Því er fyrirséð að sumir sem verði fyrir slysum á vélknúnum hlaupahjólum muni á endanum fá litlar eða jafnvel engar bætur fyrir líkamstjón sitt þegar upp er staðið.

Lögfræði

Arnar Vilhjálmur Arnarsson

Lögmaður og eigandi Bótamál.is.

Engum getur hafa leynst miklar vinsældir vélknúinna hlaupahjóla á síðastliðnum árum. Farartækin eru nokkuð ný í íslenskri umferðarflóru og í flestum tilvikum með fastan hámarkshraða, aðeins 25 km/klst. Þrátt fyrir það hafa ratað reglulega í fjölmiðla fregnir um alvarleg slys við notkun þeirra. Í samantekt á notkun þeirra á Íslandi árið 2021 kom í ljós að af þeim sem slösuðust alvarlega í umferðinni það ár voru 17% á vélknúnum hlaupahjólum, en á sama tíma var umferð þeirra þó undir 1% af allri umferð.

Ástæðurnar þar að baki eru margar og má meðal annars nefna hversu litlum öryggisbúnaði slík hlaupahjól eru gædd, erfitt slitlag íslenskra gatna og veðurfar fyrir farartækin o.m.fl. Hins vegar eru líka þar að baki ástæður sem varða ökumennina sjálfa og má þar nefna mikla notkun farartækjanna síðla kvölds um helgar, oft á föstudögum og laugardögum þegar ökumenn eru ekki alltaf allsgáðir. Þann 22. júní síðastliðinn samþykkti því Alþingi frumvarp til breytingar á umferðarlögum nr. 77/2019 svo lögin nái betur utan um akstur smáfarartækja og þá einkum vélknúinna hlaupahjóla. Með breytingarlögunum er hert lagaumhverfið sem gildir um notkun slíkra farartækja og meðal annars gert refsinæmt að aka slíku farartæki undir áhrifum ávana- eða fíkniefna. Þá leysir það ekki ökumann vélknúins hlaupahjóls undan refsiábyrgð þó hann telji vínandamagn í blóði vera innan leyfilegra marka. Nú er ökumönnum vélknúins hlaupahjóls skylt að gangast undir öndunarpróf og gefa svita- og munnvatnssýni að kröfu lögreglu og ef nauðsyn ber til kann viðkomandi að þurfa að undirgangast blóðrannsókn. Þó á lögregla að reyna að ljúka málum sem lúta að stjórn slíkra ökutækja á staðnum frekar en að færa viðkomandi á lögreglustöð til skýrslutöku og blóðrannsóknar. Gilda þannig nú sambærilegar reglur um bann við akstri vélknúinna hlaupahjóla undir áhrifum ávana- og fíkniefna og gilt hafa um stjórnun annarra ökutækja hér á landi.

Það er því enn frekari ástæða nú en áður til að hugsa sig vel um áður en ekið er á vélknúnum hlaupahjólum á heimleið úr bænum og þó var tilefnið ríkt fyrir. Þrátt fyrir þá miklu tíðni alvarlegra slysa sem hafa fylgt aukinni notkun slíkra hlaupahjóla, heyrir til undantekninga að þau séu sérstaklega tryggð sérstakri slysatryggingu ökumanns. Vélknúin hlaupahjól eru nefnilega ekki skráningarskyld ökutæki í skilningi umferðarlaga nr. 77/2019 og fyrir vikið er ekki skylda til að tryggja þau ábyrgðartryggingu eða slysatryggingu ökumanns og eiganda, samkvæmt lögum um ökutækjatryggingu nr. 30/2019, ólíkt því sem gildir til dæmis um bíla og mótorhjól. Ef ökumaður slíks ökutækis lendir í árekstri við skráningarskylt ökutæki getur hann þó almennt sótt bætur úr lögboðinni ábyrgðartryggingu þess ökutækis. En þegar slys á vélknúnu hlaupahjóli verður við aðrar aðstæður, svo sem þegar viðkomandi missir stjórn á tækinu og fellur, kemur helst til skoðunar hvort hann sé sjálfur með í gildi slysatryggingu sem gæti tekið til atviksins svo sem í heimilistryggingum viðkomandi eða slysatryggingu launþega ef slysið varð í tengslum við vinnu eða á beinni leið í eða úr vinnu.

Í síðarnefndu tilviki gæti einnig verið til staðar réttur til bóta úr slysatryggingum almannatrygginga. Það er þó ekki sjálfgefið að einhver trygging sé yfirhöfuð fyrir hendi sem eigi við í hverju slíku slysi auk þess sem þær tryggingar sem gætu átt við bæta mjög misjafnlega mikið tjón. Því er fyrirséð að sumir sem verði fyrir slysum á vélknúnum hlaupahjólum muni á endanum fá litlar eða jafnvel engar bætur fyrir líkamstjón sitt þegar upp er staðið. Sú staða er einkar sorgleg í ljósi alvarleika slysanna sem hafa orðið við notkun þeirra. Það er því ærið tilefni fyrir alla sem aka á slíkum farartækjum að sýna aðgát og æskilegt væri að forðast alfarið notkun þeirra eftir neyslu áfengis eða vímuefna.