað í því ríki þar sem endanleg neysla og nýting þjónustunnar á sér stað.
Önnur túlkun á Íslandi
Í umsögn Deloitte við frumvarpið er goldinn varhugur við túlkun íslenskra skattyfirvalda á umræddu lagaákvæði, en hún hefur verið í ósamræmi við það sem tíðkast í milliríkjaviðskiptum innan Evrópu og leiðbeiningar OECD.
„Vonir standa því til þess að þessi breyting muni framvegis girða fyrir matskenndar túlkanir og gera skattframkvæmd í virðisaukaskatti skilvirkari og [í] samræmi við alþjóðlega framkvæmd, sem hefur jákvæð áhrif á samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja,“ segir m.a. í umsögninni.
„Þegar virðisaukaskattslögunum var breytt árið 2016 var umrædd regla innleidd en hún mælir fyrir um að þegar erlend fyrirtæki kaupa þjónustu af íslenskum fyrirtækjum ber þeim ekki að greiða virðisaukaskatt af þjónustunni, heldur ber þeim að greiða skattinn í því ríki þar sem þau hafa heimilisfesti og telst því undanþegin velta samkvæmt lögum,“ segir Guðbjörg Þorsteinsdóttir, lögmaður og meðeigandi Deloitte Legal, í samtali við ViðskiptaMoggann.
Fyrir breytingarnar var ákvæðið orðað þannig að velta væri undanþegin þegar þjónusta er veitt frá Íslandi.
„Þar sem þetta var orðað svona í ákvæðinu að þjónusta sé veitt frá Íslandi, fóru skattyfirvöld að túlka ákvæðið með þeim hætti að þjónustan sem slík yrði að fara úr landinu, hún mætti sem sagt ekki vera á Íslandi. Þó að kaupandi þjónustunnar kæmi aldrei til Íslands til að nýta sér hana,“ útskýrir hún.
Guðbjörg nefnir sem dæmi að ef hún sem starfsmaður Deloitte veitti erlendu fyrirtæki ráðgjöf um fjárfestingu í íslensku fyrirtæki, myndi hún gefa út reikning til viðkomandi fyrirtækis án virðisaukaskatts af því að þetta er undanþegin velta.
„Það var hins vegar hætta á því að skatturinn myndi túlka það sem svo, þar sem ég er staðsett á Íslandi og er að veita ráðgjöf um t.d. kaup á íslensku fyrirtæki, að þjónustan sé ekki veitt frá landinu, þrátt fyrir að hún sé vegna erlends aðila,“ segir hún.
Túlkunin skerti samkeppnishæfni Íslands
„Við vorum að reka okkur á það að erlend fyrirtæki höfðu ekki áhuga á að stunda viðskipti á Íslandi, bæði út af þessari óljósu framkvæmd skattsins og því að þau þurfi að greiða virðisaukaskatt af þjónustu, sem þau hefðu ekki þurft að greiða í öðrum ríkjum innan Evrópu,“ segir Guðbjörg.
Hún bætir við að framkvæmdin hafi verið það óljós á Íslandi að skattyfirvöld hafi stundum ekki svarað þar að lútandi fyrirspurnum.
„Við þekkjum dæmi þess að þurfa að senda fyrirspurn til skattsins vegna erlends viðskiptavinar og fengum stundum ekki einu sinni svör. Við höfum lent í því að senda inn beiðnir um að fá álit embættisins um hvort tiltekinn aðili eigi að greiða virðisaukaskatt af þjónustunni eða ekki. Skatturinn hins vegar hafnaði beiðninni, sem jók enn meira á óvissuna um framkvæmdina,“ segir Guðbjörg.
Að hennar mati var fyrrnefnd túlkun skattyfirvalda ekki til þess fallin að gera viðskiptaumhverfið á Íslandi meira aðlaðandi fyrir erlenda fjárfestingu. Hún vonar að lagabreytingin muni liðka fyrir milliríkjaviðskiptum íslenskra og erlendra fyrirtækja.