Ágústa Margrét Þorsteinsdóttir fæddist á Húsavík 2. mars 1975. Hún lést á Droplaugarstöðum 28. júní 2024 eftir erfið veikindi.

Foreldrar hennar eru Hulda Svansdóttir, f. 18. nóvember 1937, og Þorsteinn Jónsson, f. 11. ágúst 1934, d. 19. febrúar 2010.

Eftirlifandi eiginmaður Ágústu er Gauti Ástþórsson, f. 6. nóvember 1970. Foreldrar hans eru Elísabet Harpa Steinarsdóttir og Ástþór Ragnarsson, d. 9. febrúar 2019.

Synir Ágústu og Gauta eru: 1) Þorsteinn Jón, f. 29. ágúst 1995, giftur Guðrúnu Elínu Davíðsdóttur. Börn þeirra eru Baldur Elí og Hulda Dröfn. 2) Ástþór Ragnar, f. 20. júlí 2001. Systur Ágústu sammæðra eru Jóhanna, f. 24. mars 1967, og Sigurbjörg, f. 30. mars 1970.

Ágústa lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Hún stundaði nám í viðskiptafræði við Háskóla Íslands og starfaði lengst af við verslunarstörf.

Útför Ágústu fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 10. júlí 2024, og hefst athöfnin kl. 13.

Það er með þungum harmi og söknuði sem ég skrifa þér þessi kveðjuorð, elsku Ágústa mín. Eftir erfið og langvinn veikindi ertu nú fallin frá svo langt fyrir aldur fram. Þú tókst á við veikindin af einstöku hugrekki og æðruleysi. Þú varst einstaklega vel gerð og góð manneskja, góðum gáfum gædd og hæfileikarík. Þú varst líka mjög handlagin, sem nýttist þér við að leysa úr alls kyns málum sem mörgum öðrum uxu í augum. Þennan hæfileika hafðir þú frá pabba þínum og afa, elsku Steina sem reyndist mér einnig sannur faðir alla tíð, og Jóni, elskulegum afa okkar.

Margs er að minnast og ég er þér innilega þakklát, Ágústa mín, fyrir samfylgd okkar, allar samverustundirnar og vináttuna í gegnum tíðina, allt frá því þú komst í heiminn þegar ég var fimm ára gömul. Þú lýstir upp veröldina í kringum þig með einlægni þinni og hjartahlýju.

Við fórum í nokkur frábær ferðalög saman og stendur þar upp úr ævintýraferðin okkar mikla til Grænlands þar sem við sigldum um á kajak innan um ísjaka í stórbrotinni náttúru. Þá voru ferðirnar okkar til London afar skemmtilegar, enda leitun að jafn góðum ferðafélaga og þér, með þitt ljúfa skap, skemmtilegu hreinskilni og húmor.

Þú sýndir litlu frænku þinni, henni Arnbjörgu okkar, einlæga væntumþykju og umhyggjusemi alla tíð og sú væntumþykja var sannarlega gagnkvæm. Þú varst til staðar fyrir hana, sýndir áhugamálum hennar áhuga og þið voruð ávallt miklar vinkonur.

Þau feðgin eru, eins og við öll, slegin sorg og söknuði á þessum erfiðu tímamótum. Við fjölskyldan vottum eftirlifandi eiginmanni þínum, sonum ykkar, Ástþóri og Þorsteini, og fjölskyldu okkar dýpstu samúð. Síðasta árið dvaldir þú á Droplaugarstöðum og við þökkum starfsfólki á MND-deildinni góða og kærleiksríka umönnun. Falleg minning um þig, elsku systir mín, er ljós í lífi okkar sem eftir lifum.

Hjartans þökk fyrir allt.

Hvíl í friði.

Þín systir,

Sigurbjörg.

