Fimm leikmenn úr Bestu deildum karla og kvenna í fótbolta voru úrskurðaðir í eins leiks bann í gær af aga- og úrskurðarnefnd KSÍ. Logi Hrafn Róbertsson, miðjumaður FH, fer í bann vegna sjö gulra spjalda og Leifur Andri Leifsson, fyrirliði HK, vegna…

Fimm leikmenn úr Bestu deildum karla og kvenna í fótbolta voru úrskurðaðir í eins leiks bann í gær af aga- og úrskurðarnefnd KSÍ. Logi Hrafn Róbertsson, miðjumaður FH, fer í bann vegna sjö gulra spjalda og Leifur Andri Leifsson, fyrirliði HK, vegna fjögurra gulra spjalda. FH og HK mætast næsta mánudagskvöld og þeir taka því bannið báðir út í þeim leik. Elísa Lana Sigurjónsdóttir úr FH fer í bann vegna rauðs spjalds og þær Mist Funadóttir úr Fylki og Lillý Rut Hlynsdóttur úr Val vegna fjögurra gulra spjalda.

Íslensk-bandaríski knattspyrnumaðurinn William Cole Campbell hefur skrifað undir sinn fyrsta atvinnusamning við Dortmund í Þýskalandi. Hann er 18 ára og kom þangað fyrir tveimur árum eftir að hafa leikið með FH og Breiðabliki. Cole lék með U17 ára landsliði Íslands en valdi síðan Bandaríkin og leikur þar með U19 ára landsliðinu. Móðir hans er íslensk, Rakel Ögmundsdóttir, fyrrverandi landsliðskona.

Thomas Strakosha, landsliðsmarkvörður Albaníu í knattspyrnu, hefur yfirgefið enska úrvalsdeildarliðið Brentford og er kominn til AEK í Grikklandi. Strakosha kom til Brentford frá Lazio fyrir tveimur árum en hefur aðeins spilað sex leiki og datt út úr hópnum í vor eftir að Hákon Rafn Valdimarsson kom til Brentford frá Elfsborg.

Craig Bellamy, fyrrverandi leikmaður með m.a. Liverpool, Newcastle og Manchester City, hefur verið ráðinn þjálfari velska karlalandsliðsins í knattspyrnu. Bellamy lék 78 landsleiki fyrir Wales og hefur verið þjálfari hjá Burnley undanfarin tvö ár.