Svanhildur Snæbjörnsdóttir fæddist í Svartárkoti í Bárðardal 14. október 1922. Hún lést á hjartadeild Landspítalans 2. júlí 2024.

Foreldrar hennar voru hjónin Snæbjörn Þórðarson, f. 1888, og Guðrún Árnadóttir, f. 1890.

Eftirlifandi tvíburasystir Svanhildar er Hlaðgerður, f. 14. október 1922, nú búsett á Hrafnistu á Sléttuvegi. Þær hlutu titilinn elstu eineggja tvíburar landins en þær urðu 101 árs 14. október 2023. Önnur systkini Svanhildar voru Árný, f. 4.4. 1915, d. 19.4. 2016; Erlendur, f. 4.11. 1916, d. 12.7. 2001; Hrefna, f. 27.12. 1917, d. 18.4. 1980; Kristrún, f. 22.10. 1919, d. 22.5. 1945, og Þórður, f. 25. 12.1924, d. 12.4. 2009.

Eiginmaður Svanhildar var Guðbjörn Þorsteinsson, f. 30.10. 1927, d. 6.12. 1991, sjómaður og skipstjóri. Þau giftu sig 29. april 1952 og voru lengst af búsett í Eikjuvogi 5 í Reykjavík. Síðari æviárin átti Svanhildur góðan vin og samferðamann í Gunnari Magnússyni, f. 18.6. 1922, d 13.3. 2016.

Börn Svanhildar og Guðbjörns eru 1) Margrét, f. 20.5. 1951. Maki: Ólafur Gröndal. Þau eiga eitt barn, Guðbjörn Yngva og þrjú barnabörn; 2) Snæbjörn, f. 13.12. 1952, Maki: Elín Sigríður Jósefsdóttir. Þau eiga þrjú börn, Svanhildi, Hörpu og Snæbjörn Gauta og fimm barnabörn; 3) Signý, f. 17.7. 1955. Hún á fjögur börn; Hlaðgerði Írisi, Þorstein Mar, Söru Hrund og Ástrósu, þrettán barnabörn og tvö langömmubörn; 4) Steinunn, f. 2.5. 1964. Maki: Björn Erlendsson. Þau eiga þrjú börn; Andra Frey, Erlend Auðun og Margréti Lóu. Svanhildur átti því fjögur börn, 11 ömmubörn, 21 langömmubarn og tvö langalangömmubörn.

Svanhildur fæddist í Svartárkoti, sem er innsti bærinn í Bárðardal, en fjölskyldan flutti síðan að Ásláksstöðum í Kræklingahlíð í Eyjafirði, þegar hún var sjö ára.

Svanhildur varð síðar vinnukona, kokkur á síldarbátum, vann við síldarsöltun og fleira. Eftir að hún kynntist Guðbirni var hún húsmóðir í 35 ár, en fór svo aftur út á vinnumarkaðinn í nokkur ár. Helstu áhugamál hennar voru að ferðast um landið, rækta garðinn og lestur góðra bóka.

Útför Svanhildar fer fram frá Háteigskirkju í dag, 10. júlí 2024, og hefst athöfnin klukkan 13.

Svanhildur tengdamóðir mín og vinkona kvaddi þetta jarðlíf 2. júlí síðastliðinn. Hún hefur verið í lífi mínu frá árinu 1969 er ég fór að slá mér upp með einkasyninum. Fljótlega var ég komin inn á heimilið í Eikjuvogi 5. Þau hjón Svanhildur og Guðbjörn tóku mér vel og voru til staðar fyrir mig.

Svanhildur var sterkur persónuleiki, sjómannskona sem annaðist heimilishaldið af miklum myndugleika. Hún hafði ákveðnar skoðanir og var ein sú hreinskiptnasta manneskja sem ég hef kynnst. Stundum fannst mér hún óþarflega hreinskilin. Margir brandarar eru innan fjölskyldunnar af hreinskilni hennar.

