Elísa Arna Hilmarsdóttir er við það að ljúka meistaranámi við University of Cambridge. Eftir að hafa starfað sem hagfræðingur hjá Seðlabanka Íslands og síðar Viðskiptaráði hélt hún út í nám og hóf nýlega störf sem sumarstarfsmaður á fjárfestingarbankasviði hjá Goldman Sachs í London.
Hver var síðasti fyrirlesturinn eða ráðstefnan sem þú sóttir?
Síðasti fyrirlestur sem ég sótti var á vegum Cambridge þar sem Sam Altman, framkvæmdastjóri OpenAI, hélt erindi. Í erindi sínu fjallaði hann sérstaklega um áhrif yngri kynslóða á tækniframfarir og viðhorf eldri kynslóða til tæknibreytinga, líkt og tilkomu Chat-GPT. Hann rifjaði upp viðhorf fólks til leitarvélarinnar Google á sínum tíma og að skólar í Bandaríkjunum, og víðar, lögðu bann við notkun leitarvélarinnar en hún var sögð myndu hafa slæm áhrif á kennslu og gagnrýna hugsun nemenda. Benti hann réttilega á að víða sé svipað viðhorf uppi gagnvart Chat-GPT, sér í lagi meðal eldra fólks, sem væri þó víti til varnaðar þar sem tæknin ætti til að útrýma mörgum störfum, sér í lagi þeirra sem tileinka sér ekki tækninýjungar. Fyrirlesturinn rifjaði upp fyrir mér grein sem ég skrifaði á sínum tíma hjá Viðskiptaráði um sóknarfæri á tímum sjálfvirknivæðingar en þá var um helmingur allra starfa á Íslandi berskjaldaður fyrir sjálfvirknivæðingu.
Hvaða lögum myndir þú breyta ef þú værir einráð í einn dag?
Það þarf ekki að koma á óvart að ég myndi gjarnan vilja sá regluverkið á Íslandi einfaldað til muna. Mitt síðasta verkefni hjá Viðskiptaráði var að greina kostnað íslenskra fyrirtækja vegna íþyngjandi innleiðingar á sjálfbærniregluverki Evrópusambandsins. Þrátt fyrir göfugt markmið þætti mér eðlilegt, og í raun nauðsynlegt, að efnahagsleg áhrif á fyrirtæki, bæði kostnaður og ávinningur, séu metin við lagasetningu, sér í lagi þegar kemur að innleiðingu tilskipana og reglugerða þegar valið er að fara meira íþyngjandi leið en þörf krefur. Í þessu tilviki var ekki var gerð tilraun til að meta þau áhrif sem reglurnar hefðu í för með sér á atvinnulífið en staðreyndin er sú að tæplega átta sinnum fleiri íslensk fyrirtæki féllu undir gildissvið laganna en nauðsynlegt var, með tilheyrandi kostnaði sem nemur um 10 milljörðum króna.
Hvert væri draumastarfið ef þú þyrftir að finna þér nýtt starf?
Skíðakennari á Ítalíu yrði auðveldlega fyrir valinu. Það starf myndi sameina mín helstu áhugasvið en á sama tíma og ég fengi að verja tímanum mínum í ítölsku Ölpunum, á skíðum sjálfsagt, þá fengi ég tækifæri um leið til að kenna og miðla þekkingu. Mér hefur alltaf fundist gefandi að kenna og naut ég þess í botn til að mynda í háskólanum meðfram námi. Þá gæti ég auk þess gert aðra tilraun til að læra ítölskuna en eftir skiptinám á Ítalíu árið 2019 situr lítið sem ekkert eftir af tungumálinu. Það má alltaf reyna aftur.
Ævi og störf
Menntun: Lauk námi við Verzlunarskóla Íslands 2017; B.Sc. í hagfræði frá Háskóla Íslands 2020; stunda meistaranám við University of Cambridge í fjármálum og hagfræði.
Störf: Sumarstörf hjá Arion banka sumrin 2018 og 2019; stundakennari hjá Háskóla Íslands meðfram námi 2019 til 2020; fulltrúi hjá SL lífeyrissjóði 2020; hagfræðingur á hagfræði- og peningastefnusviði Seðlabanka Íslands 2021, hagfræðingur hjá Viðskiptaráði Íslands 2021-2022; sumarstarfsmaður á fjárfestingarbankasviði Goldman Sachs í London 2024.
Áhugamál: Ég æfði skíði í 13 ár svo það þarf ekki að koma á óvart að mér líður hvergi betur en á fjöllum. Nýjasta áhugamálið mun vera róður en ég hef bæði verið að æfa og keppa í róðri í Cambridge. Auk þess hef ég mikla ánægju af því að verja tíma mínum með góðum vinum, þá helst yfir góðum mat og víni.
Fjölskylduhagir: Í sambúð með Ólafi Hrafni Kjartanssyni lögfræðingi.