Hrefna Valtýsdóttir fæddist á Akureyri 6. janúar 1935. Hún lést á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Hlíð á Akureyri 25. júní 2024.

Foreldrar hennar voru hjónin Stefanía Guðjónsdóttir, f. 1902, d. 1983, og Valtýr Aðalsteinsson, f. 1905, d. 1990.

Bræður Hrefnu eru Haukur, f. 1932, d. 2015, og Reynir, f. 1940.

Hinn 10. nóvember 1956 giftist Hrefna Skildi Jónssyni, f. 12. desember 1932, d. 2020. Börn þeirra eru: 1) Valgerður Stefanía, f. 1956, börn hennar og Halldórs A. Brynjólfssonar, f. 1955 (slitu samvistir), eru Halldór Birgir, f. 1975, Þórdís Hrönn, f. 1979, og Sigrún Vala, f. 1988. Seinni eiginmaður Valgerðar var Gunnar Austfjörð, f. 1949 (slitu samvistir). 2) Baldur Reynir, f. 1957, dóttir hans og konu hans Sigurlaugar Jónsdóttur, f. 1963, d. 2005, er Edda Karítas, f. 1990. 3) Sólveig Björk, f. 1961, gift Magnúsi Viðari Arnarssyni, f. 1960. Dætur þeirra eru Hildur Arna, f. 1985, og Hrefna Rún, f. 1991. 4) Sverrir, f. 1963, giftur Brynhildi B. Stefánsdóttur, f. 1969. Börn þeirra eru Matthías Þór, f. 1995, Michael Þór, f. 1998, Marteinn Már, f. 1999, og Perla Sól, f. 2003. Synir Sverris og Örnu K. Heiðarsdóttur (slitu samvistir) eru Ottó, f. 1982, og Sölvi Rafn, f. 1988.

Langömmubörnin eru 22.

Hrefna ólst upp hjá foreldrum sínum í Munkaþverárstræti 1 á Akureyri. Faðir hennar var klæðskeri og rak saumastofu á Akureyri og fékk hún snemma áhuga á saumaskap og hannyrðum almennt.

Hrefna gekk hefðbundna skólagöngu og lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskólanum á Akureyri 1952. Síðan lá leiðin til Ísafjarðar þar sem hún lauk námi við Húsmæðraskólann Ósk vorið 1954.

Hrefna og Skjöldur hófu sambúð 1956 á Akureyri. Árið 1971 hóf Hrefna verslunarstörf í Hagkaup á Akureyri og varð síðar deildarstjóri í dömudeild verslunarinnar og gegndi því starfi þar til hún hætti störfum 2002.

Útför Hrefnu fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 10. júlí 2024, kl. 13.

Í dag kveðjum við elsku mömmu okkar. Hún var okkur systkinunum afskaplega góð mamma. Henni var ætíð umhugað um velferð okkar og studdi okkur í því sem við tókum okkur fyrir hendur, trygglynd og æðrulaus. Í uppvextinum var heimili okkar dæmigert fyrir þann tíma, mamma heimavinnandi húsmóðir með barnahópinn og pabbi vann oft langan vinnudag. Hún fékk snemma áhuga á saumaskap og hannyrðum og vorum við iðulega í heimasaumuðum fötum og útprjónuðum peysum, sem og dúkkurnar sem við dæturnar áttum. Minningin um hve glæsileg hún var í síðkjólunum sem hún saumaði sér fyrir Lions-böllin er skýr fyrir hugskotssjónum. Jólaföndrið er einnig ofarlega í huga þar sem hugmyndaflugið fékk að njóta sín. Á sumrin fórum við oft í tjaldútilegur, sem og dagsferðir með nesti og voru þá helstu örnefni, ár, fjöll og dalir, iðulega nefnd á nafn. Þarna var okkur kennt á landið og tókum við með okkur áhuga á útilegum og landinu fyrir lífstíð. Seinna fóru foreldrar okkar oft í orlofsbústaði á sumrin og oftar en ekki voru barnabörn með í för og nutu ævintýranna sem boðið var upp á í þeim ferðum.

Þegar börnin voru komin á legg hóf mamma störf í Hagkaup á Akureyri meðfram húsmóðurstörfunum og starfaði þar í 32 ár. Lengi sem deildarstjóri í dömudeild, sem hún sinnti af trúmennsku og við góðan orðstír og kunni hún vel við sig í starfinu.

Lengst af bjuggu foreldrar okkar í Beykilundinum þar sem þau byggðu sér hús. Þar var sannkölluð miðstöð fjölskyldunnar í yfir 40 ár, þar sem allir hittust og áttu ófáar gæðastundirnar við eldhúsborðið með nýbakaðar vöfflur á borðum eða perutertu og skemmtilegar umræður.

