Kristján Thorlacius fæddist í Reykjavík 30. október 1941. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Grund 24. júní 2024.
Foreldrar hans voru Áslaug Thorlacius ritari á Þjóðskjalasafni, f. 21. nóvember 1911, d. 16. apríl 2014 og Sigurður Thorlacius skólastjóri Austurbæjarskóla, f. 4. júlí 1900, d. 17. ágúst 1945. Systkini Kristjáns: Örnólfur (1931-2017), Kristín Rannveig (1933-2018), Hrafnkell (1937-2007) og Hallveig, f. 1939.
Kristján kvæntist Ásdísi Kristinsdóttur kennara 1. janúar 1962. Ásdís er fædd á Blönduósi 29. apríl 1939, dóttir Ingileifar Sæmundsdóttur húsfreyju (1902-1993) og Kristins Magnússonar, kaupmanns og bónda á Kleifum (1897-1979). Þau bjuggu í Reykjavík, fyrst í Bólstaðarhlíð og lengst af við Kleifarveg en fluttu á Grund fyrir ári eftir skamma viðdvöl í Hæðargarði.
Dætur þeirra: Ingileif myndlistarmaður, f. 5.8. 1961, d. 22.3. 2010, Áslaug myndlistarmaður, skólastjóri Myndlistaskólans í Reykjavík, f. 11.9. 1963, Sigrún, líffræðingur og hönnuður, deildarstjóri hjá Reykjavíkurborg, f. 10.2. 1968, Solveig mannfræðingur, f. 29.12. 1971, d. 1.6. 2014 og Sigríður söngkona, f. 21.11. 1982. Dóttir Ingileifar og Óla Jóns Jónssonar, f. 1969, er Ásdís, f. 1993. Hennar maður er Ingvar Eysteinsson, f. 1990. Þeirra börn eru Sunna, f. 2020 og Ísleifur, f. 2022. Áslaug er gift Finni Arnari Arnarsyni, f. 1965. Þeirra börn eru Salvör, f. 1989, Kristján, f. 1996, Hallgerður, f. 1998 og Helga, f. 2000. Börn Salvarar eru Elsa Árnadóttir, f. 2016 og Máni Bergsteinsson, f. 2021. Maður Sigrúnar er Pálmi Jónasson, f. 1968. Þeirra dætur eru Hera, f. 1989, Auður, f. 1997, Kristín, f. 2002 og Áslaug, f. 2006. Maður Sigríðar er Anton Björn Markússon, f. 1971. Þeirra sonur er Markús, f. 2021.
Kristján lauk stúdentsprófi frá MR 1960. Veturinn eftir nam hann guðfræði við HÍ en kennslustörf meðfram náminu urðu til þess að hann söðlaði um, ákveðinn í að verða kennari. Hann lauk BA-prófi í sagnfræði og dönsku frá HÍ 1965 og prófi í uppeldis- og kennslufræðum 1967. Hann kenndi við Matsveina- og veitingaskólann 1962-4, MR 1965-6 og Gagnfræðaskóla Austurbæjar, síðar Vörðuskóla, frá 1962-80, þar af sem yfirkennari frá 1975. 1980 tók Kristján við áfangastjórn í Fjölbrautaskólanum við Ármúla og lauk þar starfsævi sinni í nóvember 2012.
Kristján tók virkan þátt í félagsstörfum kennara. Hann átti sæti í stjórn Félags háskólamenntaðra kennara frá 1975, varð varaformaður Hins íslenska kennarafélags við stofnun þess 1979 og formaður árin 1982-87 en á þeim tíma stóðu kennarar í harðri kjarabaráttu og erfiðum verkföllum. Einnig sat hann í stjórn samtaka norrænna framhaldsskólakennara.
Kristjáni var margt til lista lagt. Hann hafði firnagóða rithönd og teiknaði skopmyndir í Spegilinn, Faunu og fleiri blöð. Þau Ásdís lögðu mikla alúð í að rækta garðinn sinn heima í Reykjavík en ekki síður í viðhald og ræktun á Kleifum við Blönduós þar sem þau vörðu sumarfríum í áratugi.
Kristján verður jarðsunginn frá Dómkirkjunni í dag, 10. júlí 2024, kl. 13.
Minning um pabba.