Það er komið að kveðjustund elsku Ágústa, litla systir mín. Þó finnst mér svo ótrúlega stutt síðan þú fæddist en það er kannski vegna þess að sá dagur er mér alltaf í fersku minni. Hlutverk mitt sem stóra systir tók ég mjög alvarlega og var eins og reikistjarna á sporbaug umhverfis vögguna þína. Það voru forréttindi að tilheyra þínu sólkerfi enda geislarnir sem frá þér stöfuðu alla tíð bæði bjartir og hlýir.

Það kom fljótt í ljós að þú hafðir einstaklega ljúfa skapgerð. Þú bjóst yfir þessari stóísku ró sem ég held að einkenni þá sem náð hafa þeim andlega þroska að vera hafnir yfir allt dægurþras. Frá fyrstu stundu stafaði frá þér hjartahlýju og manngæsku enda tókst þér alltaf að sjá það góða í öllum. Þú varst mikill húmoristi og gast séð spaugilegar hliðar á flestum hlutum þó við hin ættum oft erfiðara með það. Alltaf var stutt í brosið og hláturinn þinn var bráðsmitandi. Skemmtilegri félagsskap var ekki hægt að hugsa sér, hvort sem það voru sumarbústaðaferðirnar, ferðalögin eða spilakvöldin. Gauti kom inn í líf þitt fyrir þrjátíu árum og frá fyrstu stundu var eins og hann hefði alltaf tilheyrt fjölskyldunni. Þær voru ófáar stundirnar sem við áttum saman með strákunum ykkar og stelpunum mínum, enda vorum við eins og ein stór fjölskylda. Þú varst svo sannarlega uppáhaldsfrænkan og stelpurnar mínar sóttu mikið í félagsskap þinn frá því þær voru litlar. Þegar þið Gauti fóruð að búa vissu þær fátt skemmtilegra en að dvelja á heimili ykkar og njóta samverunnar með ykkur og strákunum ykkar, hvort sem var spilað eða horft á góða mynd.

Það var okkur öllum mikið áfall þegar þú greindist með MND-sjúkdóminn enda gefur hann enga von um bata heldur aðeins vissuna um að einkenni hans muni versna og að lokum muni hann sigra. Þú tókst hlutskipti þínu af einstöku æðruleysi og sýndir aðdáunarvert hugrekki. Það þarf kjark og styrk til að sigla inn í veikindi sem þessi, vitandi að færnin og getan muni smám saman fara þverrandi. Gauti stóð eins og klettur við hlið þér í veikindum þínum og vék varla frá þér. Ég er óendanlega þakklát starfsfólkinu á taugalækningadeildinni í Fossvogi og á Droplaugarstöðum fyrir það hversu mikla hlýju þau sýndu þér í veikindum þínum. Það er mikils virði fyrir aðstandendur að vita af ástvini sínum í öruggum og mildum höndum.

Það er sérkennilegt að hugsa til framtíðarinnar án þín en það er huggun í því fólgin að vita að nú ertu á góðum stað og laus við þjáningar.

Takk fyrir allt elsku systir, hittumst síðar.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti,

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Jóhanna Sigurjónsdóttir.

Elskuleg mágkona mín Ágústa lést síðastliðinn föstudag af völdum MND-sjúkdómsins. Það er óraunverulegt að hún sé farin aðeins 49 ára að aldri. Ágústa var einstaklega ljúf, hafði góða nærveru, var nægjusöm, þolinmóð og laus við alla tilgerð og upphafningu. Hún hafði gaman af að spila, enda Gauti líka mikill spilamaður, hún hélt alveg í við hann og var jafnvel enn útsjónarsamari í að hugsa leikina vel fram í tímann og finna nýjar aðferðir við að spila spilið. Alltaf með allar reglur á hreinu, mjög eftirtektarsöm og greind. Ef spiluð voru spurningaspil og staðreyndaspil var mjög heppilegt að lenda með henni í liði því hún var með svo gott minni varðandi sögu, landafræði, ártöl, með allt á hreinu, algjört stálminni.

