Ragnar Kristján Stefánsson fæddist í Reykjavík 14. ágúst 1938. Hann andaðist á Landspítalanum 25. júní 2024.
Foreldrar Ragnars voru Rósa Kristjánsdóttir kjólameistari (1912-1998) og Stefán Bjarnason byggingaverkamaður (1910-2010). Systur Ragnars eru Guðný, f. 1935 og Elsa, f. 1940, dóttir Stefáns og Ingibjargar Vestmann.
Ragnar kvæntist Astrid Malmström (Ástríði Ákadóttur) menntaskólakennara 1961. Börn þeirra eru: 1) Kristína, f. 1962. Maki Finnbogi Pétursson. Börn: a) Bergur. Maki Lilja Stefánsdóttir. Börn: Högni og Brynja. b) Anna. Barn: Auður Björg Brynjarsdóttir. c) Stefán. Maki María Nielsen. Börn: Hrafnhildur Lóa og Sóley. d) Marta. Barn: Mjöll Björgvinsdóttir. 2) Stefán Áki, f. 1966. Dóttir hans og Elenu Guijarro Garcia er Marína Stefánsdóttir Guijarro. 3) Gunnar Bjarni, f. 1970. Maki Evgenía Kristín Mikaelsdóttir. Börn: a) Leifur. Maki Eveliina Aurora Marttisdóttir. b) Arnar. 4) Bryndís Hrönn, f. 1974. Móðir Björk Gísladóttir arkitekt. Maki Hannes Lárusson. Börn: a) Gísli Reginn, sonur Péturs Sigurðssonar. b) Sunna Kristín, dóttir Hannesar og Kristínar Magnúsdóttur. Maki Baldur Helgi Snorrason. Barn: Emil Óskar. Jóhann Bjarni Kolbeinsson er uppeldissonur Hannesar. Maki Eyrún Björk Jóhannsdóttir. Börn: Benedikt, Lóa og Þórunn.
Árið 1990 kvæntist hann eftirlifandi eiginkonu sinni, Ingibjörgu Hjartardóttur rithöfundi. Börn þeirra, synir Ingibjargar og Dags Þorleifssonar, eru: 1) Hugleikur, f. 1977. Maki Karen Briem. 2) Þormóður, f. 1980. Börn með Sigurbjörgu Birgisdóttur: Dagur og Birgir.
Ragnar nam við Laugarnesskóla, Menntaskólann í Reykjavík og Uppsala háskóla. Lauk fil.cand.-prófi (B.Sc.) í stærðfræði og eðlisfræði 1961, fil.cand.-prófi í jarðeðlisfræði 1962 og fil.lic.-prófi (Ph.D.) í jarðskjálftafræði 1966. Forstöðumaður jarðeðlissviðs Veðurstofu Íslands 1962-1963 og 1966-2003. Forstöðumaður Rannsóknarstofu Veðurstofunnar við Háskólann á Akureyri 2004-2005 og rannsóknarprófessor við sama háskóla 2005-2008. Gestavísindamaður á rannsóknastofnunum víða um heim.
Ragnar barðist fyrir friði og réttlæti. Formaður Fylkingarinnar, virkur í starfi fjölda samtaka að því miði og kjarabaráttu. Stofnfélagi Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, um hríð í flokksráði. Formennska í Framfarafélagi Dalvíkurbyggðar (stofnfélagi) og Landsbyggðin lifi.
Ragnar stýrði jarðskjálftamælingum, uppbyggingu mælikerfa og var í náinni samvinnu við almannavarnir. Hann leiddi fjölþjóðlegar rannsóknir til að spá fyrir jarðskjálftum og eldgosum. Ritaði fjölda fræðigreina og flutti fjölda erinda á alþjóðaráðstefnum. Hann dró saman rannsóknaniðurstöður og reynslu af jarðskjálftaspám í bókinni „Advances in Earthquake prediction. Research and Risk Mitigation“. Ragnar fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2022 fyrir bókina „Hvenær kemur sá stóri? Að spá fyrir um jarðskjálfta“. Endurminningar Ragnars „Það skelfur“ komu út 2013.