Garðurinn í Beykilundinum var alltaf blómskrúðugur og fallegur á sumrin. Þau deildu áhuga á ræktun sumarblóma og á vorin fylltust gluggakistur af blómapottum sem búið var að sá í og í fyllingu tímans voru blómin flutt út í blómabeðin eða út í gróðurhús þar sem hugsað var um þau af natni. Síðar um sumarið voru oftar en ekki afskornar rósir eða dalíur í vösum í stofunni.

Mamma lét sér afar annt um ömmubörnin og síðar langömmubörnin. Þau voru mjög hænd að henni enda gaf hún sér alltaf tíma fyrir þau og sýndi þeim mikla góðvild og væntumþykju. Þurfti alltaf að fá nýjustu fréttir af þeim, vita hvernig þau höfðu það og við hvað þau voru að fást hverju sinni.

Elsku mamma, nú er komið að leiðarlokum, takk fyrir allt sem þú varst okkur.

Lífsins faðir, ljóssins herra,

leiði þig um gæfu stig.

Vonin sanna, vorið blíða,

vefji kærleiks örmum þig.

(E.G.)

Þín börn,

Valgerður, Baldur, Sólveig og Sverrir.

Elsku amma.

Við eigum erfitt með að trúa því að þú sért í alvöru farin frá okkur. Þú sem hafðir svo ofboðslega góða nærveru og einstakt lag á því að láta manni líða vel. Þú varst alltaf til staðar þegar við þurftum á þér að halda, sýndir okkur barnabörnunum mikla þolinmæði og góðvild. Alla tíð varstu alltaf til í að setjast við eldhúsborðið og ræða málin og hlusta á allt sem við höfðum frá að segja, alveg frá því við munum eftir okkur. Þitt heimili var einhvern veginn heimili okkar allra. Við vorum alltaf komnar heim þegar við komum í heimsókn í Beykilundinn.

Það eru ófáar minningar og ævintýri sem koma upp í hugann þegar við hugsum til baka. Efst standa þær gæðastundir sem við áttum í Beykilundinum, vöfflukaffi á sunnudögum, pönnukökur með sultu og rjóma, hangikjötsveislan á jóladag, allt kexið sem við stálumst í í kexskápnum, sérstaklega kremkexið og ískexið. Þegar við fengum að sulla með vatn í garðinum í góða veðrinu og baða okkur í balanum þar. En garðurinn var alltaf fallega blómaskreyttur og gróðurhúsið fullt af fallegum blómum. Við elskuðum líka að fá að fylgjast með jarðarberjunum og gulrótunum vaxa og stelast svo í þau þegar þau þroskuðust, skola gulrætur í bílskúrnum og fá hjá þér rabarbara með sykri í skál.

Amma var alltaf til í að búa til ævintýri með okkur. Hvort sem það var að ferðast með barnabörnin í sumarbústaði um allt land, eða að útbúa nesti og senda okkur með þegar við fórum að leika okkur á klöppunum. Aðra daga dönsuðum við og sungum með skríplunum í stofunni og alltaf fengum við endalaust að máta alla fínu kjólana þína og leika okkur í þeim. En í okkar huga varstu alltaf skvísa með bleikan varalit, og kenndir okkur mikilvæg atriði eins og að lita augabrúnirnar á unglingsárunum.

Amma var mikil barnagæla og fylgdist vel með því hvað öll barnabörnin og barnabarnabörnin voru að fást við. Einnig voru gistinæturnar ófáar í gegnum tíðina og alltaf var gott að fá að laumast upp á kaffistofuna í Hagkaup til þín þegar við komum að versla.

Jólaundirbúningurinn stendur einnig upp úr þegar litið er um öxl. Laufabrauðsgerð þar sem við krakkarnir höfðum mismikinn áhuga á því að skera út og fórum alltaf í jólasveinabrekkuna og fengum heitt kakó og rjóma með afskorningunum þegar heim var komið. Einnig átti amma alltaf mömmukökur fyrir jólin. Hún sagðist oft hafa þurft að gera aðra uppskrift því sú fyrsta kláraðist fyrir jólin, því þetta voru vinsælustu smákökurnar.

Í seinni tíð átti hún ekki til orð þegar önnur okkar bauð í barnaafmæli og gleymdi að bjóða upp á þeyttan rjóma með kökunum. Það fannst henni frat, en allt sem var henni ekki að skapi var frat.

Núna tekur afi vel á móti þér í sumarlandinu, en eitt af því sem við dáðumst að alla tíð var ástin á milli ykkar og sú gagnkvæma virðing sem þið báruð hvort fyrir öðru. Bless amma, takk fyrir allt. Það er ómetanlegt að hafa fengið að alast upp með þig okkur við hlið.

Hildur Arna
Magnúsdóttir og
Hrefna Rún
Magnúsdóttir.