Sviðsljós
Drífa Lýðsdóttir
drifa@mbl.is
Kynferðisleg áreitni og ofbeldi á vinnustað tengjast auknum líkum á ýmsum heilsuvandamálum meðal kvenna á Íslandi. Má þar nefna einkenni þunglyndis, kvíða, félagsfælni, sjálfsskaða, sjálfsvígshugsana, sjálfsvígstilrauna, lotudrykkju, svefnvandamála og líkamlegra einkenna og veikindaleyfi frá vinnu.
Þetta er meðal niðurstaðna úr rannsókninni Áfallasaga kvenna sem birtar voru nú á dögunum í tímaritinu Lancet Public Health. Niðurstöðurnar voru einnig birtar á vef Háskóla Íslands, en rannsóknin er ein sú umfangsmesta sinnar tegundar.
Niðurstöður rannsóknarinnar verða birtar í þremur hlutum og eru þessar niðurstöður hluti tvö. Fyrstu niðurstöður sýna að um 40% íslenskra kvenna hafa orðið fyrir ofbeldi á lífsleiðinni, áreitni á vinnustöðum er algeng og breytileg eftir vinnuumhverfi og að ofbeldi sé það áfall sem felur í sér mestar líkur á áfallastreituröskun.
Í þessum hluta voru tengsl á milli þess að hafa lent í kynferðislegri áreitni/ofbeldi á vinnustað og heilsuvandamála skoðuð. Í úrtakinu voru 15.812 íslenskar konur á aldrinum 18 til 69 ára sem endurspegluðu íslensku kvenþjóðina vel hvað varðar aldur, búsetu, menntun og tekjur.
Í þeim hópi höfðu 34% orðið fyrir kynferðislegri áreitni eða ofbeldi á vinnustað. Þar af höfðu 26% upplifað það á fyrri vinnustað eingöngu, 4% eingöngu á núverandi vinnustað og 4% á bæði fyrri og núverandi vinnustað.
Algengt að upplifa einkennin
Fyrsti hluti Áfallasögu kvenna fór fram á árunum 2018 og 2019 og svöruðu þátttakendur spurningalista þar sem meðal annars var spurt um kynferðislega áreitni og ofbeldi á vinnustað og andlegt og líkamlegt heilsufar. Síðan þá hefur teymið unnið að niðurstöðunum og birt greinar í tímaritinu Lance Public Health.
Vinnuveitendur bregðist við
„Í rauninni bara það hvað þetta er tengt mörgum heilsufarsafleiðingum,“ segir Svava Dögg Jónsdóttir, leiðandi þessa hluta rannsóknarinnar og doktorsnemi í faraldsfræði við Háskóla Íslands, spurð að því hvað hafi komið henni mest á óvart við niðurstöður þessa hluta rannsóknarinnar.
„Við erum að skoða allar konur sem tóku þátt á aldrinum 18 til 69 ára og þetta eru 15.812 konur og þær geta allar verið með þessar heilsufarsafleiðingar út af einhverjum öðrum ástæðum, en þegar við skoðum sérstaklega þennan hóp, sem hefur orðið fyrir áreitni, þá sjáum við að það er algengara að þær hafi þessi einkenni heldur en þær sem hafa ekki upplifað áreitni.
Við erum með þessar vísbendingar um afleiðingar af áreitni og ofbeldi á vinnustað og svo er þetta mjög algengt meðal kvenna, þannig að vinnuveitendur þurfa að taka þetta alvarlega, vera með skýra stefnu gegn kynferðislegri áreitni ásamt tilkynningarkerfum og fræða starfsfólk um stefnu vinnustaðarins og þær leiðir sem eru í boði, því stundum eru leiðir í boði sem starfsfólk veit ekki einu sinni af,“ segir Svava, spurð hvað hægt sé að gera til að fyrirbyggja áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.
Þá segir hún að mikilvægt sé að hafa gott tilkynningakerfi þannig að ef fólk tilkynnir um áreitni eða ofbeldi á vinnustað þá geti það vitað að það fari af stað ákveðið ferli innan vinnustaðarins.
Áfallasaga kvenna
Áhrif áfalla á konur mikil
Rannsóknin Áfallasaga kvenna er vísindarannsókn á vegum Háskóla Íslands þar sem markmiðið er að auka þekkingu á tíðni áfalla og áhrifum þeirra á heilsufar kvenna. Konur á aldrinum 18 til 69 ára tóku þátt í rannsókninni sem fór fram á árunum 2018 og 2019 og svöruðu spurningalistum. Rannsóknin er ein umfangsmesta vísindarannsókn heims á sínu sviði.
Í janúar fór af stað eftirfylgdarrannsókn þar sem þær konur sem tóku þátt í fyrstu rannsókninni geta svarað nýjum spurningum þar sem þær eru spurðar út í áföllin, aðstæður og afleiðingar tengdar þeim og líka út í gerendur og samband við þá og hvort áreitni hafi átt sér stað einu sinni eða oftar.