Útför Ragnars fer fram frá Neskirkju í dag, 10. júlí 2024, kl. 15 og er líka streymt. Minningarathöfn verður síðar í Tjarnarkirkju, Svarfaðardal.
Pabbi var stór í víðustu merkingu þess orðs. Hann var með sterka nærveru, stórar tilfinningar, sterkar skoðanir, mikla réttlætiskennd, kraftmikla rödd sem sagði skoðanir sínar og róaði þegar á reyndi. Hann var glaðlyndur, örlátur á sjálfan sig, hjálpsamur, en líka utan við sig og gleyminn. Hann var þolinmóður og óþolinmóður.
Fyrir mér var hann fyrst og fremst pabbi minn með hlýja trausta faðminn, góðu nærveruna og fallegu röddina. Sá sem hlustaði fordómalaus, átti oft svörin og fræddi. Sá sem ég skreið upp í fangið á og hjúfraði mig upp að. Trúði fyrir hugsunum mínum og treysti á.
Það eru óteljandi minningar sem leita á hugann á þessum tímamótum. Eins og þegar ég lítil lá á stóra maganum hans og plokkaði kusk úr naflanum hans, þegar við systkinin biðum full eftirvæntingar eftir að pabbi kæmi heim úr vinnunni og felldum hann í gólfið og ærsluðumst í gamnislag, þegar pabbi róaði mig þegar ég gat ekki sofnað á kvöldin, öll ferðalögin út úr bænum og til Svíþjóðar. Það rifjast upp þegar fjölskyldan ferðaðist á milli bæja í Norður- Þingeyjarsýslu í kjölfar náttúruhamfara. Pabbi tók viðtöl við ábúendur og skoðaði ummerki um jarðrask. Alls staðar var tekið á móti okkur af gestrisni með svignandi hlaðborðum, við röðuðum í okkur góðgæti frá morgni til kvölds og maginn sagði til sín á kvöldin. Þá er líka óborganleg minning frá unglingsárum þegar fjölskyldan lagði í sex vikna ferðalag um Evrópu á svörtu Volgunni. Bíllinn bilaði og við vorum dregin frá Egilsstöðum um borð í ferjuna á Seyðisfirði. Við vorum svo dregin frá borði í Færeyjum þar sem gert var við bílinn. Í næstu höfn uppgötvaðist að við vorum ekki með viðeigandi tryggingar og til að kóróna allt saman týndi pabbi peningaveskinu sínu. Ferðin varð hin besta þar sem við ferðuðumst víða og gistum ýmist í tjaldi eða hjá vinum og ættingjum.
Pabbi vann mikið. Á daginn var hann á Veðurstofunni og á kvöldin var það pólitíkin. Ég þvældist talsvert með pabba, um helgar var það á Veðurstofuna í Sjómannaskólanum, þá var skipt um mæliblöð á mælum og svo á Tjarnargötuna og Laugaveginn þar sem Fylkingin var til húsa.
Það voru rósturtímar þegar ég var lítil stelpa. Pabbi var byltingarsinni sem trúði að samvinna og jöfnuður meðal allra manna væri grundvöllur þess samfélags sem stefna þyrfti að. Pólitísk umræða var fyrirferðarmikil heima, pabbi var virkur í Fylkingunni, sískrifandi greinar og tók þátt í mótmælum svo eitthvað sé nefnt. Það var stundum flókið fyrir lítið stelpuskott að skilja og melta hvað var í gangi, pabbi lenti í átökum, aðkasti og líka í fangelsi á Þorláksmessu 1968 eftir mótmæli gegn Víetnamstríðinu.
Í dag kveð ég pabba 62 árum eftir að hann tók á móti mér á fæðingardeildinni í Uppsölum. Nú lokast þessi hringur. Söknuðurinn er sár en veganestið sem ég fékk í uppvextinum lifir með mér og áfram í afkomendum mínum.
Kristína.
Ég mun ekki gleyma júníkvöldi þegar ég fékk þær fréttir að Ragnar tengdafaðir minn þurfti að fara á spítala. Þá vissum við ekki að þetta voru hans síðustu klukkustundir á þessari jörðu. Það var mikill skellur að þurfa að kveðja einn besta vin sinn með svo sem engum fyrirvara. Minningar streyma, fallegar, bjartar og ótalmargar.
