EM í fótbolta
Víðir Sigurðsson
vs@mbl.is
Lamine Yamal skráði nafn sitt í sögubækur heimsfótboltans í gærkvöld. Hafi einhverjir ekki vitað hver þessi 16 ára gamli Spánverji var fyrir undanúrslitaleik Spánar og Frakklands á EM í München í gærkvöld komast þeir varla hjá því framvegis.
Yamal skoraði fyrra mark Spánverja í sigri þeirra gegn Frökkum, 2:1, með stórglæsilegu skoti í stöng og inn af 25 metra færi.
Hann verður ekki sautján ára fyrr en næsta laugardag, einum degi fyrir úrslitaleik EM þar sem Spánverjar mæta sigurliðinu úr viðureign Englands og Hollands sem mætast í Dortmund í kvöld.
En sögubækurnar eru Spánverjans unga því með þessu marki varð hann yngsti markaskorarinn frá upphafi í lokakeppni Evrópumóts.
Ekki nóg með það, hann er líka orðinn yngsti markaskorarinn á stórmóti því Yamal er meira en hálfu ári yngri en brasilíska goðsögnin Pelé var sumarið 1958 en Pelé skoraði þá sigurmark Brasilíu gegn Wales í átta liða úrslitum heimsmeistaramótsins í Svíþjóð og hefur frá þeim tíma verið yngstur markaskorara á HM eða EM.
Yamal spilaði í rúmar 90 mínútur í gærkvöld en honum var skipt af velli í uppbótartíma leiksins. Nú á hann fyrir höndum sjálfan úrslitaleik EM með liðsfélögum sínum á sunnudagskvöldið.
Það er verðskuldað því spænska liðið var sterkara en það franska í gærkvöld og Frakkar náðu sjaldan að ógna spænska markinu, allt þar til Kylian Mbappé skaut yfir það úr upplögðu marktækifæri á 86. mínútu.
Mörkin komu öll á fyrstu 25 mínútum leiksins. Randal Kolo Muani skoraði fyrir Frakka með skalla eftir sendingu Mbappé á 9. mínútu. Glæsilega jöfnunarmarkið frá Yamal kom á 21. mínútu og aðeins fjórum mínútum síðar skaut Dani Olmo föstu skoti í varnarmann og inn, og það reyndist vera sigurmarkið.
Spánverjar eru þar með á leið í sinn fimmta úrslitaleik á EM og geta orðið fyrstir til að verða Evrópumeistarar fjórum sinnum. Þeir unnu árin 1964, 2008 og 2012 en töpuðu úrslitaleiknum 1984, fyrir Frökkum. Það má því segja að þetta hafi verið síðbúin hefnd.