Atvinnulíf
Guðmundur Arnar Guðmundsson
Framkvæmdastjóri Akademias
Öflug nýliðafræðsla gerir starfsfólki kleift að byrja skapa verðmæti fyrr. Enn fremur ýtir hún undir að nýtt starfsfólk upplifi fyrr tilfinninguna að tilheyra, sem skilar sér í aukinni ánægju og öryggi í starfi. Íslenskir vinnustaðir eru á hraðferð að rafvæða starfsmannafræðslu en með henni er dýr, tímafrek og takmarkandi staðkennsla úr sögunni. Nýtt fólk getur farið í gegnum nýliðafræðslu sama hvenær ársins það hefur störf og mun auðveldara er fyrir vinnustaði að laga fræðsluna að ólíkum hópum og einstaklingum. Í staðkennslu fara allir í gegnum sama lærdómsferlið en með rafrænni nálgun er auðvelt að sérsníða námið eftir þörfum.
Rannsóknir sýna að öflug nýliðafræðsla getur:
- Minnkað starfsmannaveltu um allt að 50%
- Aukið starfsánægju og -helgun um allt að 70%
- Hraðað því að nýr starfsmaður nái fullum afköstum í starfi um allt að þrjá mánuði
Akademias hefur sl. sex mánuði boðið vinnustöðum greiningu á fræðsluþörfum, þeim að kostnaðarlausu, en hátt í 100 vinnustaðir hafa þegið slíka greiningu. Þeir fræðsluþættir sem koma oftast upp í slíkum greiningum eru: Jákvæð vinnustaðamenning; Árangursrík teymisvinna; Samskipti á vinnustað; Leiðtogaþjálfun; Skyndihjálp og Samskipti við krefjandi einstaklinga. Allt eru þetta fræðsluþættir sem eiga hiklaust heima í nýliðafræðslu.
Í grunninn má skipta nýliðafræðslu í tvennt. Annars vegar fræðslu um vinnustaðinn sjálfan, sögu hans, rekstur, vinnuumhverfið og aðra ytri þætti sem áhrif hafa á starfsemina. Hins vegar felur hún í sér fræðslu um starfið og þá þætti er snerta einstaklinginn sjálfan.
Kostur þess að nýliðafræðsla hefjist á sögu vinnustaðarins, lýsingu á starfsumhverfi og rekstrinum og hlutverki fyrirtækisins innan samfélagsins er sá að það ýtir undir upplifun starfsfólks á tilgangi starfs þess sem og þá tilfinningu að það sé að stíga inn á samhentan vinnustað með sterka menningu og skýr markmið.
Enn fremur ætti nýliðafræðsla að gera nýju starfsfólki ljós gildi, stefnur og áherslur í þjónustu gagnvart viðskiptavinum en á sama tíma skuldbindingum vinnustaðarins gagnvart starfsfólki sínu. Fræðslan þarf að gefa sterka tilfinningu fyrir því að vinnustaðnum sé annt um velferð starfsfólks og sé ábyrgur gagnvart því, svo raunhæft sé að nýliði sýni sömu ábyrgð gagnvart starfi sínu. Nýliðafræðslan er að sama skapi kjörin til að fræða starfsmenn um hagnýt atriði er snerta vöru- og þjónustuþekkingu, þá samskiptasáttmála sem fyrirtækið hefur komið sér upp og áhersluatriði í þjónustu við kúnna. Allar hagnýtar upplýsingar um þætti eins og vinnustundir, matar- og kaffitíma, veikindi, sumarfrí/orlof og tímaskráningar eiga jafnframt heima í nýliðafræðslu.
Vinnustaðir blanda svo sértækri og sérsniðinni fræðslu við tilbúin rafræn námskeið í seinni hluta nýliðaþjálfunar. Erlendis hafa námskeið um einelti, persónuverndarlög, áreitni, meðvirkni á vinnustað, tilfinningagreind og samskiptatengd námskeið lengi verið hluti af reglulegri skyldufræðslu. Enn fremur öryggis- og gæðamál þar sem netöryggi er orðið mjög fyrirferðarmikið. Á Íslandi er æ algengara að þessi efnistök séu hluti af nýliðafræðslu vinnustaða.
Vinnumálastofnun hefur í samstarfi við Akademias búið til námskeið fyrir erlent vinnuafl sem ber yfirskriftina Landneminn. Námskeiðin eru kynning á íslensku samfélagi og vinnumarkaði. Tugir vinnustaða hafa gert Landnemann að hluta af nýliðaþjálfun þeirra fyrir erlent vinnuafl. Andleg heilsa er jafnframt orðið stórt viðfangsefni sem flestir íslenskir vinnustaðir hafa sett á fræðsludagskrá sína.
Rafræn nálgun á nýliðafræðslu vinnustaða er framtíðin. Sé vandað til verka er hægt að flýta fyrir aðlögunarferli starfsfólks, auka starfsánægju þess og miðla grunnupplýsingum – samofnum sérfræðiþekkingu sem sniðin er að ólíkum starfshópum. Til þess að tryggja að upplýsingar fræðslunnar skili sér svo tryggilega til starfsmanna má flétta inn stafrænum krossaprófum eða verkefnum sem eykur eftirtekt og árangur fræðslunnar í heild sinni. Þar að auki fer hún hvergi, heldur er hún ávallt aðgengileg fyrir þá sem vilja rifja upp einstaka þætti þegar líður á starfið.
Hagkvæm, áhrifarík og skilvirk. Þannig á nýliðafræðslan að vera.