Slagurinn um Joe Biden og hvort hann vermi lengur eða skemur húsbóndasætið í Hvíta húsinu herðist sífellt. Forsetinn hefur svo sem sjálfur ítrekað tekið af öll tvímæli um það, að hann muni hvurgi fara. En líklegt er, að menn séu ekki alveg vissir um það, að forsetinn, þótt á miklum valdpósti sé, eigi lokaorðið um það mál. Fundir fréttamanna með talsmanni forsetans hafa harðnað verulega upp á síðkastið, en þeir eru ekki margir og í rauninni mjög fágætir orðnir, fundirnir sem Joe Biden á sjálfur með blaðamönnum. Heilbrigði og meint heilsuleysi forsetans er í rauninni eina efnið sem blaðamenn ljá máls á að ræða við Karine Jean-Pierre, blaðafulltrúa forsetans, á upplýsingafundum hennar.
Reyndar kvarta blaðamenn einkum yfir því, að stærsti hluti funda Jean-Pierre fari í að svara þeim mjög loðið, eða þykjast ekki skilja til fulls spurningar einstakra blaðamanna eða halda því fram að hún hafi þegar margsvarað einstökum spyrjendum sannleikanum samkvæmt. Nú síðast töldu einstakir blaðamenn sig hafa góðar heimildir fyrir því, að sérfræðilæknir um parkinsons-sjúkdóma, frá Walter Reed-hersjúkrahúsinu, hefði heimsótt Hvíta húsið að minnsta kosti átta sinnum. Og blaðamenn kröfðust þess, að fá því svarað hreinskilnislega, hvort þessar upplýsingar þeirra væru réttar, sem spyrjendurnir töldu líklegast að væri. Í framhaldinu hafa aðrir fjölmiðlamenn bent á, að þekkt eðli parkinsons-sjúkdómsins væri, að þótt hann gæti orðið erfiður viðureignar, þá færi hann sér hægt og nýjustu dæmin sýndu að menn geti hæglega lifað í 15-20 ár frá því að sá sjúkdómur sé uppgötvaður hjá viðkomandi.
En sífellt hefur fjölgað þeim sem segja fullum fetum og eins þeim sem gefa til kynna að sennilega sé að því komið, að forsetinn ákveði að sækjast ekki eftir því lengur að gegna forsetaembættinu áfram. Enn sem komið er hefur forsetinn hvergi bilað í sínum svörum og segir raunar keikur við þá þingmenn, sem hafa haft sig mest í frammi, og vilja að Joe Biden hætti sem forseti, að þeir skuli endilega bjóða sig fram gegn sér. Hann bendir á þær 11 milljónir atkvæða sem hann fékk í forkosningum og hann skori á þann, sem fengið hefur slíkt fylgi eða meir, að bjóða sig fram gegn sér. Nú virðist að heldur hafi lækkað þau hljóð með kröfum um að Biden víki fyrir öðrum demókrata. Enginn slíkur virðist í sjónmáli.