Meistaradeild
Víðir Sigurðsson
vs@mbl.is
Þrátt fyrir talsverða yfirburði megnið af leiknum urðu Íslandsmeistarar Víkings að gera sér að góðu markalaust jafntefli gegn írsku meisturunum Shamrock Rovers á Víkingsvellinum í gærkvöld.
Þetta var fyrri viðureign liðanna í fyrstu umferð undankeppni Meistaradeildar karla en seinni leikurinn fer fram í Dublin næsta þriðjudag.
Írarnir vörðust vel, sérstaklega seinni hluta leiksins, en Víkingar voru manni fleiri í um það bil 15 mínútur eftir að Darragh Nugent fékk sitt annað gula spjald á 80. mínútu og var rekinn af velli.
Þetta þýðir að Víkingar þurfa að sækja sigur til Dublin á þriðjudaginn kemur og þar verður framlenging og vítakeppni ef með þarf.
Mikið er í húfi því sæti í 2. umferð í undankeppni er afar dýrmætt og myndi tryggja sigurliðinu í það minnsta umspilsleik um sæti í riðlakeppni Sambandsdeildar.
Liðið sem hefur betur í þessu einvígi mætir tékkneska liðinu Spörtu frá Prag í 2. umferð. Liðið sem tapar þeirri viðureign heldur áfram í þriðju umferð Evrópudeildarinnar og færist síðan yfir í umspil Sambandsdeildar með tapi þar.
Tapi Víkingar einvíginu við Shamrock eiga þeir mun erfiðara verkefni fyrir höndum í 2. umferð Sambandsdeildar en þá myndu þeir mæta því liði sem bíður lægri hlut í viðureign Borac Banja Luka frá Bosníu og Egnatia frá Albaníu.
Víkingar komust næst því að skora strax á 10. mínútu þegar Jón Guðni Fjóluson átti skalla sem Leon Pöhls varði með því að slá boltann í stöng. Erlingur Agnarsson fylgdi á eftir af stuttu færi en skaut líka í stöngina og út.
Víkingar áttu nokkrar aðrar góðar marktilraunir en gekk annars illa að brjóta niður sterkan varnarleik Shamrock. Þeir sluppu síðan fyrir horn á 87. mínútu þegar Johnny Kenny slapp innfyrir vörn Víkings í skyndisókn og vippaði boltanum yfir Ingvar Jónsson markvörð en líka yfir þverslána.