Snædís Björnsdóttir
snaedis@mbl.is
„Þetta er svolítið óvanalegt tríó. Yfirleitt er hið klassíska strengjatríó fiðla, víóla og selló og það er ekki eins þekkt að tríó sé skipað af tveimur fiðlum og víólu eins og tríóið okkar. Það eru þess vegna heldur ekki til neitt voða mörg verk fyrir þessa hljóðfæraskipan, en það er líka spennandi. Við fundum mikinn styrk í því að þurfa að leita út fyrir boxið og fara óvenjulegar leiðir,“ segir Þórhildur Magnúsdóttir, víóluleikari og einn þriðji af strengjatríóinu Tríó Sól. Tríóið heldur ásamt tónlistarmanninum Atla Arnarssyni af stað í tónleikaferðalag um Ísland undir yfirskriftinni Öldur á morgun. Morgunblaðið ræddi við þau Þórhildi og Atla.
Tríó Sól samanstendur af fiðluleikurunum Emmu Garðarsdóttur og Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur auk Þórhildar, sem spilar eins og áður segir á víólu. Tríóið hóf samstarf sitt um sumarið 2020 en Emma, Sólrún og Þórhildur hafa þó þekkt hvor aðra lengi. „Við kynntumst í Suzuki-náminu í Tónskóla Sigursveins þegar við vorum litlar, þannig að við höfum þekkst eiginlega bara frá því að við munum eftir okkur og erum smá eins og fjölskylda. Við fórum síðan allar út í nám til Kaupmannahafnar og þá var planið ekkert endilega að fara að spila saman en einhvern veginn endaði það þannig – það er bara svo góð tenging á milli okkar. Og einhvern veginn fór boltinn síðan að rúlla,“ segir Þórhildur.
Tríóið hefur áður komið fram á tónleikum bæði á Íslandi og í Danmörku, t.a.m. á Þjóðlagahátíðinni á Siglufirði. Þær hafa þegar frumflutt þrjú verk og á næsta ári stendur til að frumflytja fleiri. „Við leggjum mikla áherslu á nýsmíðar og það má kannski segja að af því að hljómsveitaskipanin er svona óvanaleg þá þvingi hún okkur til að vera skapandi, sem er frábært,“ segir Þórhildur og bætir við að tríóið vinni náið með ýmsum tónskáldum.
Tríóið og tónlistarmaðurinn Atli Arnarsson eru góðir vinir og hafa öll verið í tónlistarnámi í Kaupmannahöfn. „Það var síðan eiginlega fyrir tilviljun að við byrjuðum að spila saman. En það gekk vel þannig að við héldum áfram og höfum síðan þá spilað saman í mismunandi samsetningum, stundum hefur það til dæmis verið kvartett í stað tríós sem spilar með Atla,“ segir Þórhildur.
Saman á báti
Atli tekur undir það að tilviljanir hafi leitt þau saman. „Eitt sinn var ég til dæmis að taka upp „livesession“ úti í skógi í Danmörku ásamt strengjakvartetti. Í kvartettinum voru Emma og Sóla auk víóluleikara og sellóleikara. Í skóginum var ofboðslega mikið af moskítóflugum og víóluleikarinn og sellóleikarinn lentu alveg sérstaklega illa í þeim, svo illa að þau urðu að fara heim áður en við gátum byrjað að taka upp. Við enduðum þess vegna á því að taka eina töku þar sem við vorum bara þrjú að spila, ég, Emma og Sóla. Á meðan suðuðu moskítóflugurnar í eyrunum á okkur. En þarna áttaði ég mig líka á því hversu vel tónlistin mín virkaði með bara tveimur fiðlum og hvað það væri hægt að teygja hana í margar mismunandi áttir.“
Í fyrsta sinn sem Atli og Tríó Sól komu síðan formlega fram saman var á báti í Kaupmannahöfn. „Það var á Copenhagen Harbour Festival síðasta sumar og það var alveg töfrandi stund. Við spiluðum á báti á meðan við sigldum um síkin í Kaupmannahöfn og það var alveg ógleymanlegt,“ segir Þórhildur og Atli samsinnir því.
Fuglasöngur og serenöður
„Hugmyndin um að fara í tónleikaferðalag kom líklega til okkar þegar við vorum að spila þarna saman á bátnum,“ segir Þórhildur. „Okkur langaði rosalega að fá tækifæri til að spila líka saman á Íslandi. Það er alveg tilvalið að ferðast með þessa tónlist út á land, sérstaklega tónlistina hans Atla [sem er innblásin af atviki sem átti sér stað nálægt Siglufirði], í stað þess að flytja hana bara í Reykjavík.“
Hún bætir við. „Þegar maður spilar klassíska tónlist er maður stundum settur í ákveðinn kassa, hún er til dæmis ekki álitin jafn aðgengileg og popptónlist. Tónlistin okkar í tríóinu er að mörgu leyti frábrugðin tónlistinni hans Atla og það verður til eitthvað mjög skemmtilegt þegar við blöndum þeim saman. Ég held að það megi segja að okkur langi einmitt til þess að gera klassísku tónlistina aðeins afslappaðri og aðgengilegri.“ Atli samsinnir þessu. „Það sem við eigum kannski sameiginlegt er að vilja brúa bilið á milli klassískrar tónlistar og popptónlistar. Ekkert endilega á nákvæmlega sama hátt, en samt þannig að þetta smellur allt svo vel saman.“
Fyrstu tónleikarnir á tónleikaferðalaginu verða í Iðnó annað kvöld klukkan 20. „Það verður algjör tónleikaveisla sem Katrín Helga Ólafsdóttir, K.óla, er að skipuleggja en hún gaf líka nýverið út plötu sjálf. Þar munum við koma fram ásamt henni og tónlistarfólkinu Salóme Katrínu, Guðmundi Arnalds og Söru Flindt. Daginn eftir, á föstudaginn, förum við síðan af stað út á land og spilum í kirkjunni á Borg á Mýrum rétt við Borgarnes. Það er pínulítil og eldgömul kirkja og ég held að það verði mjög fallegt að spila þar,“ segir Atli.