Ég á minningar um pabba og þær eru allar svo góðar og bjartar. Minningu um pabba sem var bara svo vandaður og góður maður fyrst og fremst. Hlýr og blíður, umhyggjusamur og réttsýnn. Yfirvegaður. Traustur. Stoltur af fólkinu sínu. Minningar um pabba sem var aldrei afskiptasamur en alltaf til staðar fyrir okkur. Nærgætinn og styðjandi eiginmaður og uppalandi. Glæsilegur og fríður maður. Minningu um kankvísa brosið og hlýja oft á tíðum glettna augnaráðið. Þykka hárið. Hvernig hann flautaði á innsoginu. Ég minnist fróða, duglega og dáða kennarans. Leiftrandi gáfnanna og dómgreindarinnar. Hvernig hann naut þess að segja sögur og gerði það vel. Ég man líka pabba sem var á stundum viðkvæmur og þurfti stuðning þegar sorgin knúði að dyrum. Sem hún gerði. Minningin um allt það. Minningin um afann sem börnin löðuðust að, afann sem tók þau í fang og sýndi þeim einlægan áhuga. Fylgdist með, var forvitinn og gaf súkkulaði. Hitaði kakó á lífsins erfiðu stundum. Minning um hann og mömmu. Minning um samstiga, ekki alltaf sammála en alltaf samferða hjón. Um göngutúra og hafragraut. Mann sem hitaði kaffið. Gerði uppstúf og stöppu. Keyrði bílinn. Elskaði sveitina sína. Minning um flinka teiknarann með fallegu rithöndina. Grænu peysuna hans sem angaði af píputóbakslykt sem mér þótti alltaf svo góð. Þá sömu peysu og ég tók með mér til að hjúfra mig að þegar ég þurfti að gista einhvers staðar. Köflóttar skyrtur og uppbrettar ermar. Ég man pabba sem ég var alltaf svo stolt af. Sem var vinur minn. Minningin um mann sem þrátt fyrir hnignandi heilsu vildi vera vel til fara og sér og öðrum til sóma allt fram á síðustu stundu. Ég er djúpt og eilíflega þakklát fyrir að hafa átt hann og fengið að vera hans. Þakklát fyrir allt það sem hann skilur eftir sig hjá okkur í hug og hjarta.
Guð geymi þig elsku dásamlegi pabbi minn.
Sigríður Thorlacius.
Það eru tímamót. Hann pabbi sem í næstum sextíu og eitt ár hefur skýlt mér og verið mín stoð og stytta í öllu, svo mildur og góður við mig og alla aðra, er horfinn burt úr þessum heimi!
Hann var rúmlega tvítugur þegar ég fæddist. Við bjuggum í risinu í Bólstaðarhlíð 14 og hann skálmaði alla daga til vinnu í Gaggó Aust en foreldrar mínir áttu ekki bíl fyrr en ég var svona fjögurra ára. Stundum hljóp ég við hliðina á honum því ég var ekki á barnaheimili og þá teiknaði ég og fletti Andrésblöðum á kennarastofunni á meðan hann kenndi. Hann fór nokkur skipti til rjúpna en hætti því, það átti ekki við hann að skjóta af byssu. Hann fór til Svíþjóðar eitt sumarið og kom forframaður til baka að mati okkar Ingu systur, með flotta skó og úlpur handa okkur. Hann sinnti heimilisstörfunum og eldaði sína sérrétti sem við elskuðum allar, hafragraut, saltfisk, harðsteikt hakk með hrísgrjónum, pylsur og kartöflustöppu. Hann vann í byggingarvinnu á sumrin og byggði brýr og skóla sem okkur systrum þóttu mikil listasmíð. Í huga mömmu og okkar systra var hann þúsundþjalasmiður sem gat allt og lagaði allt, svo handlaginn.
Þau komu norður að Kleifum seint um kvöld þegar ég hafði í fyrsta sinn verið ein hjá afa og ömmu og ég man eftir að vakna og pabbi svaf við hliðina á mér – með skegg! sem hann bar síðan meira og minna alltaf. Ætli þetta hafi ekki verið þegar þau höfðu keypt fyrsta bílinn, Renault-hagamús, ævintýralegan fornbíl með lekan vatnskassa sem við systur þurftum að tyggja tyggigúmmí fyrir til þéttingar. Pabbi var nefnilega með bíladellu þótt hann gengi alltaf mikið. Samt enginn ökuþór, hans della var fagurfræðileg. Átti nýja bíla (nema þennan fyrsta), Renault lengi vel en sveik seinna lit og fékk sér ógeðslega smart Willy's-jeppa. Í okkar síðasta alvöruspjalli, tæpri viku áður en hann dó, langaði hann í Citroën.
