75 ára Fulltrúar allra 32 aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins eru mættir á leiðtogafund í Washington.
75 ára Fulltrúar allra 32 aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins eru mættir á leiðtogafund í Washington. — AFP/Saul Loeb
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Agnar Már Másson agnarmar@mbl.is Joe Biden Bandaríkjaforseti hlaut í gær langþráðan stuðning frá nokkrum háttsettum þingmönnum demókrata en forsetanum hefur gengið brösuglega að skapa samstöðu innan flokksins um framboð sitt til endurkjörs. Hinum 81 árs gamla Biden gafst þá einnig tækifæri til að efla orðstír sinn á alþjóðavettvangi, þar sem Bandaríkin eru gestgjafar leiðtogafundar Atlantshafsbandalagsins.

Agnar Már Másson

agnarmar@mbl.is

Joe Biden Bandaríkjaforseti hlaut í gær langþráðan stuðning frá nokkrum háttsettum þingmönnum demókrata en forsetanum hefur gengið brösuglega að skapa samstöðu innan flokksins um framboð sitt til endurkjörs. Hinum 81 árs gamla Biden gafst þá einnig tækifæri til að efla orðstír sinn á alþjóðavettvangi, þar sem Bandaríkin eru gestgjafar leiðtogafundar Atlantshafsbandalagsins.

Leiðtogafundurinn er haldinn í Washington um vikuna í tilefni 75 ára afmælis bandalagsins og er innrás Rússa í Úkraínu á vörum margra. Forsetinn flutti ræðu á fundinum í gærkvöldi þar sem hann tilkynnti aukinn stuðning Bandaríkjanna við Úkraínu. Rúmenar, Þjóðverjar, Hollendingar og Ítalar eiga einnig þátt í þessum aukna stuðningi.

„NATO er öflugra nú en það hefur nokkurn tíman verið í sögu sinni,“ sagði Biden og nefndi að aðildarríkin hefðu aldrei verið fleiri. „Bandaríkjamenn vita að NATO gerir okkur öruggari.“

Hann lauk ræðu sinni með því að bjóða Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO, upp á svið þar sem hann sæmdi hann frelsisorðu Bandaríkjaforseta.

„Margar af þeim framförum sem við höfum náð í bandalaginu eru framkvæmdastjóranum að þakka,“ sagði forsetinn og hengdi síðan heiðursorðuna um háls Stolenbergs.

Demókratar enn ósammála um framboð forsetans

Enn er eftir að koma í ljós hvort ræða Bidens á NATO-fundinum í gær komi til með að styrkja stöðu hans í komandi forsetakosningum en ljóst er að hann á á brattann að sækja gegn mótframbjóðanda sínum, Donald Trump, sem leiðir í skoðanakönnunum.

Þingmenn demókrata hafa margir verið á öndverðum meiði um endurkjör Bidens. Fjöldi háttsettra demókrata hafði lýst yfir stuðningi við forsetann en eftir kappræðurnar í lok júní snerist mörgum hugur. Umræða um heilsufar Bidens og deilur sem hún hefur valdið innan Demókrataflokksins hafa sett strik í reikninginn í baráttu Bidens.

Sjö þingmenn demókrata hafa óskað eftir því að forsetinn dragi sig úr framboði og að annar flokksmaður taki við keflinu. Aftur á móti er enn deilt um hver myndi hlaupa í skarðið. Kamala Harris varaforseti hefur verið orðuð við embættið, en á meðan Biden ávarpaði leiðtogafundinn hljóp Harris í skarð forsetans þar sem hún reyndi að efla fylgi demókrata í ríkinu Nevada, sem er mikilvægt sveifluríki.

„Verður að stíga til hliðar“

Hakeem Jeffries, leiðtogi demókrata í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, auk annarra demókrata á þinginu, hefur lýst áhyggjum sínum af aldri Bidens. Á flokksstjórnarfundi gær virðist Biden þó einnig hafa náð að styrkja stöðu sína í framboðinu. Demókratinn Jerry Nadler, formaður dómsmálanefndar fulltrúadeildar Bandaríkjaþingsins, lýsti yfir stuðningi við Biden í kjölfar fundarins þrátt fyrir að hafa sagt um helgina að hann ætti að víkja.

Sumir demókratar vilja þó enn að hann dragi framboð sitt til baka.

„Hann verður bara að stíga til hliðar,“ sagði demókratinn Mike Quigley við CNN í gær.

„Ég held að ég hafi aldrei verið í eins flóknu pólitísku umhverfi í lífi mínu,“ sagði John Hickenlooper, öldungadeildarþingmaður úr röðum demókrata, í gær.

Hvíta húsið segir forsetann þó staðráðinn í að gegna embættinu heilt kjörtímabil í viðbót.

„Já,“ svaraði Karine Jean-Pierre, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, á blaðamannafundi í gær þegar hún var spurð hvort forsetinn héti því að gegna embætti heilt fjögurra ára kjörtímabil, að því gefnu að hann bæri sigur úr býtum í haust. Hún fullyrti að demókratar styddu „algjörlega“ við bakið á Biden.

Biden fór í viðtal í í vikunni þar sem hann manaði samflokksmenn sína til að skora sig á hólm á landsfundi demókrata í ágúst. Bandaríkjamenn ganga til kosninga eftir tæpa fjóra mánuði.

Slíðra sverðin „í bili“

Rétt áður en Biden hóf ræðu sína greindi dagblaðið New York Times frá því að æðstu þingmenn virtust ætla að sætta sig við Biden „í bili“. Blaðamenn dagblaðsins ræddu við þingmenn er þeir gengu út af lokuðum fundum í gær þar sem forsetaframboð Bidens og vafaatriði er varða framboðið höfðu verið til umræðu. Allir virtust þeir gefa í skyn að þeir styddu forsetann í endurkjörinu.

„Ég er með Joe,“ sagði Chuck Schumer, leiðtogi demókrata í öldungadeildinni. Til þess að slá á spurningar frá blaðamönnum sagði þingmaðurinn James E. Clyburn níu sinnum að demókratar væru á Biden-vagninum („We are ridin’ with Biden,“ ítrekaði hann).

En samt er greinilega klofningur í flokknum. Spurður að því hvort demókratar væru allir á sömu blaðsíðunni að fundi loknum svaraði þingmaðurinn Steve Cohen: „Við erum ekki einu sinni í sömu bókinni.“

Times segir einnig að sumir demókratar efist verulega um að Biden geti unnið Trump. Í gær steig svo sjöundi þingmaðurinn fram til þess að krefjast þess að Biden hætti í framboði. Enn er eftir að koma í ljós hvort ræða forsetans í gærkvöldi geti bjargað framboðinu.

Höf.: Agnar Már Másson