Á laugardeginum halda Atli og tríóið síðan áfram norður og spila á Síldarminjasafninu á Siglufirði. Þar á eftir verður haldið til Akureyrar þar sem þau koma fram á hádegistónleikum í Listasafni Akureyrar á sunnudeginum. Þórhildur bendir á að þeir tónleikar marki í raun endalok tónleikaferðalagsins en tríóið heldur ferðinni þó áfram og spilar í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar þriðjudaginn 16. júlí. „Á þeim tónleikum, sem hafa yfirskriftina Fuglasöngur og serenöður, munum við m.a. flytja verkið O3 eftir Ingibjörgu Ýr Skarphéðinsdóttur sem hún samdi fyrir okkur. Í verkinu eru þrír íslenskir fuglar og það er gaman að reyna að heyra hvort maður geti borið kennsl á þá,“ segir Þórhildur.
Sjóslys varð innblástur
Atli segir frá því að tónlistin hans sé innblásin af sjóslysi sem varð árið 1967 þegar skipið Stígandi sökk utan við Siglufjörð. Afi Atla var vélstjóri á skipinu og bjargaðist fyrir hálfgert kraftaverk ásamt allri áhöfninni. „Stígandi sigldi sem sagt frá Ólafsfirði og áhöfnin veiddi rosalega mikið af síld, svo mikið að það þurfti að kalla út nærliggjandi skip til að koma og taka hluta af aflanum. Á siglingunni í land kom síðan upp vélarbilun og það flæddi inn í skipið. Skipið sökk en áhöfnin komst í björgunarbáta þar sem hún hírðist í fimm daga, varla með mat né drykk, áður en hún fannst. Skipstjórinn hafði sent út neyðarmerki áður en skipið sökk en það greinilega virkaði ekki – og það vissi enginn að þeir hefðu sokkið fyrr en nokkrum dögum síðar þegar þeir áttu að vera komnir í land. Eftir þetta var sett á tilkynningarskylda þannig að skip verða að láta vita af sér einu sinni á dag. Í Bátahúsi Síldarminjasafnisins í Siglufirði er núna til sýnis einn af björgunarbátunum sem áhöfnin var með, það er julla eða lítill trébátur. Tónleikarnir verða haldnir í Bátahúsinu þannig að þarna fer sagan eiginlega í hring.“
Platan Stígandi, sem Atli vann út frá þessari atburðarás, er væntanleg á næstunni. Spurður hvernig það sé að semja tónlist um svona erfiðan atburð svarar hann. „Tónlistin er í raun frekar afslöppuð og glaðleg að mörgu leyti miðað við hvað þetta var hræðilegur atburður. En það er líka drama í henni á köflum. Það hefur verið mjög áhugavert að leyfa þessari sögu að stýra flæðinu á plötunni.“
Yfirskrift tónleikaferðalagsins, Öldur, tengist þessari sögu en líkt og Atli og Þórhildur benda á vísar hún einnig til þess að tónlistarbylgjur eru stundum nefndar öldur. „Hljóð eru auðvitað ekkert annað en öldur eða bylgjur,“ segir Atli og Þórhildur tekur undir það. „Þetta er eins konar samnefnari yfir það sem tengir okkur, bæði tónlistina og samstarfið.“
Á tónleikaferðalaginu eru íslensk þjóðlög einnig ofarlega á dagskrá. „Það er mikilvægt fyrir mig og okkur að halda í íslensku þjóðlagahefðina,“ útskýrir Þórhildur. „Hún býður upp á svo margt og gefur okkur líka skapandi frelsi. Við getum leyft okkur að fara í alls konar áttir með einhverja litla laglínu sem flestir þekkja og svo er líka gaman að flytja gömul þjóðlög sem færri kannast við.“
En hvernig er ferlið þegar þau semja tónlist sjálf? Verður tónlistin til út frá ákveðinni hugmynd eða tilfinningu?
„Góð spurning. Mér finnst þetta einmitt svo áhugavert vegna þess að ég skil ekki alveg sjálfur hvað það er sem gerist, og mér finnst heillandi að skilja það ekki alveg,“ segir Atli. „Yfirleitt verður tónlistin samt til út frá því að ég er eitthvað að glamra á hljóðfæri og þá kemur eitthvað til mín. Þá er smá eins og það sé einhver hugmynd í loftinu sem ég næ skyndilega að grípa og framkalla eða alla vega reyna að framkalla. Kannski misheppnast það svo en þá kemur yfirleitt eitthvað annað í staðinn.“
Þórhildur kannast við þetta. „Ég hef reyndar ekki samið neitt þannig séð en mér finnst gaman að spinna og það er svolítið þannig sem ég skapa músík. Stundum verður hún til út frá einhvers konar þema og stundum tilfinningu. Mér finnst eitthvað heillandi og hrátt við það að vinna út frá spuna. Og það fallega við það er líka að stundum kemur eitthvað magnað út úr spunanum og stundum eitthvað sem er ekkert sérstakt en það er líka allt í lagi,“ segir hún og hlær.