Ný verslun 66°Norður verður fyrir miðju Kaupmannahafnarflugvallar.
Ný verslun 66°Norður verður fyrir miðju Kaupmannahafnarflugvallar. — Morgunblaðið/Gísli Freyr
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Unnið er að opnun nýrrar verslunar 66°Norður á Kaupmannahafnarflugvelli, áður kenndur við Kastrup, en stefnt er að því að taka á móti fyrstu viðskiptavinunum á allra næstu dögum. Helgi Rúnar Óskarsson, forstjóri 66°Norður, segir opnun verslunarinnar tilhlökkunarefni

Unnið er að opnun nýrrar verslunar 66°Norður á Kaupmannahafnarflugvelli, áður kenndur við Kastrup, en stefnt er að því að taka á móti fyrstu viðskiptavinunum á allra næstu dögum. Helgi Rúnar Óskarsson, forstjóri 66°Norður, segir opnun verslunarinnar tilhlökkunarefni.

„Við höfum rekið útibú á Keflavíkurflugvelli með góðu gengi um áraraðir ásamt því að hafa rekið verslun í Kaupmannahöfn í tíu ár. Þess vegna höfum við lengi leitt hugann að Kastrupflugvelli og frekari rekstri þar. Opnunin nú er tilraunaverkefni og við hyggjumst reka verslunina að minnsta kosti í eitt og hálft ár. Við tökum svo stöðuna að því loknu,“ segir Helgi í samtali við ViðskiptaMoggann.

Sækja á erlenda markaði

Fyrsta verslun fyrirtækisins á erlendri grundu var opnuð í Kaupmannahöfn árið 2014 og verður hin nýja verslun þar með sú önnur í Danmörku. Fyrirtækið hefur fjárfest nokkuð í nýjum verslunum á undanförnum árum, til dæmis var opnuð ný verslun á Hafnartorgi í ársbyrjun auk þess sem útibúið á Keflavíkurflugvelli var enduropnað í vor. Þá var opnuð ný 66°N-verslun í Lundúnum árið 2022. Opnunin nú er að sögn Helga Rúnars hluti af frekari sókn á erlenda markaði og í takt við áherslur um aukinn sýnileika vörumerkisins.

„Við erum að færa út kvíarnar og erum því bæði að fjárfesta í verslunum innanlands og utan. Þó að það sé vissulega kostnaðarsamt að reka verslun á svo eftirsóttum stað er þessi flugvöllur einn sá fjölfarnasti í Norður-Evrópu en tuttugu og sex milljónir ferðamanna fara um völlinn árlega. Staðsetningin er því tilvalin til að þjónusta þann fjölda sem á þar leið um. Það á einnig við um Íslendinga sem býðst nú að kaupa sér vörur án þess að greiða virðisaukaskatt,“ segir Helgi Rúnar og bætir við að verslunin verði á því svæði flugvallarins sem Íslendingar fara gjarnan um á leið sinni heim.

Danir tekið þeim fagnandi

Helgi Rúnar segir Danmörku nú vera meðal helstu markaða 66°Norðurs og að þar ríki mikil jákvæðni í garð fyrirtækisins.

„Við höfum fengið afar góðar móttökur og höfum þar talsverða dreifingu í gegnum okkar eigin verslanir og heildsölu. Til dæmis má nú finna vörur frá okkur í stórverslunum á borð við Illum og Strøm í Kaupmannahöfn. Það eru að sjálfsögðu góð tengsl milli landanna og Danir kunna að meta íslenska hönnun. Þess má einnig geta að Danir eiga ekkert alvöru útivistarmerki og hafa því tekið okkur opnum örmum og jafnvel litið svolítið á okkur sem þeirra eigin,“ segir Helgi Rúnar að lokum.