Frágangur á lóð Landsbankans við Reykjastræti er á lokametrunum. Nú er verið að gróðursetja trjáplöntur og ljúka við hellulögn. Bráðlega verða tjarnirnar fylltar af vatni.
Útlit og hönnun á lóðinni sem vísar að Kalkofnsvegi tekur mið af lóð Hörpu þannig að svæðið myndi eina heild. Þá er gert ráð fyrir að frágangi við tröppur sem snúa að aðkomusvæði Hörpu ljúki fljótlega.
Húsið er 16.500 fermetrar og skiptist þannig að bankinn nýtir rúmlega 10.000 fermetra en ríkið keypti um 6.000 fermetra fyrir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið og utanríkisráðuneytið. Gert er ráð fyrir því að flutningum í húsið ljúki í haust.