— Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Mold sem til fellur af framkvæmdasvæðum á höfuðborgarsvæðinu er um þessar mundir gjarnan ekið í nýjan grafreit í suðvesturhlíðum vesturhliðar Úlfarsfells. Svæði þetta er skammt fyrir ofan byggingavöruverslun Bauhaus ofan við Vesturlandsveg

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Mold sem til fellur af framkvæmdasvæðum á höfuðborgarsvæðinu er um þessar mundir gjarnan ekið í nýjan grafreit í suðvesturhlíðum vesturhliðar Úlfarsfells. Svæði þetta er skammt fyrir ofan byggingavöruverslun Bauhaus ofan við Vesturlandsveg. Rými til greftrunar á kistum í núverandi grafreitum í Reykjavík er nú senn á þrotum, en rúm fjörutíu ár eru síðan fyrst var jarðsett í Gufuneskirkjugarði.

Nærri skógræktarsvæði

Nokkurt svæði í Úlfarsfelli var tekið undir grafreit, það er spilda sem er rétt sunnan við landamörk Reykjavíkur og Mosfellsbæjar. Þetta er Reykjavíkurmegin á svæðinu en nærri er skógræktarsvæðinu í Hamrahlíð sem tilheyrir Mosfellsbæ.

Alls verður kirkjugarðurinn nýi 22,5 hektarar. Starfsmenn verktakafyrirtækisins Urðar og grjóts eru í fastri vinnu við að jafna út þá mold sem flutt er að hinum nýja grafreit. Einnig þarf að setja lagnir í jörð og svo þarf uppfyllingu á svæðinu í nokkur ár til þess að síga. Reikna má með að farið verði að jarðsetja í grafreitnum árið 2032, segir Ingvar Stefánsson, framkvæmdastjóri Kirkjugarða Reykjavíkur.

Hefðir í tengslum við greftrun látinna hafa breyst mikið í seinni tíð. Jarðneskar leifar fólks eru æ oftar brenndar og askan sett í duftker, sem tekur mun minna pláss í grafreit en hefðbundnar kistugrafir.

Til langrar framtíðar

Með tilliti til breyttra útfarasiða gæti grafreiturinn í Úlfarsfelli dugað til langrar framtíðar. Ingvar Stefánsson tekur þó fram að eftir sé að gera nákvæmt skipulag af svæðinu, svo sem um ákveðna reiti, stíga, minningarmörk og fleira slíkt. Þá megi horfa til þess að grafreiturinn verði í nágrenni skógræktarsvæðis og þetta tvennt megi fella saman með einhverju móti. Fallega grónir kirkjugarðar séu fjölsóttir staðir þar sem margir fari um; njóti þar kyrrðar og útiveru.