Ágústa hafði líka gaman af dægurmenningu og var með puttann á púlsinum á því helsta sem var í gangi á hverjum tíma, var að fylgjast með trendum á TikTok, spilaði alla helstu tölvuleiki, tók mjög gott candy crush-tímabil á sínum tíma og alveg með á nótunum í því helsta í appheimum.

Ágústa hafði einstakt lag á börnum og unglingum sem löðuðust mjög að henni, hún sýndi þeim mikinn áhuga og skilning og var alltaf til í spjall um lífið og tilveruna. Gauti og Ágústa kynntust mjög ung og eignuðust fljótlega fjölskyldu. Fyrstu árin þeirra bjó ég talsvert erlendis, en eftir að ég flutti heim hittumst við alltaf reglulega, mest þó í kringum hátíðarhöld. Eftir að ég eignaðist sjálf fjölskyldu jókst samveran jafnt og þétt. Síðustu ár höfum við hist mjög reglulega og þá gjarnan spilað saman en einnig ferðast þó nokkuð og hefur samveran alltaf verið góð.

Það var einstakt og óraunverulegt í senn að fylgjast með henni glíma við þennan erfiða sjúkdóm. Fyrir rúmlega ári lagðist hún inn á Borgarspítalann, dvölin þar átti upphaflega að vera stutt enda hafði hún alveg verið heima fram að því. Fljótlega kom þó í ljós að hún þurfti talsvert meiri aðstoð en hún hafði fengið og endaði á að vera þar í 4-5 mánuði. Það var svo sérstakt að koma að heimsækja hana þar því að starfsfólkið var svo frábært og hún var orðin góð vinkona þeirra allra, manni fannst maður næstum vera að trufla að vera að koma í heimsókn. Í framhaldi af dvölinni á Borgarspítalanum bauðst henni pláss á MND-deild á Droplaugarstöðum sem var ótrúlega mikil gæfa. Þar var starfsfólkið einnig alveg frábært, allir með persónulega nálgun og þar urðu líka mjög góð vinasambönd til því einnig var Ágústa svo viðmótsþýð, sýndi öllum svo mikinn áhug, og sýndi starfsfólkinu sömu umhyggjusemi og virðingu og það sýndi henni, sem var svo fallegt. Starfsfólkið á deildinni er einstakt og erum við mjög þakklát því.

Ágústa lést á föstudaginn 28. júní. Þrátt fyrir að vita í hvað stefndi í lengri tíma er það samt svo skrítið og erfitt að vera að kveðja Ágústu. Það berst um bæði sorg en líka ákveðinn léttir því að sjúkdómurinn var orðinn of harður.

Elsku Ágústa mín, hvíl þú í friði. Ég votta Gauta, strákunum og fjölskyldu hennar mína innilegustu samúð.

Erna Ástþórsdóttir.

Í dagsins önn veit maður aldrei hvað bíður bak við næsta horn, þannig er lífið. Það var reiðarslag þegar í ljós kom að Ágústa mágkona mín hafði greinst með MND-sjúkdóminn fyrir nokkrum árum. Ljóst var að fram undan var barátta við óvæginn sjúkdóm sem myndi að lokum hafa sigur. Og hvílík hetja sem Ágústa var í gegnum þessa baráttu. Hún sýndi eindæma kjark og hugrekki og lét aldrei deigan síga þrátt fyrir erfiðleika.

Ég kynntist Ágústu þegar við Sigurbjörg, systir hennar og eiginkona mín, byrjuðum saman fyrir margt löngu og fann strax að þarna var ein hugljúfasta og skapbesta kona sem ég hef kynnst. Einstakt lundarfar Ágústu einkenndist af rólegu fasi og góðmennsku gagnvart öllum og var hreinlega smitandi. Margt kemur upp í hugann og minnist ég okkar samskipta með hlýju og kærleika, enda var Ágústa þannig. Það er sárt að sjá á eftir góðu fólki eins og Ágústu sem lýsti upp heiminn til að gera hann aðeins betri.

