Viðskiptaráð birti í byrjun júlí úttekt á efnahagslegum áhrifum nýsamþykktra þingmála ríkisstjórnarinnar. Að mati ráðsins var það mál sem hafði jákvæðustu efnahagslegu áhrifin heimild til sölu á eftirstandandi hlutum ríkisins í Íslandsbanka. 11 þingmál voru metin með markverð neikvæð áhrif. Viðskiptaráð tók fram að meðal mála sem hefðu markverð neikvæð efnahagsleg áhrif væru „til dæmis ný húsaleigulög, sem munu draga úr framboði leiguhúsnæðis (…). Þá höfðu öll þingmál í tengslum við undirritun kjarasamninga neikvæð áhrif, til dæmis sérstakur vaxtastuðningur, gjaldfrjálsar skólamáltíðir og hækkun húsnæðisbóta,“ svo vitnað sé beint í úttekt ráðsins. Þingmál úr innviðaráðuneyti höfðu raunar neikvæðustu efnahagslegu áhrifin að mati Viðskiptaráðs.
Að meta efnahagsleg áhrif er ein leið til að meta ávinning en hvort nokkurt vit sé í því mati er háð þeim sem matið framkvæmir og hugmyndafræði þeirra. Hjá Viðskiptaráði hefur nýfrjálshyggjan greinilega verið ráðandi, sú hugsun að markaðurinn eigi að vera í öndvegi og samfélagið að dansa í takt við hann. Mælikvarðar sem þessir eru að mínu mati merkingarlausir einir og sér í hinni stóru mynd. Við þurfum að sjálfsögðu að skoða samfélagsleg áhrif þingmálanna frá fleiri hliðum en þeim sem Viðskiptaráði þóknast. Ef við lítum á þingmál innviðaráðuneytis sjáum við til að mynda að nýsamþykktar breytingar á húsaleigulögum hafa það markmið að bæta réttarstöðu leigjenda, auka húsnæðisöryggi og stuðla að bæði langtímaleigu og fyrirsjáanleika. Þetta eru atriði sem bæta hag leigjenda. Hækkun húsnæðisbóta snýst svo um að bæta kjör þeirra sem leigja húsnæði og sérstaklega þeirra sem standa höllustum fæti.
Með samþykkt frumvarps um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga verða skólamáltíðir gjaldfrjálsar frá og með næsta skólaári. Sú aðgerð ásamt fleirum bætir kaupmátt fjölskyldufólks og með henni sköpum við jafnara og betra samfélag fyrir börnin okkar og þar með okkur öll.
Flest erum við sammála um að við viljum lifa í heimi þar sem almenn velsæld er hornsteinn efnahagslegrar og félagslegrar þróunar, þar sem við leggjum áherslu á svokallað velsældarhagkerfi og aðgerðir stjórnvalda miða að velferð og lífsgæðum almennings á breiðum grunni. Þá getum við ekki einungis lagt áherslu á meintan „efnahagslegan ávinning“ þingmála og litið framhjá áhrifum þeirra á lífsgæði almennings.
Það er mikilvægt fyrir stjórnmálin að láta einfeldningslega einkunnagjöf sérhagsmuna ekki hafa áhrif á stefnumótun sem á að koma almenningi til góða. Ég legg á það áherslu í öllum mínum störfum að samfélagið okkar verði ekki aðeins efnahagslega farsælt heldur samfélag velsældar fyrir öll sem þar búa.
Höfundur er innviðaráðherra. svandis.svavarsdottir@irn.is