Leigubíll Í tæplega helmingi tilfella voru gerðar athugasemdir vegna gruns.
Leigubíll Í tæplega helmingi tilfella voru gerðar athugasemdir vegna gruns. — Morgunblaðið/Hari
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Egill Aaron Ægisson egillaaron@mbl.is „Það er verið að ofrukka farþega. Sérstaklega útlendinga því Íslendingar láta ekki plata sig. Þeir vita alveg að það kostar 5 þúsund krónur að fara upp í Breiðholt en ekki 15 þúsund. Erlendir ferðamenn taka ekki eftir því þó það sé einu núlli fleira og það er það sem er að gerast og þetta er búið að spyrjast út erlendis,“ segir Daníel Orri Einarsson, formaður bifreiðastjórafélagsins Frama.

Egill Aaron Ægisson

egillaaron@mbl.is

„Það er verið að ofrukka farþega. Sérstaklega útlendinga því Íslendingar láta ekki plata sig. Þeir vita alveg að það kostar 5 þúsund krónur að fara upp í Breiðholt en ekki 15 þúsund. Erlendir ferðamenn taka ekki eftir því þó það sé einu núlli fleira og það er það sem er að gerast og þetta er búið að spyrjast út erlendis,“ segir Daníel Orri Einarsson, formaður bifreiðastjórafélagsins Frama.

Segir hann að orðrómur um að leigubílstjórar hérlendis svindli á farþegum sínum sé tekinn að fæla erlenda ferðamenn frá því að heimsækja landið.

„Við erum búnir að sjá það á Trip Advisor og öðrum heimasíðum alveg til Ástralíu. Við höfum orðið varir við þetta og erum búnir að sjá þetta á netinu – það er verið að vara ferðamenn við því að koma til Íslands út af því að þeir verði rændir hér,“ segir Daníel.

Nefnir hann að í kjölfar nýrra laga um leigubifreiðaakstur, sem samþykkt voru í desember 2022 og tekin upp í apríl 2023, hafi leiðindaástand ríkt á markaðinum og félagið fengið margar tilkynningar þar sem kvartað er undan leigubílstjórum. Það sé hins vegar lítið sem félagið geti gert.

Með nýju lögunum var fjöldatakmörkun á leigubílstjórum afnumin og nefnir Daníel að 480 leyfi hafi verið virk fyrir lagabreytingar en nú séu leyfin komin upp í 900. Eru þá margir leigubílar ómerktir og bílstjórarnir starfa einungis fyrir sjálfa sig, sem gerir það virkilega erfitt að rekja þá.

„Farþegar kvarta við okkur og segja okkur sögur af því sem þeir eru að lenda í og yfirleitt er þetta nú um helgar og á nóttunni. Þá sjá þeir leigubíl og ganga inn í hann og hafa pantað bíl hjá Hreyfli eða einhverri stöð en það kemur annar bíll og þeir lenda í ógöngum. Það var næstum því búið að eyðileggja hjólastól hjá einum farþega. Hjá öðrum snerist þetta um verðið. Átti að ræna hann bara. Hann var að fara frá BSÍ niður í miðbæ – það er ekki löng leið – en bílstjórinn ætlaði að fara að keyra hann í allt aðra átt og honum leist ekkert á blikuna og bíllinn keyrði á 80 kílómetra hraða í miðbænum. Það eru mörg svona dæmi. Fólk verður viðskila við veski og það er ekki séns að hafa uppi á veskinu. Það er engin boðleið til að hafa uppi á óskilamunum eins og á starfandi stöðvum sem eru með símaafgreiðslu,“ segir Daníel.

Margir ekki skráðir með leyfi

Greint var frá því í júní að lögregla hefði framkvæmt eftirlit á 105 leigubílum í miðborginni þar sem athuguð voru leyfi leigubílstjóranna og ökutækja þeirra.

Í tæplega helmingi tilfella voru gerðar athugasemdir vegna grunsemda um brot og eiga nú 48 leigubílastjórar yfir höfði sér kæru vegna þessa. Um málið segir Daníel að lögregla sé þó einungis að skoða bíla sem hafa taxamerki en margir leigubílstjórar séu merkjalausir.

„Það er fullt af þeim sem eru ekki með taxamerki og það er fullt af öðrum aðilum sem eru ekki skráðir með rekstur eða leyfi eða neitt sem eru að keyra fyrir hótelin, fyrir vini sína á Facebook, fyrir ferðaskrifstofur, fyrir rútufélög. Óskráðir og órekjanlegir. Viðskiptavinurinn er búinn að borga eitthvað á netinu en bílstjórinn og bíllinn eru órekjanlegir,“ segir Daníel og nefnir jafnframt að starfsmenn Frama hafi heyrt af – og tilkynnt Samgöngustofu – að ökumenn án leyfis séu komnir á götuna.

Spurður hvernig best væri að hafa eftirlit með bílunum segir Daníel að taka eigi upp litaðar númeraplötur.

„Reglugerðin á að hafa það sem skyldu að allir sem ætla að keyra leigubíl eigi að vera með sérlitaða númeraplötu. Þær auka öryggi almennings um að þetta sé skráður og löglegur leigubíll og að hann sé undir eftirliti,“ segir Daníel og bætir við:

„Þannig að þeir sem fá að keyra án gjaldmælis eða án taxamerkis – þeir eru samt með þessa númeraplötu.“

Tekur hann fram að notast sé við litaðar númeraplötur í ýmsum löndum eins og í Svíþjóð, Hollandi og Grikklandi og nefnir að Finnar séu að fá það í gegn hjá sér.

Höf.: Egill Aaron Ægisson