Til að mynda fannst henni lýti á börnunum okkar að hafa ekki fengið munnsvip föður síns. Hún hafði þá trú að ekki ætti að hrósa fólki mikið, það gæti orðið montið. Eitt sinn þegar dóttir hennar kom hróðug heim með gull-verðlaunapening, sagði Svanhildur: Varstu ein að keppa? Já hún var fljót að fá fólk niður á jörðina, ef það leyfði sér að fljúga hærra.

Aðaláhugamál hennar, fyrir utan fjölskylduna, voru garðrækt, útivera og ferðalög um Ísland. Hún var afar fróð um landið og kunni nöfn á kennileitum og fræddi þá sem yngri voru og á heimleið var spurt og var þá eins gott að muna og standa ekki á gati. Á sumrin vann hún í garðinum sínum og ræktaði grænmeti, auk litskrúðugra blóma og blómstrandi runna. Garðurinn í Eikjuvogi 5 var mjög fallegur og vel hirtur. Þegar við unga fólkið fórum með henni í gönguferðir eða skíðagöngur, þá stakk hún okkur iðulega af, allavega var hún alltaf fremst í flokki.

Hún reyndist mér ætíð vel og var í raun kletturinn ef á þurfti að halda. Hún var kona sem hafði ekki mörg orð um hlutina, en gekk í verkin og vann fljótt og vel. Í veikindum mínum fyrir um þrjátíu árum var Svana aðalhlekkurinn sem aðstoðaði okkur fjölskylduna. Ekkert óþarfa orðagjálfur, bara gengið í verkin. Hef sjálf ekki verið góð í að tala um hlutina þegar syrtir að, en svo gefandi að finna samhygð og styrk frá annarri manneskju og það gaf hún mér.

Alla laugardagsmorgna hittist stórfjölskyldan í Eikjuvogi 5 í grjónagraut og svo áfram á Sléttuveginum, þar til eftir að hún varð níræð, þá tilkynnti hún okkur að hún væri hætt með grautinn góða.

Eftir fráfall Guðbjörns var hún í góðum vinskap við Gunnar Magnússon. Þau höfðu svipuð áhugamál og ferðuðust saman um landið með tjaldvagninn. Voru þau iðulega með gamaldags íslenskan mat í útilegum og suðu á prímusnum skötu, saltkjöt og fleira í þeim dúr.

Árið 1992 flutti hún að Sléttuvegi 11 og bjó þar ein og sá um sig sjálf þar til yfir lauk. Henni leiddist að vera mikið ein, svo hún fór í dagvistun á Sléttuna og var þar fjóra daga í viku. Hún var ánægð að hitta þar annað fólk og tvíburasystir hennar, Hlaðgerður, er þar á hjúkrunarheimilinu og hittust þær því reglulega.

Elsku Svana mín, hjartans þakkir fyrir gefandi samverustundir og umhyggjuna sem þú barst fyrir okkur fjölskyldunni. Hvíl þú í Guðs friði.

Elín Sigríður Jósefsdóttir.

Mér brá mikið þegar mamma hringdi í mig og sagði mér að Svana amma væri dáin. Þó að hún væri að verða 102 ára þá voru þetta samt svo óvæntar fréttir því amma hefur alltaf verið svo hraust og ern. Eftir að hafa meðtekið sjokkið við að heyra fréttirnar fylltist ég samt þakklæti yfir því að hún hefði fengið að fara svona, alveg eins og hún hefði sjálf viljað. Eins og mamma sagði, þá gerði Svana amma allt hratt, og þetta líka.

Það að segja að amma hafi gert allt hratt lýsir henni svolítið vel. Hún var þvílíkur dugnaðarforkur og var aldrei neitt að tvínóna við hlutina heldur dreif þá bara af. Amma var ekki kona sem naut þess að slappa af. Hún vildi alltaf vera að gera eitthvað og hafði gaman af því að fá heimsóknir eða vera boðið í heimsókn eða bíltúr.