Kæra Ágústa. Ég vill þakka fyrir samverustundirnar í gegnum árin sem ávallt voru skemmtilegar og ánægjulegar – það var alltaf gaman að hittast og spjalla. Mestur er ykkar missir, kæru Gauti, Þorsteinn, Ástþór og Hulda, móðir Ágústu og tengdamóðir mín. Og svo barnabörnin tvö sem ekki fá að kynnast Ágústu ömmu sinni almennilega og hennar rólyndi, góðvild og kærleika.Ég votta ykkur mína dýpstu samúð en minningin lifir um frábæra konu.

Hvíl í friði kæra Ágústa.

Hjalti J. Guðmundsson.

Elsku besta uppáhaldsfrænkan okkar, í dag kveðjum við þig með hjörtun full af þakklæti fyrir árin sem við áttum saman. Augnablikið, þegar við fengum þær fréttir að þú hefðir greinst með MND-sjúkdóminn, er okkur ljóslifandi í minningunni. Allt í einu breyttist allt, áfallið var gríðarlegt. Sú staðreynd að það er engin von, engin lækning, nísti inn að beini. Þrátt fyrir þá staðreynd barðist þú eins og hetja í öll þessi fimm ár, það var enga uppgjöf að sjá. Þú varst alltaf jákvæð, brosmild, bjartsýn og sífellt að grínast og hlæja. Jafnvel þegar sjúkdómurinn hafði tekið frá þér öll lífsgæði varstu enn með gamla góða húmorinn. Það var oft erfitt að sýna þér ekki hversu sorgmæddar við vorum yfir hlutskipti þínu en þú vildir horfa á það jákvæða fram á síðasta dag. Við reyndum að vera jákvæðar eins og þú en grétum svo alla leiðina heim, eftir að hafa heimsótt þig. Að kalla þig „bara“ frænku dugar ekki til að lýsa nánum tengslum okkar og vináttu, enda varstu svo miklu meira en frænka. Þú gafst þér endalausan tíma til að leika við okkur þegar við vorum litlar og leyfðir okkur að koma með þér á rúntinn þegar þú fékkst bílprófið. Við óskuðum þess oft að þú værir mamma okkar þegar okkar eigin var með „óþarfa“ leiðindi, enda leyfðirðu allt og reyndir oft að sannfæra mömmu okkar um að leyfa okkur hitt og þetta sem „allir“ aðrir unglingar máttu gera. Þú varst þó ekki mikið eldri en við og varst okkur eins og stóra systir frá fæðingu. Þegar strákarnir þínir fæddust fannst okkur við loksins hafa eignast litla bræður og fannst fátt yndislegra en að hjálpa þér með þá og fá að passa þá. Þú varst svo dásamleg mamma, hlý og góð. Þú varst besti líkamsræktarfélaginn og nenntir endalaust að koma með okkur í ræktina, á hin og þessi námskeið og í einkaþjálfun. Við minnumst með gleði allra spilakvöldanna og ferðalaganna með fjölskyldum okkar. Ferðin til Berlínar 2021 verður okkur lengi minnisstæð, við hlógum saman endalaust og gengum um alla borgina þvera og endilanga. Þegar þú varst komin á taugalækningadeild Landspítalans í Fossvogi hlökkuðum við alltaf til að koma til þín. Þessi kvöld okkar þar og síðar á Droplaugarstöðum eru okkur óendanlega dýrmæt. Vonandi tekst okkur einn daginn að finna sama æðruleysi og jákvæðni og þú hafðir, þessa stóísku ró og yfirvegun. Takk fyrir allt elsku Ágústa og hvíl í friði. Við sjáumst aftur síðar.

Anna Margrét og Heiða Björk.