[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Spánverjinn Dani Olmo jafnaði við Hollendinginn Cody Gakpo og þrjá aðra sem markahæsti leikmaður EM í fótbolta þegar hann skoraði sigurmarkið gegn Frökkum í gærkvöld

Spánverjinn Dani Olmo jafnaði við Hollendinginn Cody Gakpo og þrjá aðra sem markahæsti leikmaður EM í fótbolta þegar hann skoraði sigurmarkið gegn Frökkum í gærkvöld. Þeir eru með þrjú mörk, rétt eins og Georges Mikautadze frá Georgíu, Jamal Musiala frá Þýskalandi og Ivan Schranz frá Slóvakíu sem allir hafa lokið keppni. Gakpo stendur best að vígi en hann á eftir undanúrslitaleik gegn Englandi í kvöld.

Í liði Englands eru Jude Bellingham og Harry Kane sem báðir eru með tvö mörk og gætu blandað sér í keppnina um markakóngstitil EM.

Carlos Alcaraz frá Spáni og Daniil Medvedev frá Rússlandi mætast í undanúrslitum karla á Wimbledon-mótinu í tennis en þeir unnu leiki sína í átta manna úrslitum í gær. Í kvennaflokki liggur fyrir að Jasmine Paolini frá Ítalíu mætir Donnu Vekic frá Króatíu í öðrum undanúrslitaleiknum.

Enska knattspyrnufélagið Manchester United virðist vera langt komið með að tryggja sér hinn efnilega franska varnarmann Leny Yoro. Sky Sports sagði í gær að samkomulag hefði tekist við Lille í Frakklandi um að kaupa hann á 50 milljónir punda. Leny er aðeins 18 ára en hefur þegar spilað 46 leiki með Lille í efstu deild Frakklands.

Tilraunir Manchester United til að kaupa varnarmanninn Jarrad Branthwaite af Everton ganga hins vegar lítið. Samkvæmt fréttum enskra fjölmiðla hafnaði Everton nýjasta tilboði United í Branthwaite en það mun hafa hljóðað upp á 50 milljónir punda.

Handboltakonan Hulda Dagsdóttir hefur samið við Aftureldingu um að leika með liðinu í 1. deildinni í vetur. Hún hefur verið sex ár í Danmörku og Noregi og lék síðast með norska liðinu Randesund en Hulda spilaði með Fram áður en hún hélt utan.

Anton Sveinn McKee keppir í tveimur sundgreinum á Ólympíuleikunum í París, ekki bara í 200 metra bringusundi eins og sagt var í blaðinu í gær. Hann keppir einnig í 100 metra bringusundi og hefur keppni fyrstur Íslendinga á leikunum laugardaginn 27. júlí.

Spænsk-svissneska körfuknattleikskonan Laura Chahrour hefur samið við Tindastól, nýliðana í úrvalsdeild kvenna, um að leika með félaginu næsta vetur. Laura er 29 ára bakvörður sem kemur frá spænska liðinu Al-Qazeres þar sem hún lék í B-deildinni á síðasta tímabili. Áður hefur hún leikið með mörgum liðum í sömu deild, en einnig með Geneve í Sviss og lék tvö ár í Líbanon. Hún er bæði skráð sem Spánverji og Svisslendingur.

Knattspyrnumaðurinn Ægir Jarl Jónasson er á förum frá KR til danska C-deildarliðsins AB frá Kaupmannahöfn, sem Jóhannes Karl Guðjónsson þjálfar. Ægir hefur verið orðaður við AB að undanförnu og samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er nú öruggt að hann fari til Danmerkur. Ægir er 26 ára og hefur leikið 116 leiki með KR í efstu deild síðan hann kom til félagsins frá Fjölni.