Hlutabréfamarkaðir í Evrópu hafa sveiflast mun meira með pólitíkinni heldur en í Bandaríkjunum. Hafsteinn Hauksson, aðalhagfræðingur Kviku, segir að það sé ótrúlegt í ljósi þess að líklega séu breytingar fram undan í pólitíska landslaginu í Bandaríkjunum. Síðustu mánuðir á hlutabréfamörkuðum hafa verið góðir, einkum vestanhafs.
„Við erum að sjá ótrúlega ávöxtun og hún er að miklu leyti drifin áfram af gullgrafaraæði á heimsvísu í tengslum við gervigreindina. Fyrirtækin sem hafa helst notið góðs af því eru í Bandaríkjunum,“ segir Hafsteinn í samtali við ViðskiptaMoggann.
Ávöxtun á helstu hlutabréfamörkuðum Evrópu hefur verið góð frá áramótum eða á bilinu 6-8%.
„Það er fín ávöxtun, en Bandaríkjamarkaður sker sig úr hvað varðar frábæra ávöxtun, þar sem S&P 500-vísitalan hefur skilað yfir 17% ávöxtun frá áramótum. Staðan í Bandaríkjunum er hins vegar þannig að það hefur orðið mikil samþjöppun á markaðnum og tíu stærstu félögin þar standa undir vel yfir þriðjungi af markaðsvirði vísitölunnar. Það eru því tiltölulega fá félög sem eru að keyra áfram þessa miklu ávöxtun,“ segir Hafsteinn og bætir við að verðlagningin á nokkrum félögum sé orðin afar há.
„Þetta eru hlutir sem manni líður ekki alltof vel með en vandinn er sá að ég hefði líka gagnrýnt verðlagninguna í upphafi árs og síðan þá hafa orðið gífurlegar hækkanir,“ segir Hafsteinn.