Þau mamma ræktuðu garðinn sinn og túnin á Kleifum, sóttu tónleika og sýningar og höfðu einlægan áhuga á því sem afkomendurnir baukuðu. Pabbi var kennari af lífi og sál og gaf sér alltaf tíma til að undirbúa næsta dag. Ekkert fúsk. Hann var strangheiðarlegur og greiddi skatt af öllu með gleði, þó það væri bara hálfur hestur. Hann var jafnaðarmaður, Norðurlöndin voru hans svæði og hann hélt upp á Eddie Skoller, Benny Andersen og Povl Dissing og Örju Saijonmaa. Sumarið 1980 fór fjölskyldan í fyrsta sinn til útlanda. Þá höfðum við skipti við vini pabba á Jótlandi og fengum hús, bíl og hjólhýsi og ókum um danskar sveitir í þrjár vikur. Það var dýrðleg ferð.
Pabbi kunni að meta að herbergið hans á Grund var við hliðina á herberginu sem Örnólfur dó í fyrir sjö árum en þeir bræður sváfu andfætis á dívan í forstofuherberginu á Skeggjagötu þar sem amma bjó með börnin sín fyrst eftir að afi dó. Nú er hann sjálfur kominn yfir móðuna í félagsskap systra minna, systkina sinna, ömmu og afa sem hann sá síðast þriggja ára. Ég kveð ástríkan pabba minn með miklum söknuði og óska honum velfarnaðar á nýju tilverustigi og vonast til að sameinast hópnum þegar minn tími kemur.
Áslaug Thorlacius.
Örlögin opnuðu mér leið inn í líf Kristjáns tengdapabba fyrir mörgum árum og ég man hvað mér fannst hann óendanlega ríkur þar sem hann sat við kvöldverðarborðið ásamt Ásdísi og dætrunum fimm. Talaði lágum rómi, hafði gaman af því að segja sögur og hafði sinn sérstaka húmor, svolítið fræðilegan og oft með skrítnu „pönsi“ í lokin. Fíflaðist sjaldan og elskaði mannamót þótt hann fengi sjaldnast sjálfur hugmyndina um að halda partí. Ljónskarpur grúskari, alltaf smart, smá nörd, límheili eins og margir í fjölskyldunni, aldrei með neinn belging, kunni ekki þann ósið. Hann var bara sinn eigin karakter, vel lesinn og endalaust fróðleiksfús. Ekki bara um söguna sem hann hafði stúderað og kennt, heldur ekki síður um líf annarra. Og það sýndu þau í verki hann og Ásdís. Alltaf mætt fyrst á alla viðburði þar sem fjölskyldan átti í hlut. En viðburðirnir sem boðað var til voru ekki alltaf ánægjulegir og þegar fækkaði við kvöldverðarborðið birtist Kristján sem klettur þar sem hann sat við enda borðsins. En dropinn holar líka kletta.
Við áttum okkur sameiginlegt áhugamál við Kristján. Að djöflast í sveitinni. Sveitinni sem hann elskaði, á Kleifum við Blönduós. Hann að djöflast með sláttuorfið niðri á túni og ég uppi á þaki eða ofan í skurði. Leikreglurnar voru aldrei ræddar en þar hlýtur að hafa sagt að bannað væri að setjast niður fyrr en verki væri lokið. Það er góð tilfinning að setjast niður þegar maður á það skilið. Það var sérlega gott með honum Kristjáni. Svo var spjallað um næsta djöfulgang. Ég er þakklátur örlögunum sem buðu mér upp í dans með tengdapabba.
Hann var manna bestur í að vera góður.
Finnur Arnar Arnarson.
Þeir eru vandfundnir vandaðri menn en elsku afi minn sem nú hefur kvatt okkur.
Afi naut þess að vera í rútínu og vafði hversdaginn kærleika og hlýju sem smitaðist til okkar hinna. Hann hitaði besta kaffið og sauð besta hafragrautinn og það að byrja daginn á þessu í eldhúskróknum hjá ömmu og afa var uppskrift að góðum degi. Kakóið á kvöldin var annar ómissandi liður í dagsskipulaginu á Kleifarveginum þar sem ég átti svo ótalmargar góðar stundir og öruggt skjól. Hann hlustaði á alla fréttatíma og var alltaf vel inni í heimsmálum og pólitík og hafði gaman af því að ræða þau mál.
