Leigubílar Formaður Frama segir meira eftirlit vanta á markaðinn.
Leigubílar Formaður Frama segir meira eftirlit vanta á markaðinn. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Orðrómur um að leigubílstjórar hér á landi ofrukki erlenda ferðamenn er tekinn að berast út fyrir landsteinana og inn á útlendar ferðasíður. Ferðamenn hafa sumir í kjölfarið veigrað sér við að heimsækja landið

Egill Aaron Ægisson

egillaaron@mbl.is

Orðrómur um að leigubílstjórar hér á landi ofrukki erlenda ferðamenn er tekinn að berast út fyrir landsteinana og inn á útlendar ferðasíður. Ferðamenn hafa sumir í kjölfarið veigrað sér við að heimsækja landið.

Þetta segir Daníel Orri Einarsson, formaður bifreiðastjórafélagsins Frama, í samtali við Morgunblaðið.

Að sögn Daníels er auðveldara að svindla á erlendum ferðamönnum en Íslendingum þar sem Íslendingar þekki betur hvað það kosti að ferðast á milli staða með leigubílum hérlendis. Nú megi finna viðvaranir á netinu um svindl leigubílstjóra hér í garð ferðamanna.

„Við erum búnir að sjá það á Trip Advisor og öðrum heimasíðum alveg til Ástralíu. Við höfum orðið varir við þetta og erum búnir að sjá þetta á netinu – það er verið að vara ferðamenn við því að koma til Íslands út af því að þeir verði rændir hér,“ segir Daníel.

Nefnir hann að í kjölfar nýrra laga um leigubifreiðaakstur, sem samþykkt voru í desember 2022 og tekin upp í apríl 2023, hafi leiðindaástand ríkt á markaðinum og félagið fengið margar tilkynningar þar sem kvartað er undan leigubílstjórum. Það sé hins vegar lítið sem félagið geti gert.

Með nýju lögunum var fjöldatakmörkun afnumin og hafa veitt leyfi til leigubifreiðaaksturs farið úr 480 og upp í 900 að sögn Daníels.

Helsta vandamálið sé þá að bílarnir eru margir hverjir órekjanlegir.

Greint var frá því í júní að lögregla framkvæmdi eftirlit á 105 leigubílum í miðborginni þar sem athuguð voru leyfi leigubílstjóranna og ökutækja þeirra. Í tæplega helmingi tilfella voru gerðar athugasemdir vegna grunsemda um brot og eiga 48 leigubílastjórar yfir höfði sér kæru vegna þessa.

Segir Daníel að lögregla sé þó einungis að skoða bíla sem hafa taxamerki en margir séu merkjalausir og bæta þurfi eftirlit með leigubílum hér á landi eftir að nýju lögin voru samþykkt.

Segist hann vita til þess að margir aðilar keyri um á leigubílum án leyfis og séu nær órekjanlegir. Vill hann fá litaðar númeraplötur á leigubíla eins og finna má víðs vegar í öðrum löndum.

Höf.: Egill Aaron Ægisson