Gerd Ellen Skarpaas fæddist 18. júní 1936. Hún lést 3. júní 2024.

Útför Gerd fór fram 18. júní 2024.

Ég sat yfirleitt við hliðina á henni á fundunum af því að það var svo gott að tala við hana, fyrir og eftir fundi. Hún hafði einnig mjög góða nærveru. Af hverju talar þú aldrei? spurði ég.

Svarið sem ég fékk var: Ég tala ekki ennþá nógu góða íslensku. Ég svaraði því til, að það ætti ekki að skipta máli, heldur hvað maður segði og mér fyndist svo gott að spjalla við hana og teldi að hún ætti fullt erindi inn í umræðuna. Upp úr þessu fór nú að heyrast í henni og það sveik ekki að hlusta.

Öll okkar samskipti voru fyrir mig mjög uppbyggileg og ég sóttist eftir þeim. Því miður breyttust aðstæður mínar, ég hætti að sækja þessa fundarstaði og færði mig annað. Svo leið tíminn og við hættum að hittast … og tíminn hélt áfram að líða. Þegar ég las í blaðinu að hún væri dáin, þá brá mér og ekki í fyrsta sinn hrökk ég við og sagði við sjálfa mig: Ennþá einu sinni deyr manneskja, góður einstaklingur, sem ég hef látið undir höfuð leggjast að halda sambandi við, þótt ég gjarnan vildi það. Ég sortera ekki það sem ég vil/ætti að gera alltaf rétt. Mér býður í grun að með því hafi ég svipt sjálfa mig talsverðum andlegum verðmætum.

Ég samhryggist ykkur fólkinu hennar innilega og bið ykkur allrar blessunar.

Rúna Knútsdóttir.