Afi var einnig mjög vel inni í öllum málum er varðaði afkomendur sína og hafði áhuga á því að fylgjast með okkar verkefnum. Þegar ég bjó erlendis talaði ég oft við hann í síma og hann kjarnaði málefni líðandi stundar í einu símtali þar sem hann þekkti bæði dægurmál jafnt sem fréttir. Hann var bæði fróðleiksfús en einnig óspar á að miðla sínum fróðleik áfram. Afi var svo sannarlega kennari af hjartans lyst, víðsýnn með sterka réttlætiskennd, hlýja nærveru, mikinn húmor og mikla þolinmæði.
Ég kveð dásamlegan afa með miklu þakklæti fyrir allt sem hann gerði fyrir mig og mun heiðra minningu hans og gildi allt mitt líf.
Ásdís Thorlacius Óladóttir.
Það er tómlegt í veröldinni þessa dagana. Ég var að missa bróður minn og nú er ég ein eftir af börnunum fimm sem þau eignuðust, Áslaug og Sigurður, glókollunum fimm í Austurbæjarskólanum. Fyrst fór Hrafnkell, síðan Örnólfur, þá Kristín Rannveig og nú Kristján. Hann fæddist þegar ég var tveggja ára og var mér strax afar kær og það breyttist ekkert í tímanna rás. Ég leit á mig sem sjálfsagðan verndara hans og fannst það afleit þróun þegar hann hætti að vera smábarn. En ég var alltaf örugg í námunda við hann. Við vorum jafningjar og deildum öllu bróðurlega með okkur. Ég á í huga mér minningu um okkur sitjandi hlið við hlið á eldhúsbekknum í Austurbæjarskólanum og mamma er að mata okkur á soðnu eggi. Hann borðar rauðuna og ég hvítuna. Fleiri myndir eru fastar í huga mér sem tengjast litla bróður mínum. Við störum áhyggjufull út um stofugluggann. Mamma hefur skroppið út í búð sem var rétt hjá og við erum alls ekki viss um að hún komi aftur. Og svo stöndum við hlið við hlið og störum aðdáunaraugum inn um gluggann á Þorsteinsbúð. Þetta er rétt fyrir afmæli mömmu og við erum búin að velja gjöfina, höfðum orðið djúpt snortin af fegurð þessa tiltekna listaverks en eigum ekki nóg fyrir því. Ekki man ég hvernig rættist úr þessum greiðsluvanda en við afhentum gjöfina sigri hrósandi á afmælisdeginum. Þetta var ofurlítil gifsstytta, svartklæddur brúðgumi, hvítklædd brúður og mamma nýbúin að missa manninn sinn.
Þegar hann var fimm ára sagðist hann ætla að verða læknir af því hann „vildi lækna mömmu ef hún veiktist“. Hann var þó búinn að missa áhugann á læknisfræðinni þegar hann stóð frammi fyrir að velja sér framtíðarstarf. Eftir að hafa kennt dönsku og sagnfræði um árabil gerðist hann áfangastjóri í Ármúlaskóla. Lífið lék við hann. Hann giftist glæsilegustu skólasystur sinni, henni Ásdísi, og þau eignuðust fimm dætur sem nutu þeirra forréttinda að eiga kærleiksríkasta pabba sem völ er á. En svo kom höggið. Þau misstu Ingu og fáeinum árum seinna líka Sollu. Ásdís veiktist og fór smám saman að hverfa inn í myrkur gleymskunnar. Það er auðvelt að bugast af minni ástæðu. Kristján hefur verið að glíma við erfiðan taugasjúkdóm undanfarin ár og var smám saman að missa kraft í höndum og fótum. Hann tók þessum örlögum með jafnaðargeði eins og öðrum alvarlegum áföllum sem hann varð fyrir í lífinu.
Þegar ég lít yfir farinn veg og hugsa um bróður minn finnst mér eitt lýsingarorð hæfa honum best. Hann var góður. Auðvitað fæðumst við öll góð en það eru ekki allir sem þora að leyfa sér það þegar þeir vaxa úr grasi. Sérstaklega held ég að það geti verið erfitt fyrir stráka sem eiga að vera stórir og sterkir og góðir í fótbolta. Stundum virðist ekkert eins hallærislegt í augum annarra og að vera góður. En Kristján var samt góður allt til síðasta andardráttar.
