Viktor Jónsson, sóknarmaður Skagamanna, var besti leikmaðurinn í þrettándu umferð Bestu deildar karla í fótbolta að mati Morgunblaðsins.
Viktor átti sannkallaðan stórleik og skoraði fjögur mörk, auk þess að leggja eitt upp, þegar ÍA burstaði HK 8:0 á laugardaginn. Fyrir það fékk hann þrjú M í einkunn hjá Morgunblaðinu og er fyrsti leikmaðurinn sem fær þá einkunn á þessu tímabili.
Þetta er í annað sinn sem Viktor er leikmaður umferðarinnar í ár en hann var það einnig í 2. umferðinni í apríl. Þá skoraði hann þrennu þegar ÍA vann HK 4:0 í Kórnum.
Jafnaði Jónatan Inga
Viktor er orðinn markahæsti leikmaður deildarinnar í ár með 12 mörk, einu marki meira en Patrick Pedersen hjá Val, og nú er hann einnig orðinn efstur í einkunnagjöf Morgunblaðsins, M-gjöfinni, ásamt Jónatan Inga Jónssyni úr Val, en þeir hafa báðir fengið samtals 13 M á þessu tímabili.
Með þessum fjórum mörkum hefur Viktor skorað 110 mörk í deildakeppninni, þar af 31 í úrvalsdeild og 79 mörk í 1. deild, í samtals 216 leikjum.
Þrír Skagamenn eru í úrvalsliði 13. umferðar en auk Viktors eru það vængbakverðirnir Johannes Björn Vall og Jón Gísli Eyland sem komu mikið við sögu og skoruðu þrjú af hinum fjórum mörkum liðsins.
Danijel Dejan Djuric úr Víkingi er í liðinu í fimmta sinn og Gylfi Þór Sigurðsson úr Val í fjórða sinn en að þessu sinni eru þrír nýliðar í liðinu.