Ég man þegar ég kynntist Ragnari um mitt sumar 1990. Þá kom ég í fyrstu heimsókn til Íslands til að hitta Gunnar Ragnarsson kærasta minn, sem ég kynntist í heimalandi mínu Rússlandi sumarið þar á undan. Okkur Gunnari var boðið í mat til Ragnars og Imbu á Tryggvagötuna og þá fann ég strax að fjölskyldan tók mér opnum örmum.
Við Ragnar urðum fljótt góðir vinir og gátum talað um heima og geima, þó ekki alltaf endilega sammála um allt, enda bæði fólk með sterkar skoðanir og sannfæringu. Umræðan snerist oft um stjórnmál og stjórnmálastefnur, sögu, atburði líðandi stundar, vísindi og ýmislegt annað. Við gátum setið klukkutíma og lengur yfir kaffibolla sem breyttist svo í kvöldmat, af því að samtölin voru skemmtileg og fróðleg. Þannig heyrði ég sögur um verkalýðsbaráttu á Íslandi, kreppuna, síldarævintýrið, uppbyggingu jarðskjálftamælinga og margt fleira og lærði þar með sögu nýja heimalands míns. Það var ótrúlegt hvað hann vissi mikið. Á sama tíma var hann líka til í að hlusta og spyrja um það sem hann þekkti ekki vel.
Hann var besti tengdafaðir, sem hægt er að hugsa sér, kletturinn minn og fjölskyldu minnar. Og hann var frábær afi, algjört uppáhald strákanna minna. Þrátt fyrir annir fann hann alltaf tíma fyrir okkur, styðjandi, hvetjandi og jákvæður. Ég man vel eftir 1. maí göngu árið 1996. Þá fórum við saman í hana og strákarnir mínir með, sá yngri ekki orðinn eins árs. Ég hló að því að börnin mín fengju strax rétt uppeldi og yrðu örugglega mjög réttsýnir menn þegar fram liðu stundir, sem hefur reyndar ræst. Sumur í Svarfaðardal, samtöl um heimspeki, stjórnmál, vísindi og verkalýðsbaráttu, samverustundir á Tryggvagötunni og heima á Sunnuveginum verða þeim alltaf minnisstæð. Við erum óendanlega þakklát fyrir að fá að hafa þig í lífi okkar, elsku Ragnar.
Hvíl í friði, besti pabbi, tengdapabbi og afi.
Þín
Evgenía Kristín (Sjenía).
Kaffi, mjólk og kleinur við eldhúsborðið. Stuttu stoppin á Tryggvagötuna sem urðu að margra klukkutíma heimsóknum. Sumurin í Svarfaðardal sem byrjuðu á skylduheimsókn á Dalvík í gelgjufæði og þetta mikla frelsi í sveitinni. Löngu samræðurnar um pólitík og samfélag, stóru og litlu málin, hláturinn og spekúleringarnar.
Að alast upp með afa sem var alltaf í sjónvarpinu, virtist þekkja alla og allir þekktu, ferðaðist um hnöttinn og vissi allt var mögnuð reynsla. Það einfaldaði yfirleitt samræður um það hverra manna maður væri og ég man þá tilfinningu sem polli að maður gæti farið hvert sem er í heiminum og allir myndu vita hver afi væri. Af því var maður stoltur og örlítið montinn. Með aldrinum sá maður betur að þessi bernskutilfinning væri kannski ekki svo vitlaus. Því afi gat talað við hvern sem er um hvað sem er á jafningjagrundvelli, hafði einstaka nærveru og orku sem var það eftirminnileg að ekki þurfti nema stutt kynni af honum til að þekkja hann. Á sama tíma hafði hann ótrúlegan áhuga á fólki, tók því eins og það var og kunni að meta fjölbreytileika mannkynsins. Það var því ekki skrítið að á Tryggvagötunni og í Laugasteini kynntist maður hópi fólks á öllum aldri og úr öllum kimum samfélagsins, talandi ekki um þegar slegið var upp í boð eða veislur. Að stíga þar inn var að stíga inn á heimili heimsborgara og maður fann áþreifanlega fyrir persónuleika hans þó hann væri ekki viðstaddur, sem við Eve upplifðum sterkt þegar við hófum sambúð okkar á Tryggvagötunni sumarið 2018.