Ég kveð minn góða bróður með djúpum söknuði og sendi samúðarkveðju til Ásdísar, Ásu, Sigrúnar og Sigríðar, til barnabarnanna tíu og langafabarnanna sem nú eru orðin fjögur. Lífið heldur áfram.
Hallveig.
Það er stundum sagt að það þurfi þorp til að ala upp barn. Ég var svo lánsöm að Kristján föðurbróðir minn var í þorpinu mínu. Hann var alveg einstaklega barngóður og börn hændust auðveldlega að honum, án þess að hann virtist hafa nokkuð fyrir því. Ég held að það hafi verið vegna þess að hann veitti þeim athygli og talaði við þau af virðingu og hlýju. Þegar ég var að alast upp bjuggu hann, Ásdís og stelpurnar í Bólstaðarhlíð, í sama húsi og amma Áslaug, þau á miðhæðinni og hún í risinu. Ég var mikið hjá ömmu og ég var tíður gestur á miðhæðinni fram á unglingsár. Kristján tók mér eiginlega eins og einni af dætrunum og sinnti mér af sömu natni og þeim. Hann tók jafnan þátt í uppeldi dætranna, sinnti því sem þurfti að gera á heimilinu, hvort sem það var barnauppeldi, þvottur, þrif, uppvask eða skutl í skóla eða vinnu.
Sunnudagsmorgnar í Bólstaðarhlíðinni voru sérstakt tilhlökkunarefni, því þá bauð hann upp á heimsins besta kakó og franskbrauð með miklu smjöri og osti. Hann vakti mig á morgnana þegar ég gisti, sem var ansi oft, ég fékk morgunmat og far með honum í skólann og svo tók hann mig auðvitað í aukatíma þegar ég átti í basli með danska málfræði í landsprófi. Alltaf hlýr, alltaf hvetjandi og skammaði okkur aldrei. Eina skiptið sem ég veit til þess að hann hafi verið ósáttur við misgáfulegar ákvarðanir mínar var þegar ég skipti um bekk í landsprófi þar sem ég vildi vera með vinkonum mínum. Það tók eitt stutt símtal þar sem hann á sinn hlýja hátt sannfærði mig um að þetta væri ekki það sem mér væri fyrir bestu og viti menn, daginn eftir var ég komin aftur í gamla bekkinn minn.
Í minningunni var líf æsku minnar í Bólstaðarhlíðinni ljúft. Tíminn leið, ég varð fullorðin og þau fluttu úr Hlíðunum. Amma Áslaug flutti stuttu síðar til að vera nálægt þeim og Hallveigu föðursystur minni og fjölskyldu hennar. Þannig skapaðist eiginlega smá Thorlacius-fjölskylduþorp í Laugaráshverfinu, þar sem þau Kristján og Hadda sinntu sínu fólki, ömmu og öðrum ættingjum er leið áttu inn í vébönd plássins. En svo kom sorgin og hún var komin til að vera. Það á enginn að þurfa að sjá á eftir börnunum sínum og allra síst tvisvar. Það er aðdáunarvert hvernig þeim Kristjáni, Ásdísi, Ásu, Sigrúnu og Sigríði tókst að ráða við það stóra verkefni sem veikindi Ingu og síðar Sollu voru og að ráða við nýjan veruleika eftir andlát þeirra beggja. En það tókst eins vel og hægt er að ætlast til þegar svo stórt skarð er höggvið í hópinn sem maður ætlar og trúir að maður fái að eldast með. Ég held að þar hafi hlýja og elska Kristjáns haft mikið að segja, sem og samheldnin og ástin milli þeirra allra.
Hann Kristján setti ævinlega ljós sitt undir mæliker. Hann var hæfileikaríkur á mörgum sviðum, vel lesinn, teiknari góður, fróður, skemmtilegur og fallegur yst sem innst. Hann var einhver besta manneskja sem ég hef kynnst og ég er óendanlega þakklát fyrir að hafa haft hann í þorpinu mínu alla tíð.
Elsku Ásdísi, Ásu, Sigrúnu, Sigríði og fjölskyldum þeirra votta ég mína dýpstu samúð.
Halla Thorlacius.
