Forsvarsmenn heimsendingarfyrirtækisins Wolt funduðu fyrir helgi með Alþýðusambandi Íslands (ASÍ). Að sögn Norðmannsins Christians Kamhaugs, samskiptastjóra Wolt á Íslandi, í Noregi og Lúxemborg, gekk fundurinn vonum framar. Tilefni fundarins var að í síðasta mánuði fóru fulltrúar ASÍ opinberlega fram með ásakanir á hendur Wolt, sem lutu meðal annars að því að fyrirtækið greiddi sendlum skammarlega lág laun, hirti allan gróða en tæki enga ábyrgð.
Ásakanirnar komu forsvarsmönnum Wolt í opna skjöldu. Á síðasta ári höfðu þeir fundað með ASÍ og óskað sérstaklega eftir samvinnu við gerð samninga fyrir verktaka í þeim tilgangi að bæta aðstæður og tryggja réttindi þeirra. Þeir kveða ASÍ þá hafa mætt umleitunum þeirra af áhugaleysi og í kjölfarið ekki svarað óskum um frekara samtal. Þess í stað hafi ASÍ ráðist að Wolt í fjölmiðlum.
Af fenginni reynslu fór Christian því vonlítill á fund ASÍ.
„Við bjuggumst ekki við því að fundurinn gengi jafn vel og hann gerði en umræðan var mjög uppbyggileg. Fulltrúar ASÍ lögðu fyrir okkur fjölda spurninga og voru mjög opnir fyrir því að ræða hvernig við gætum tryggt réttindi sendlanna,“ segir hann í samtali við ViðskiptaMoggann..
Hann kveður sendla Wolt starfa í verktöku á öllum mörkuðum að Þýskalandi undanskildu.
„ASÍ hefur áhyggjur af því en gagnrýni þeirra hefur að mörgu leyti byggst á misskilningi. Meðal annars því að gjaldið sem viðskiptavinur greiðir fyrir sendingu sé það sem sendillinn fái í sinn hlut en það er rangt. Við fáum þóknun hvort tveggja frá veitingahúsum sem selja í gegnum okkur og viðskiptavinum fyrir sendingu og greiðum sendlum meira en sem nemur þóknun viðskiptavina.“
Hann bendir á að ef Wolt greiddi sendlum sínum ekki mannsæmandi laun myndu þeir tæpast hafa áhuga á að taka verkefnin að sér.
„Og þar sem þeir eru ekki starfsmenn fyrirtækisins ráða þeir því sjálfir hvort þeir samþykki eða hafni þeim verkefnum sem þeim bjóðast hverju sinni.“
Þá hafi ASÍ haft áhyggjur af því hvernig fyrirtækið segði verktökum upp.
„Við þurfum stundum að grípa til þess, eins og gengur. Það hefur verið vegna þess að reglum er ekki fylgt, vegna kvartana um áreitni gagnvart viðskiptavinum eða veitingastöðum, eða vegna þess að viðkomandi varð uppvís að því að leigja atvinnuréttindi sín hjá Wolt áfram með ólögmætum hætti, eins og upp kom í maí.“
Eftirlit með framsali réttinda
Innan verktakasamnings Wolt er heimilt að láta þriðja aðila vinna verkið, en það er ekki sama hvernig staðið er að því.
„Við þurfum að hafa upplýsingar um viðkomandi og sá þarf að hafa atvinnuleyfi á Íslandi.“
Spurður hvort Wolt hafi sérstaklega eftirlit með því, svarar Christian játandi.
„Við erum með virkt eftirlit. Ég get ekki opinberað hvernig það nákvæmlega fer fram, en við fylgjumst með ákveðnum rauðum flöggum og bregðumst við ef grunsemdir vakna. Þá tókum við upp andlitsgreiningu í verktaka-appinu, þannig að aðeins sá geti notað það sem passar við þau gögn sem við höfum um viðkomandi,“ segir hann.
Christian segir stéttarfélög víða um heim vera gamaldags í hugsun, þar sem þau einblíni á samninga sem snúast um formlegt ráðningarsamband.
„Við þurfum að hafa sendlana okkar í verktöku vegna þess að við greiðum ekki tímakaup heldur fyrir hverja sendingu. ASÍ virðist þó frekar opið fyrir því að skoða útfærslur á kjarasamningi sem byggjast á verktöku, þeir tóku að minnsta kosti ekki fyrir möguleikann. Þeir hafa áður fundið framsæknar og skapandi lausnir með fyrirtækjum þegar aðstæður hafa kallað á það.“
Wolt og ASÍ sammæltust um að halda samtalinu áfram.
„Við munum hittast aftur að sumri loknu og skoða hvernig slíkur samningur gæti litið út.“
Íslendingar skyndibitasjúkir
Wolt nam hér land á síðasta ári. Christian segir fyrsta árið hafa gengið ævintýralega vel.
„Það má segja að þetta hafi hreinlega sprungið í andlitið á okkur, vöxturinn var miklu hraðari en við reiknuðum með. Innan fárra vikna höfðum við náð markmiðum mörgum mánuðum á undan áætlun. Eftir eitt ár erum við komin þangað sem við reiknuðum með að vera á þriðja ári.“
Spurður hvort munur sé á Íslandi og öðrum norrænum löndum svarar Christian afdráttarlaust játandi.
„Ó já, Ísland sker sig verulega úr. Pöntunartíðni er miklu hærri hér og áskriftarþjónustan okkar Wolt+ er mikið vinsælli á Íslandi en í öðrum löndum. Við hófum starfsemi á öðrum mörkuðum um svipað leyti og á Íslandi en árangurinn hér er mun meiri en á mörkuðum sem við hefðum fyrir fram talið stærri. Teymið okkar hér hefur gert frábæra hluti og ég er mjög hrifinn af þessu séríslenska ‘þetta reddast’-hugarfari.“
Spurður hvort aðgengi að fjölbreyttari veitingastöðum hafi breytt neyslumynstri, segir Christian svo vera að einhverju leyti, en að tengsl heimsendingar og skyndibita séu enn sterk, hér sem annars staðar.
„Í Noregi sáum við í upphafi árs – þegar fólk er gjarnan að taka sig á – að leit eftir salati jókst um 40% en salan jókst samt ekki neitt. Fólk skoðaði salatið en endaði svo á að panta sér hamborgara!“
Wolt nær nú til um 70% Íslendinga og er áherslan nú öðru fremur á að auka úrvalið.
„Við erum þegar byrjuð að hasla okkur völl í dagvöru en höfum áhuga á að auka úrvalið enn frekar,“ segir Christian að lokum.