En fyrst og fremst var hann góður afi og ég er heppinn að hann hafi átt svo stóran þátt í að móta mig. Honum þótti vænt um okkur, kom með góð ráð þegar þurfti en vissi líka hvenær ætti að hlusta. Hann hafði nefnilega það einstaka næmi að vita hvað maður þurfti. Þegar ég var kominn á fullorðinsár lærði ég að meta meira og meira þá lífsreynslu sem hann bjó yfir og hversu vel hann gat miðlað henni og þekkingu sinni, en hann hafði líka ákveðið innsæi sem fæst með því að lifa lífinu til fulls. Maður gat leitað óspart til hans út af hverju sem var og ávallt var hann með svör á reiðum höndum. Hann gat séð stóru myndina og sett hlutina í samhengi. Og alltaf var stutt í húmorinn. Það þarf nefnilega ekki að taka hlutunum svo alvarlega og stundum er bara best að líta á skondnu hliðarnar og hlæja, enda var hann heimsmeistari í pabbabröndurum.
Það er sérstök tilfinning að kveðja einstakling sem manni finnst stærri en lífið sjálft. Þó komið sé að kveðjustund skilur afi eftir sig arfleifð sem fræðimaður og baráttumaður sem mun sennilega lifa aðra mannsævi til viðbótar og gott betur. En fyrir mig sitja eftir minningarnar, allar skemmtilegu stundirnar, brandararnir og allt það sem hann kenndi mér. Fyrir það, samveruna og vináttuna er ég ævinlega þakklátur.
Leifur Valentín Gunnarsson
Elsku afi er farinn í enn eina ævintýraferðina.
Akkúrat núna myndi hann stinga upp á að fara í berjamó til að vinna úr söknuðinum, enda er kyrrðin í berjamó besta leiðin til að finna núið og þar býr allt sem er.
Afi leyfði okkur að æfa sjálfstæðið. Allar hugmyndir voru góðar og engin of stór eða skrítin. Við fengum að túlka reglurnar sjálf svo lengi sem við urðum okkur ekki að voða. Það var um að gera að prófa og læra.
Afi var mikill pælari, góður kennari og honum tókst að tala um flókin hugtök á mannamáli. Hann naut þess að færa okkur frumlegar, fræðandi og framandi minjar í formi sagna og gripa úr heimshornaflakki sínu. Afi kenndi okkur líka að fólk er allskonar og fjölbreytileiki auðgar samfélagið og okkur sjálf.
Afi var uppátækjasamur. Til dæmis var gott trix að sleikja diskinn sinn eftir matinn, þá leit hann út fyrir að vera hreinn og maður slapp við uppvaskið. Unglingurinn í honum var líka ávallt skammt undan. Honum brá fyrir í forstofunni á Sunnuvegi þar sem hann var búinn að sparka risastóru skónum af sér, út og suður. Hann bauð í kvöldverðarveislu þar sem aðalrétturinn var stór og rauð skál af seríósi og svo voru það „hakk-og-spagettí-í-flest-mál“-tímabilin.
Við hlökkum til að sjá hvaða óvæntu gjafir hann færir okkur úr þessu ævintýri. En þangað til, góða ferð.
Bergur, Anna, Stefán og Marta.