Kristján markaði falleg spor á sinni ævi, skólamaður fram í fingurgóma, vel lesinn, vandaður og víðsýnn. Hann sinnti sínu fólki af virðingu og hlýju sem vel má sjá á hæfileikaríkum og vel gerðum dætrum. Hann tókst á við gleði og sorgir lífsins með aðdáunarverðum hætti. Kristján og Ásdís voru skemmtilega ólíkt par sem fylgdi góðu göngulagi á langri ævi. Hún músíkalskt samkvæmisljón en hann stóískur klettur sem hafði húmor fyrir sinni konu. Hafðu kæra þökk fyrir vinskapinn. Hjartans samúðarkveðjur kæra fjölskylda, minningin um vandaðan gæðamann lifir.
Ragnhildur Zoéga.
Ég kveð með söknuði kæran vin Kristján Thorlacius. Leiðir okkar lágu saman 1953 þegar ég flutti í Skaftahlíð en Kristján bjó með móður sinni og systkinum í næstu götu, Bólstaðarhlíð. Lágu garðar húsa okkar saman og auðvelt var að stytta sér leið með því að vinda sér yfir grindverkið.
Við Kristján vorum strax mjög nánir, byrjuðum haustið 1953 í Gagnfræðaskóla Austurbæjar, eftir 2 ár þar fórum við í landspróf, síðan í MR og urðum stúdentar 1960. Eins og gefur að skilja hófst þá nýtt skeið í lífi okkar. Ég fór til náms í Danmörku og staðfesti ráð mitt þar og Kristján hafði þegar í MR bundist skólasystur okkar Ásdísi Kristinsdóttur.
Ég var mjög hrifinn af leikni Kristjáns við að teikna einkum andlitsmyndir og reyndi hvað ég gat að herma eftir honum. Það var dæmt til að mistakast og einu minjar um tilraunir mínar eru úr gömlum námsbókum og var lítil hrifning á mínu heimili. Kristján sá um ásamt félaga okkar Gunnari Eyþórssyni að teikna myndir af stúdentsárgangi okkar í FAUNU 1960, sannarlega listaverk.
Á námsárunum skildi leiðir á sumrin. Kristján var þá 3-4 mánuði í sveitinni hjá afa sínum og ömmu að Fremstafelli í Þingeyjarsýslu. Ég var hins vegar borgarbarnið sem bar út blöð, var sendill, æfði fótbolta með Val og fór sjaldan langt frá borginni.
Á Danmerkurárum mínum voru engin önnur úrræði til að halda samskiptum en að skrifast á upp á gamla mátann. Símtöl milli landa voru ekki í boði nema í ýtrustu neyð og lítið um að stúdentar færu heim á sumrin nema ef væri vegna sumarvinnu en í mínu tilviki var það ekki svo.
Árið 1965 lágu leiðir okkar saman aftur og þá voru Kristján og Ásdís búin að eignast dæturnar Ingileif og Áslaugu og við Anna Björk dótturina Önnu Birnu. Vináttan var traust og lífið hélt áfram á nýjum grunni. Ég hóf starf í mínu fagi og Kristján hafði lokið námi og hafið ævistarfið sem kennari. Ég hef heyrt góðan vitnisburð um hann sem kennara og fyrrverandi nemendur hans sagt að hann hafi verið sanngjarn og góður kennari en veitti nemendum um leið gott aðhald.
Kristján var frumlegur og úrræðagóður jafnt í kennslu sem öðru. Á fyrstu árum kennslunnar fékk hann það hlutverk að kenna dönsku í bekkjardeildum þar sem nemendur voru ekki námfúsir og þá enn síður í dönsku en öðrum greinum. Hafði Kristján þá samband við föður minn sem var innflytjandi dönsku vikublaðanna og spurði hvort hægt væri að fá Andrés Önd-blöð sem ætti að endursenda, til að nota við kennsluna. Það var sjálfsagt og þar með voru kennslubækurnar lagðar til hliðar og Andrés Önd og félagar urðu vinsælt efni í tímunum og námsárangur í dönsku stórbatnaði.
Síðustu misserin hafa fundir okkar Kristjáns verið strjálir og eftir að þau hjónin fluttu á Grund var oftar tekið upp símtólið og spjallað. Ásdís var horfin inn í heim minnissjúkdómsins en sýndi ávallt góð viðbrögð við heimsóknir mínar.
Við Anna Björk og börn okkar Anna Birna, Örn og Steinar vottum Ásdísi og eftirlifandi dætrum, Áslaugu, Sigrúnu og Sigríði, og einu eftirlifandi systur Kristjáns, Hallveigu, og fjölskyldum þeirra innilega samúð.
Almar Grímsson.