Sæmundur K. Finnbogason, sjóðsstjóri hjá Kríu nýsköpunarsjóði.
Sæmundur K. Finnbogason, sjóðsstjóri hjá Kríu nýsköpunarsjóði.
Kría – sprota- og nýsköpunarsjóður hefur skuldbundið sig til að fjárfesta einum milljarði króna í Frumtaki 4 slhf., sem er sérhæfður fjárfestingarsjóður (vísisjóður) á sviði fjárfestinga í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum

Kría – sprota- og nýsköpunarsjóður hefur skuldbundið sig til að fjárfesta einum milljarði króna í Frumtaki 4 slhf., sem er sérhæfður fjárfestingarsjóður (vísisjóður) á sviði fjárfestinga í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum. Sjóðurinn verður samtals rúmir 12 milljarðar að stærð með 10 ára líftíma. Meðfjárfestar í Frumtaki 4 slhf. eru íslenskir fjárfestar auk sjóðsstjóra Frumtaks.

Sjóðurinn er rekinn af sjóðastýringafyrirtækinu Frumtaki Ventures ehf., sem einnig rekur þrjá aðra sérhæfða fjárfestingasjóði. Frumtak 4 slhf. mun fjárfesta í sprotafyrirtækjum sem eru komin af klakstigi, á fyrstu stigum fjármögnunar, og þykja vænleg til vaxtar og útrásar.

Í tilkynningu frá Kríu kemur fram að sjóðnum barst ein umsókn um fjárfestingu á síðasta umsóknartímabili, frá 15. janúar til og með 12. apríl 2024. Heildarfjárhæð sem Kría hafði til fjárfestinga á þessu tímabili var allt að einn milljarður króna. Umsókn Frumtaks 4 slhf. uppfyllti skilyrði um fjárfestingu frá Kríu.

Fjárfestingin í Frumtaki 4 er fjórða sjóðafjárfesting Kríu, en í eignsafni Kríu eru nú þegar þrír sérhæfðir fjárfestingasjóðir sem hafa fjárfest í 33 sprotafyrirtækjum fyrir meira en 7,5 milljarða króna og samhliða fengið til sín meðfjárfestingar frá öðrum fjárfestum fyrir 11 milljarða króna. Fjöldi starfsmanna þessara félaga er yfir 1.000 manns. Að sögn Sæmundar K. Finnbogasonar, sjóðsstjóra Kríu, mun sjóðurinn fjárfesta í íslenskum sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum sem eru annaðhvort með starfsemi á Íslandi eða eiga skýrar rætur að rekja til íslenskra hugmynda.