Ólafur Pálsson
olafur@mbl.is
Skagafjörður vinnur að breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins fyrir árin 2020-2035 sem felur í sér breytingar á verslunar- og þjónustusvæði á Deplum í Fljótum að ósk eigenda og rekstraraðila Depla í samræmi við uppbyggingaráform þeirra. Öflug ferðaþjónusta er rekin í glæsilegum húsakynnum á Deplum en áform eru uppi um að stækka svæðið og auka þar byggingarheimildir. Byggðarráð samþykkti samhljóða í upphafi mánaðar að kynna vinnslutillöguna, unna af VSÓ ráðgjöf, í aðalskipulagi sveitarfélagsins.
Haukur Sigmarsson, framkvæmdastjóri rekstraraðilans Eleven Experience Iceland, segir að eftir lok heimsfaraldurs hafi verið opnað glæsilegt fyrsta flokks hljóðupptökuver í Haganesvík. Lýsir hann því að Haganesvík hafi á sínum tíma verið ákveðin miðja samfélagsins í Fljótum. „Þarna var gamla samvinnufélagshúsið, hús Samvinnufélags Fljótamanna, þar sem fólki gafst kostur á að bæði leggja inn og kaupa vörur. Þar höfum við útbúið fyrsta flokks hljóðupptökuver, sem heitir Flóki Studios.“
Það gista ekki allir á Deplum
Haukur segir aðsókn hafa verið góða í hljóðupptökuverið, bæði frá innlendum og erlendum listamönnum og að Flóki hafi meira að segja gefið út tónlist undir sínum merkjum.
Nú standi hins vegar til að byggja gistihús á tveimur hæðum í landi Brautarholtsmýrar, sem mun geta hýst um 8-12 manns í senn. Haukur segir gistihúsið vera hugsað fyrir þá tónlistarmenn sem eru við upptökur í hljóðverinu og með tilkomu þess verði gistiaðstaðan færð nær hljóðverinu sjálfu.
„Við þurftum gistingu fyrir þá sem koma til að taka upp, það geta ekki allir gist á Deplum, bæði er gistiplássið þar mjög eftirsótt og svo hafa einfaldlega ekki allir sem koma til þess að taka upp ráð á því að gista þar.“ Hingað til hafa tónlistarmenn gist í húsi á vegum Eleven Experience á Hraunum og hafa þannig þurft að keyra á milli að sögn Hauks en þegar framkvæmdum lýkur verður gistingin komin nær hljóðverinu. „Fólk getur bara labbað og þarf aldrei að fara af svæðinu. Listamennirnir geta tekið upp tónlist allan sólarhringinn þess vegna.“
Eleven Experience er í eigu bandarískrar fjölskyldu sem kynntist landinu í gegnum Orra heitinn Vigfússon sem rak og leigði margar af flottustu laxveiðiám landsins og var þekktur fyrir störf sín í þágu villta laxastofnsins. Kynni fjölskyldunnar við Orra urðu síðar kveikjan að fjárfestingum hennar hér á landi.
Með tónlistarstað vestan hafs
Hugmyndin um hljóðupptökuver þróaðist út frá því að margir gestir sem dvalið hafa á Deplum eru tónlistarmenn. Þá segir Haukur alla ferðaþjónustu snúast um upplifun og þannig hafi almennir gestir á Deplum stundum fengið að heilsa upp á tónlistarmenn á meðan þeir eru við upptökur. Þá segir hann Eleven Experience alls ekki ókunnugt tónlistargeiranum, fyrirtækið reki tónleikastað í Bandaríkjunum svo þetta hafi legið beint við.
Tónlist á Deplum
Meðal gesta á Deplum eru skíðamenn og veiðimenn en einnig tónlistarmenn.
Gamla samvinnufélagshúsinu í Haganesvík hefur verið breytt í fyrsta flokks hljóðupptökuver.
Gestir á Deplum hafa stundum fengið að heilsa upp á tónlistarmenn á meðan þeir eru að taka upp í hljóðveri.
Eleven Experience á tónleikastað í Bandaríkjunum.