Wolt Ekki er búið að taka ákvörðun um hvort lagðar verði fram ákærur.
Wolt Ekki er búið að taka ákvörðun um hvort lagðar verði fram ákærur. — Ljósmynd/Wolt
Lögreglan hefur ekki ákveðið hvort starfsmenn sem störfuðu án atvinnuréttinda hjá heimsendingafyrirtækinu Wolt verði ákærðir. Þetta segir Unnar Már Ástþórsson, aðalvarðstjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við Morgunblaðið

Lögreglan hefur ekki ákveðið hvort starfsmenn sem störfuðu án atvinnuréttinda hjá heimsendingafyrirtækinu Wolt verði ákærðir. Þetta segir Unnar Már Ástþórsson, aðalvarðstjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við Morgunblaðið. Hann segir að rannsókn lögreglunnar sé lokið en málið liggi nú hjá ákærusviði til meðferðar.

Wolt hefur verið til rannsóknar hjá lögreglu síðan í maí vegna einstaklinga sem starfa hjá fyrirtækinu án atvinnuleyfis. Þá eru dæmi um að undirverktakar hjá Wolt, sem eru með atvinnuréttindi á Íslandi, leigi út réttindi sín til annarra einstaklinga sem eru ekki með atvinnuleyfi.

Wolt ákvað að bregðast við þessu með því að hefja andlitsgreiningar í appi og átti það að hefjast 3. júní, en að sögn Halldórs Oddssonar, lögfræðings hjá Alþýðusambandi Íslands (ASÍ), hefur andlitsgreiningin ekki enn hafist.

Býst við öðrum fundi

Fulltrúar ASÍ og Wolt áttu fund saman á föstudag þar sem farið var yfir þróun mála á undanförnum mánuðum, segir Halldór í samtali við Morgunblaðið. Hann kveðst ekki vilja greina frá innihaldi fundarins en segir að þar hafi verið „farið um víðan völl um það sem hefur gengið á undanfarna mánuði“.

Halldór segir samtalið hafa gengið vel og á von á að fulltrúar beggja aðila muni funda aftur. Hins vegar sé grundvallarágreiningur og ólík sýn um ákveðna hluti á milli þeirra. ASÍ hefur gagnrýnt að leggja eigi fram ákæru gegn einstaklingum í málinu. birta@mbl.is