Amma var alltaf mjög virk. Eftir að hafa alið upp fjögur börn fór hún að vinna og hún var ætíð tilbúin að aðstoða börnin sín með barnabörnin. Þegar ég var barn mætti alltaf öll fjölskyldan í Eikjuvoginn í grautinn góða í hádeginu á laugardögum, en amma gerði betri grjónagraut en nokkur annar. Það var alltaf gaman í Eikjuvoginum. Við máttum vera í boltaleik á ganginum, spila Minipops-plötuna í holinu og syngja hástöfum eða leika úti í garði. Svana amma hugsaði vel um garðinn sinn og á hverju sumri var tekin mynd af okkur barnabörnunum fyrir framan rósarunnann hennar ömmu.

Ég var ellefu ára þegar afi dó og stuttu seinna flutti amma í litla eldriborgaraíbúð. Þó að rýmið væri minna hélt hún samt áfram að fá alla stórfjölskylduna í morgunkaffi um helgar og þær systur, amma og Hlalla, fóru að skiptast á að bjóða til sín í morgunkaffi. Í kringum tvítugsaldurinn, þegar maður stundaði djammið um helgar og fór seint að sofa, kom samt aldrei annað til greina en að mæta í morgunkaffið því þó ég væri kannski lítið búin að sofa þá var þetta heilög fjölskyldustund sem ég vildi ekki missa af.

Amma var mér mikil fyrirmynd. Hún hugsaði vel um heilsuna og línurnar og elskaði útiveru. Þegar ég var barn fórum við saman í óteljandi útilegur og alltaf var amma til í gönguferðir. Amma hélt áfram að fara í útilegur fram á níræðisaldur og fór nær daglega í gönguferðir út frá heimilinu sínu alveg fram á síðustu ár. Það var henni mjög mikilvægt að halda sér virkri og taka þátt í lífinu.

Ég lærði af ömmu að dugnaður og sjálfsagi skilar árangri. Einnig að það er mikilvægt að vera gerandi í sínu lífi, að framkvæma það sem veitir manni gleði og líka allt hitt sem bara þarf að gera þó mann langi ekki alltaf til þess. Hún kenndi mér líka að njóta náttúrunnar og útiveru. Amma kenndi mér líka að spila rommý og við spiluðum mikið þegar ég var krakki. Í fyrsta skipti sem við Mundi tókum slátur kom hún og hjálpaði okkur og sneið og saumaði með mér vambir.

Ég er ótrúlega heppin að hafa fengið að njóta samvista við ömmu mína í 44 ár. Það er skrítið að kveðja ástvin sem hefur fylgt manni alla ævi en ég kveð ömmu mína full af þakklæti fyrir allar okkur góðu stundir saman og fyrir allt sem hún kenndi mér um lífið.

Hvíl í friði elsku amma.

Svanhildur
Snæbjörnsdóttir.

Þá er Svana amma fallin frá, södd lífdaga enda nærri 102 ára gömul. Hún fæddist í torfbæ, lengst inn af Bárðardal, í Svartárkoti, og er óhætt að segja að hún hafi upplifað tímana tvenna. Amma var kjarnakona, sjálfstæð og gekk óhikað í öll verk án þess að láta smáatriði á borð við tilfinningar eða skoðanir annarra standa í vegi fyrir sér.

Að sama skapi lá amma sjaldnast á skoðunum sínum. Eitt sinn heimsótti ég hana á Sléttuveginn, hvar hún bjó seinustu þrjá áratugi eða svo, í miðju Hruninu, og barmaði mér yfir hækkunum á afborgunum fasteignalána og verðlagi. Mér varð á að kalla þessa stöðu kreppu. Amma setti hnefann í borðið og sagði ákveðin: Þorsteinn, á meðan þú getur sett mat á borðið hvert kvöld er ekki kreppa!

Það var alltaf gaman að heimsækja hana og á ég margar kærar minningar frá Eikjuvoginum og síðar Sléttuveginum. Það má með sanni segja, að nú þegar hún er látin sé ákveðnu tímabili lokið og annað að hefjast.

