Óskar Bergsson
oskar@mbl.is
Vatnsbúskapur Landsvirkjunar fer ekki vel af stað í ár eftir erfiðan vetur, þegar takmarka þurfti afhendingu til viðskiptavina með samninga um skerðanlega raforku.
Vorleysingar byrjuðu seint en í byrjun maí hófst vatnssöfnun í Blöndulóni og Þórisvatni.
Þá var staðan í Blöndulóni 466 metrar en var 475 metrar árið á undan. Í Þórisvatni var staðan 562 metrar en var 569 metrar árið á undan. Verst er ástandið í Hálslóni þar sem vatnsstaðan var 573 metrar en var 600 metrar árið á undan eða 37 metra mismunur. Staðan í dag er skárri og munar nú 34 metrum á vatnsyfirborði miðað við árið í fyrra.
Í tilkynningu Landsvirkjunar segir að júní hafi verið kaldur og þurr og ekkert hafi bæst við Blöndulón og lítið við Þórisvatn. Eftir miðjan mánuð byrjaði að hækka í Hálslóni samfara hækkandi hitastigi, en enn vanti þó 15 metra upp á að vatnshæðin nái meðalhæð í júlíbyrjun.
Í tilkynningunni kemur jafnframt fram að Hálslón hafi alltaf fyllst og því standi vonir til þess að jökulleysingin það sem eftir lifir sumars bæti úr skák.