Túnin Í Göngustaðakoti í Svarfaðardal eru túnin illa leikin vegna kalskemmda eins og sjá má á þessum ljósmyndum sem teknar voru í vikunni.
Túnin Í Göngustaðakoti í Svarfaðardal eru túnin illa leikin vegna kalskemmda eins og sjá má á þessum ljósmyndum sem teknar voru í vikunni. — Ljósmynd/G.S
Umsóknum um fjárhagsaðstoð úr Bjargráðasjóði vegna kaltjóna á túnum hefur fjölgað verulega það sem af er ári. Nú þegar hefur borist 61 umsókn og þar ef eru 45 þeirra úr Þingeyjarsýslum. Umsóknarfrestur er til 1

Sæþór Már Hinriksson

saethor@mbl.is

Umsóknum um fjárhagsaðstoð úr Bjargráðasjóði vegna kaltjóna á túnum hefur fjölgað verulega það sem af er ári.

Nú þegar hefur borist 61 umsókn og þar ef eru 45 þeirra úr Þingeyjarsýslum. Umsóknarfrestur er til 1. september og býst Sigurður Eyþórsson, stjórnarformaður sjóðsins, við að talsvert fleiri umsóknir muni bætast við.

Mikil aukning frá fyrra ári

„Það var ekkert kaltjón í fyrra, svo þetta er miklu meira í samanburði við það ár,“ segir Sigurður. Almennir styrkir sem Bjargráðasjóður greiddi út í fyrra voru tæp 41 milljón króna. Þar er þá einkum um að ræða tjón á ræktarlandi vegna skriðufalla. „Stærstu einstöku málin voru vegna skriðufalla í Út-Kinn sem urðu í október 2021, en lagfæringar vegna þeirra hafa staðið yfir fram á þetta ár,“ segir hann.

Síðast þegar verulegt kaltjón varð, veturinn 2019-2020, sóttu 217 bú um styrki vegna kals og samkvæmt umsóknum eyðilögðust tæplega 4.800 hektarar. Í janúar 2021 greiddi sjóðurinn út tæpar 390 milljónir króna vegna þeirra tjóna. Að auki voru einnig talsverð tjón á girðingum og greiddar voru rúmar 60 milljónir króna vegna þeirra.

Þörf á aukafjárveitingu

Almennir styrkir sem Bjargráðasjóður greiddi út í fyrra námu tæpri 41 milljón króna. „Sjóðurinn ræður ekki við að mæta stærri tjónum án aukafjárveitingar,“ segir Sigurður. Hann minnist á að árið 2020 fékk sjóðurinn rúmar 454 milljónir króna í aukafjárveitingu vegna tjónsins sem varð veturinn 2019-2020.

Sigurður segir að sjóðurinn muni fara fram á aukafjárveitingu þegar umfang tjónsins verður ljóst. „Umfang tjónsins verður ekki ljóst nærri strax, þ.e. ekki fyrr en skráningarfrestur er runninn út, ljóst er hver uppskera sumarsins verður í raun og hver fóðurþörf viðkomandi búa verður næsta vetur miðað við fjölda búfjár sem stendur til að fóðra næsta vetur,“ segir Sigurður.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra hefur þegar greint frá þeirri fyrirætlan í ríkisstjórn að tryggja nauðsynlega aukafjárveitingu til sjóðsins ef þörf krefur.