Kæra amma, til hamingju! Þú lifðir góðu lífi og skilur eftir þig ríka arfleifð. Þá fékkstu að fara eins og þú hefðir helst kosið. Þótt söknuður knýi óhjákvæmilega dyra á stundu sem þessari get ég ekki annað en glaðst með þér. Rétt eins og Laxness, sem þú hélst upp á, segi ég: Nú bið ég um að mega kveðja þig eins og ástvin sem er að deya. Þú líður til sumarlandsins fagra. Ég veit að þér verður vel fagnað þar.

Þorsteinn Mar Gunnlaugsson.

Sælinú, ég er yngsta barnabarnið hennar Svanhildar eða ömmu Svönu eins og ég kallaði hana. Það voru 77 ár á milli okkar.

Þegar ég var yngri fannst mér geggjað að eiga ömmu sem var eldri en allar hinar ömmurnar. Mín amma var sko búin að upplifa svo mikið og átti svo margar sögur að segja. Hún var dugleg vinnukona, móðir og systir. Hún var mjög sjálfstæð og var óhrædd við að segja sínar skoðanir.

Ég fékk alltaf eplasíder að drekka hjá henni og konfektmola í nesti. Hún átti alltaf til súkkulaði í ísskápnum, en hvort það var gamalt eða nýtt vissi maður ekki, en ég sagði alltaf já takk. Það var gaman að kíkja í heimsókn til ömmu, hún var alltaf að segja merkilegar sögur og mér fannst ótrúlegt hvað hún var með gott minni, ég man ekki einu sinni hluti sem gerðust hjá mér fyrir fimm árum!

Síðasta skiptið sem ég hitti ömmu þá vorum það bara við tvær, sem gerðist ekki oft. Ég fór til hennar að laga sjónvarpsfjarstýringuna, það þurfti ekki mikið til þess að laga hana en amma var mjög ákveðin í að hún væri alveg biluð. Ég vissi að það þýddi ekkert að þræta við hana þannig að ég leysti það þannig að núna þyrfti hún einungis að slökkva og kveikja á sjónvarpinu. Að launum gaf hún mér að sjálfsögðu súkkulaði og eina góða sögu frá æsku sinni. Eftir það kvaddi ég hana með kossi á kinn og sagði sjáumst seinna.

Þegar ég horfi á ættbogann hennar ömmu sé ég hluta af henni í hverjum og einum þannig að í raun er hún aldrei farin, hún er alltaf til staðar á einhvern hátt.

Ég er stolt af að vera afkomandi svona flottrar og merkilegrar konu.

Takk fyrir allt saman amma.

Margrét Lóa Björnsdóttir.

Elsku Svana amma mín, náttúrubarnið, er farin í sumarlandið góða þar sem bíða hennar sólardagar, hlíðar fullar af lyngi og fjallagrösum, góðar bækur og fólk sem segir henni skemmtisögur.

Amma mín var einstök kona með kvikan hug, fyrirmynd í heilbrigðum lífsstíl og sjálfstæði, hugmyndarík og lausnamiðuð með eindæmum. Það var gott að ræða við ömmu um málefni líðandi stundar því það var fátt sem hún hafði ekki skoðun á, hún var lífsreynd og hafði upplifað magnaðar samfélagsbreytingar á sinni löngu ævi. Það er fjársjóður fyrir okkur sem yngri erum.

Ég er afar þakklát fyrir að hafa átt svona frábæra og langlífa ömmu. Ég er henni þakklát fyrir öll samtölin og símtölin, samverustundirnar, góðvildina og hrósyrðin sem hún hvíslaði frekar í eyra mér en að segja þau upphátt svo aðrir heyrðu. Ég er þakklát fyrir hlátursköstin, spilastundirnar sem einkenndust af hávaða og fjöri, kennsluna í mikilvægi þess virða og njóta náttúrunnar og segja sögur svo þær séu skemmtilegar.

Amma mín, kærar þakkir fyrir samfylgdina.

Við pössum vel upp á Hlöllu.

Farðu í friði og njóttu sumarlandsins.

Sara Hrund Signýjardóttir.