Kolbrún Bergþórsdóttir
kolbrun@mbl.is
Tæri er yfirskrift sýningar Erlu. S. Haraldsdóttur í Neskirkju en þar sýnir hún málverk, teikningar og veggmynd. Verkin tengjast röð verka sem listakonan sýndi undir yfirskriftinni Draumur móður minnar í Norrtälje Konsthall árið 2022, Gallery Gudmundsdottir árið 2023, og í Listasafni Árnesinga 2024. Þau verk tengdust draumi sem langalangömmu hennar dreymdi sem barn þegar huldumaður birtist henni og bað um aðstoð fyrir konu sína sem var í barnsnauð.
Milli draums og vöku
Samkvæmt Íslenskri orðsifjabók merkir orðið „tæri“ tengsl, félagsskapur, komast í tæri við, kynnast. Verkin í Neskirkju fjalla öll um kynni, en engin venjuleg kynni.
„Þau fjalla um það þegar einhver kemur til manns í draumi eða þegar maður er á milli draums og vöku eða í einhvers konar leiðsluástandi. Maður vaknar og finnst eins og maður hafir fengið skilaboð eða upplifað eitthvað sem maður hefur aldrei kynnst áður. Það er þetta sem ég er að leitast við að laða fram með þessari sýningu,“ segir Erla.
Þungamiðja sýningarinnar er olíu- og akrýlverk sem er málað á vegg í kirkjunni og sýnir boðun Maríu. „Boðun Maríu er algengt myndefni í listasögunni og ég vildi gera mína útgáfu,“ segir Erla.
Skilaboð frá forfeðrum
Röð minni málverka er á sýningunni. „Myndefnið kemur víða að. Ein myndin sýnir bænabeiðu, praying mantis, sem eru skordýr sem ég sé oft í garðinum mínum í Jóhannesarborg þar sem ég bý að hluta til. Þau eru undarleg og með sérstakt höfuðlag. Ef þú sérð þau þá er sagt að þau séu komin með skilaboð til þín frá forfeðrum þínum,“ segir Erla. „Þarna er líka mynd af ref sem ég sá í eins konar leiðslu þegar ég hlustaði á afrískan shamin spila á trommur. Þarna er líka goðsagnavera úr hellamálverki Khoisan-fólksins í Suður-Afríku.“
Erla sýnir einnig blýantsteikningar á pappír með gull- og silfurgyllingu. „Þemað er það sama og í hinum verkunum á sýningunni. Ein teikning sýnir boðun Maríu og svo er þarna íslenskt landslag, sími og fleira. Manneskjan vill vera í tengingu við annað fólk en svo getur hún líka haft tengingu við eitthvað æðra og kannski kemur hið æðra líka í gegnum annað fólk. Við getum skynjað fleira en það sem er akkúrat hér og nú. Maður getur farið lengra í huganum og stundum kemur eitthvað til manns, manneskja eða vera.“
Andleg sýning
Erla er því með afar andlega sýningu í kirkju, en ekki í fyrsta sinn. „Ég hef sýnt í Hallgrímskirkju og tvisvar í dómkirkjunni í Lundi. Í myndlist minni er ég að fást við hugmyndina um að hugurinn geti farið lengra og víðar. Hið æðra er inni í okkur,“ segir hún. „Þegar maður sýnir í kirkju kemur ekki bara fólk sem hefur áhuga á myndlist heldur alls kyns fólk á öllum aldri. Mér finnst það mjög skemmtilegt.“
Erla stundaði nám við Konunglegu akademíuna í Stokkhólmi og San Francisco Arts Institute og er með MFA frá Valand-akademíunni í Gautaborg. Hún er fædd í Reykjavík og býr og starfar í Berlín og Jóhannesarborg. Verk hennar eru í safneign Listasafns Íslands, Listasafns Reykjavíkur, Listasafns Akureyrar og Listasafns ASÍ, sem og hjá Statens konstråd, Göteborgs Kulturnämnd, og Moderna Museet í Svíþjóð.
Sýning hennar í Neskirkju stendur til 1. september.