Úr kansellíinu er oss kunngert af Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands, að hann hafi fallist á málaleitan Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra um sérstakt heiðursmerki utanríkisþjónustunnar.
Medalíunni á að sæma bæði „íslenska einstaklinga og erlenda, er inna af höndum störf, sem mikils þykir um vert á málefnasviði utanríkisráðuneytisins.“ Því fagna allir titlatogarar heims.
Orðan verður ögn stærri en tíkallinn, skjaldarmerki á framhlið og holtasóley á bakhlið, flokksmerki Þjóðvaka Jóhönnu Sigurðardóttur sællar minningar. Það verður í þremur flokkum: gulli, silfri og bronsi, með gulum, hvítum eða grænum borða, fánalitum Brasilíu.
Til þessa hefur fálkaorðan dugað, en henni „má sæma innlenda einstaklinga eða erlenda fyrir vel unnin störf í þágu þjóðarinnar, einstakra þjóðfélagshópa eða landshluta, eða í þágu mikilvægra og góðra málefna á Íslandi eða á alþjóðavettvangi.“
Af þessum forsetabréfum er ekki vel ljóst hverju nýja heiðursmerkið á við að bæta, nema hvað utanríkisráðherra er í sjálfsvald sett hverjir fá glingrið. Gott samt að vita að þar á bænum hafa menn nóg fyrir stafni við að gæta hagsmuna lands og þjóðar.