Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
Búist er við því að sjóðsstaða Ríkisútvarpsins muni ná jafnvægi þegar líður á síðari hluta ársins. Þetta kom fram í kynningu fjármálastjóra RÚV á fundi stjórnar stofnunarinnar nýlega. Eins og komið hefur fram í Morgunblaðinu hefur þurft að grípa til hagræðingaraðgerða til að bregðast við ríflega 280 milljóna gati í fjárhagsáætlun RÚV í ár. Gatið er meðal annars vegna hagræðingarkröfu, vanmats á launagreiðslum og minni auglýsingatekna en rekstraráætlun gerði ráð fyrir.
Stefán Eiríksson útvarpsstjóri segir í svari við fyrirspurn Morgunblaðsins að staðan sé óbreytt frá því sem kynnt var á fundi stjórnar í lok maí. „Hagræðingaraðgerðir innan ársins eru að umfangi um 300 m.kr. eins og þar kemur fram og hafði áður verið kynnt og rætt í stjórninni,“ segir Stefán.
„Þær aðgerðir sem um er að ræða eru endurmat á ýmsum tekju- og útgjaldaforsendum, starfsfólki hefur verið fækkað með því að draga úr endurráðningum þar sem það var hægt, s.s. þegar starfsmenn hafa látið af störfum. Því til viðbótar eru í vinnslu aðrar hagræðingaraðgerðir. Við reynum eins og kostur er að hlífa dagskrá og fréttum í þessari hagræðingarvinnu,“ segir Stefán.