Elsku móðurbróðir minn er skilinn við. Mig langar að senda þér kveðju elsku frændi, með fáeinum fátæklegum orðum. Ég man eftir þér strax frá mínum fyrstu minningum, djúpu röddinni, skegginu og stóra faðminum. Ég man líka líflegar umræður yfir árlegum jólaverði hjá ömmu og afa, þar sem þú og pabbi gátuð þrefað um stjórnmál, eða talað um eldgos og jarðhræringar, oft með kímniglampa í augum. Ég man þegar ég dvaldi hjá ömmu og afa, að þú hafðir alltaf tíma til að spjalla svolítið, og eins og afi spjallaðir þú alltaf við barnið, eins og það vissi allt. Virðing þín fyrir skoðunum og áliti barnsins var einstök. Þú hlóst líka innilega þegar barnið varð algjörlega bremsulaust, af því að það fékk að tjá sig um allt og alla. Mér hefur alltaf þótt vænt um þig, elsku frændi minn. Það var algjörlega óviljandi að við ákváðum að gifta okkur á brúðkaupsafmæli ykkar Imbu – og þess vegna komust þið ekki – en ég er samt glöð að við eigum þá dagsetningu saman. Það hefur verið allt of lítill samgangur síðustu ár, en við höfum vitað hvort af öðru allan tímann, og það er vel. Kærleikur án skilyrða. Líf með tilgangi, það hefur þú átt. Þú hefur miðlað einstaklega af þinni sérfræðikunnáttu til allra landsmanna í áratugi, á máli sem allir skildu. Þú talaðir aldrei um „sviðsmyndir“ svo langt sem ég man. Þú varst miðjan í góðra vina hópi, en stalst ekki ljósinu frá neinum samt. Þú varst innilegur fjölskyldumaður og ég veit að afi og amma taka á móti þér í sumarlandinu, full af þakklæti og ást.
Það er erfitt á svona stundu að búa erlendis og geta ekki fylgt þér síðasta spölinn, ég verð þar í anda.
Takk fyrir samfylgdina elsku Raggi frændi – við hittumst aftur annars staðar.
Ég votta öllum öðrum ástvinum mína dýpstu samúð og kærleika.
Þín frænka,
Steinunn.
Góður félagi hefur kvatt þennan heim. Þegar ég kom heim til Íslands eftir langt nám og störf í Kaupmannahöfn 1974, var Ragnar orðinn einn helzti fræðimaður okkar í virkni jarðskjálfta á Íslandi, en einnig vel þekktur fyrir andstöðu sína við veru varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli og mótmælaaðgerðir vegna þess. Við Ragnar kynntumst betur 1975, er við vorum sendir sem fulltrúar Íslands á mikla heimsráðstefnu UNESCO um náttúruvá og mótvægisaðgerðir í París. Við áttum góða daga saman í París og borðuðum alltaf saman á kvöldin nema einn dag, en þá sagði Ragnar við mig: „Júlíus, ég get ekki verið með þér í kvöld, því að ég þarf að fara niður í bæ til að hitta komma.“ Þannig var Ragnar, ákveðinn, hreinn og beinn. Við áttum síðan langt og farsælt samstarf um jarðskjálftamál, fórum meðal annars saman í leiðangur til Mexíkó eftir jarðskjálftann mikla í Mexíkóborg 1985 til að kanna afleiðingar hans. Ragnar átti síðan eftir að skipuleggja mælingar á jarðskjálftum um allt land, sem hafa aukið þekkingu okkar á eiginleikum jarðskjálfta á Íslandi svo um munar.
Fyrir utan jarðskjálftamælingarnar stundaði Ragnar fræðilegar rannsóknir á því, hvernig hægt væri að spá fyrir um jarðskjálfta. Skrifaði hann kafla í bókinni Náttúruvá á Íslandi (2013), sem ég ritstýrði ásamt fleirum, um þessar rannsóknir sínar, og um svipað leyti kom út bók hans um jarðskjálftaspár, Advances in Earthquake Prediction. Research and Risk Mitigation (2011), sem vakti mikla athygli meðal jarðskjálftafræðinga um allan heim. Bók hans á íslenzku um sama efni, Hvenær kemur sá stóri? Að spá fyrir um jarðskjálfta, kom út 2022, og fékk Ragnar íslenzku bókmenntaverðlaunin á sviði fræðibóka fyrir hana.
Þegar við vorum báðir komnir á eftirlaun, tókum við ásamt konum okkar upp á því að eyða lunga sumarsins í Berlín. Þar hittumst við reglulega og fórum oft að borða saman „Knusprige Ente“ á víetnömskum veitingastað rétt hjá torginu hennar Rósu Luxemburg í Austur-Berlín. Þá vart margt skrafað, og þjóðmálin, bæði á Íslandi og í Þýzkalandi, krufin til mergjar. Ég kveð góðan dreng og votta Ingibjörgu konu hans og öðrum aðstandendum samúð mína.
Edvarð Júlíus Sólnes.