Lesskilningur grunnskólanemenda á Íslandi er í frjálsu falli. Hlutfall nemenda í tíunda bekk sem búa ekki yfir grunnhæfni í lesskilningi tvöfaldaðist frá 2012 til 2022 samkvæmt niðurstöðum PISA – úr 21% í 40%. Staðan er lítið eitt betri þegar kemur að stærðfræði og læsi á náttúruvísindi. Aðeins 3% nemenda teljast búa yfir afburðalestrarskilningi en þeim fækkaði hlutfallslega um helming. Svipaða sögu er að segja um afburðanemendur í stærðfræði og náttúruvísindum. Við stöndum flestum þjóðum að baki við menntun barnanna okkar. Hæfni íslenskra nemenda í skapandi hugsun er undir meðaltali OECD. Drengir standa sig verr en stúlkur.
Á mælikvarða PISA er grunnskólinn hér á landi í hnignun. Æ fleiri nemendur ljúka grunnskóla án nægjanlegrar þekkingar og kunnáttu. Þetta er þrátt fyrir að hér sé rekinn einhver dýrasti grunnskóli innan OECD. Í samanburði við önnur lönd er staðan alvarleg. Við erum í sjötta neðsta sæti OECD-ríkja. Aðeins Grikkland, Síle, Mexíkó, Kosta Ríka og Kólumbía eru með lakari árangur.
Lakari árangur verður ekki rakinn til þess að of margir nemendur séu á hvern kennara. Þvert á móti. Á liðnu ári voru 9,1 nemandi á hvert stöðugildi kennara. Fyrir aldarfjórðungi voru 13,3 nemendur á hvern kennara. Og ekki hefur starfsfólki grunnskólanna fækkað. Árið 1998 voru stöðugildi í grunnskólum (allir starfsmenn) tæplega fimm þúsund en á liðnu ári voru þeir orðnir yfir átta þúsund og fjögur hundruð. Þetta er fjölgun um 70%. Á sama tíma fjölgaði nemendum „aðeins“ um 12%. Þessi þróun endurspeglast í því að fyrir aldarfjórðungi voru 8,6 nemendur á hvern starfsmann grunnskóla en eru nú sex.
Stöðnun og afturför
Í hátíðarræðu við brautskráningu frá Háskólanum í Reykjavík í síðasta mánuði fór Björn Brynjúlfur Björnsson framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs ekki eins og köttur í kringum heitan graut: „Því miður er nú stöðnun ríkjandi á grunnskólastigi. Ísland rekur eitt dýrasta grunnskólakerfi heims en námsárangurinn er einn sá versti í Evrópu, eins og við sjáum í PISA-mælingum. Staða drengja er þar sérstaklega slæm, en annar hver drengur er nær ólæs eftir tíu ár í grunnskóla.“
Björn Brynjúlfur hélt því fram að endurskoða þurfi grunnskólakerfið: „Við þurfum að einblína á námsárangur, mæla hann markvisst og auka fjölbreytni í kerfinu – þannig að bæði skólar og nemendur geti keppt og uppskorið á grundvelli eigin verðleika.“
Jón Pétur Zimsen aðstoðarskólastjóri Réttarholtsskóla hefur lengi varað við hnignun grunnskólans sem hefur verið nær stöðug frá aldamótum. Þrátt fyrir óheillaþróunina breytist ekkert eins og Jón Pétur fullyrti í fróðlegu viðtali í Dagmálum mbl.is fyrir réttri viku. (Ég hvet alla, ekki síst foreldra grunnskólabarna, til að horfa á viðtalið.) Eftir tíu ára grunnskólanám sé niðurstaðan sú að nær helmingur drengja geti ekki lesið sér til gagns og þriðjungur stúlkna. „Ég gæti ekki lifað með sjálfum mér að breyta ekki um stefnu eða taka þetta til alvarlegrar umræðu,“ sagði Jón Pétur sem telur að ábyrgðin liggi fyrst og síðast hjá sveitarfélögunum. „Það er enginn sem hefur sagt: „Heyrðu, þetta gerðist á minni vakt, ég ætla að axla ábyrgð með einhverjum hætti.“ Ég hef ekki heyrt einn einasta sveitarstjórnarmann, pólitíkus eða embættismann ræða það þannig.“
Alvarlegar spurningar
Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri í Kópavogi, hefur þegar brugðist við gagnrýni Jóns Pétur og hún er vön að láta verkin taka. Í fésbókarfærslu þar sem hún vísar í frétt mbl.is og viðtalið við Jón Pétur segir Ásdís að við verðum „að viðurkenna að mistök hafa verið gerð, hvort sem snýr að námsmati og innleiðingu þess, niðurfellingu samræmdra prófa án þess að tryggja samhliða samræmda mælikvarða á árangri, svo dæmi séu tekin“. Bæjarstjórinn spyr alvarlegra spurninga: Er miðstýring of mikil í íslensku skólakerfi? Gerum við nægar kröfur til barna í námi? Er opinberi vinnumarkaðurinn of ósveigjanlegur þegar kemur niður á nýsköpun og framþróun kennara í starfi? Skortir ytra eftirlit, samanburð á árangri milli skóla og endurgjöf?
Því miður verður að svara öllum þessum spurningum játandi. Við yfirvöldum menntamála, sveitarfélögum, kennurum, foreldrum blasir nöturleg staðreynd: Íslenski grunnskólinn virkar ekki. Skipulagið heldur gæðum menntunar niðri og er lamandi en ekki hvetjandi fyrir kennara. Foreldrum er haldið í myrkri með þeim leyndarhjúp sem umvefur skólana. Komið er í veg fyrir að kennarar, foreldrar og nemendur fái samanburð á gæði skólastarfs. Sveitarstjórnarmönnum er einnig haldið í myrkrinu.
Uppstokkun nauðsynleg
Ekkert samfélag getur sætt sig við að grunnmenntun barna verði verri með hverju árinu sem líður. Uppstokkun er nauðsynleg. Það eru einstaklingar eins og Jón Pétur Zimsen sem eru best til þess fallnir að leiða nauðsynlegar breytingar. Við eigum fjölda annarra einstaklinga innan menntakerfisins sem hafa burði og hæfileika til að veita nauðsynlega leiðsögn – einstaklinga sem eru ekki fastir í gamalli kerfishugsun og leyndarhyggju. Og það er til forystufólk í sveitarstjórnum, eins og Ásdís Kristjánsdóttir, sem horfist í augu við erfiðar staðreyndir og situr ekki hjá með hendur í skauti. Sem bæjarstjóri ætlar hún að beita sér fyrir því að ráðist verði á vandann með raunhæfum lausnum. Annað sveitarstjórnarfólk hlýtur að fylgja frumkvæði Ásdísar. Undan því verður ekki vikist.
Menntakerfið er beittasta og skilvirkasta verkfærið sem hvert samfélag hefur til að tryggja jöfn tækifæri óháð efnahag, uppruna, búsetu eða fjölskylduhögum. Bregðist grunnskólinn verður verkfærið bitlítið. Kerfið er að svipta börn tækifærum til að rækta hæfileika sína og njóta þeirra.
Sem samfélag verðum við að gera allt sem í okkar valdi er til að efna fyrirheitið um að tryggja börnunum okkar góða menntun og veganesti sem nýtist til allrar framtíðar. Annað er ekki aðeins svik við komandi kynslóðir heldur ávísun á lakari lífskjör okkar allra.
Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.