Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
„Gróður hefur góð áhrif á mannlífið og fegrar umhverfið. Á því viljum við vekja athygli með þessu verkefni og einnig hvetja fólk til að fara í góðan göngutúr og gefa nærumhverfinu gaum. Reykjavík er gróðursæl og falleg borg,“ segir Auður Kjartansdóttir, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur. Nú í sumar útnefnir félagið hverfistré Reykjavíkur og hefur í því skyni óskað eftir tilnefningum frá borgarbúum og öðrum sem til þekkja. Útnefnd verða hverfistré fyrir öll hverfi Reykjavíkur, en þau eru alls tíu samkvæmt þeirri hverfaskiptingu sem gildir af hálfu borgaryfirvalda.
Undirtektir hafa verið góðar, að sögn Auðar. Nokkur fjöldi ábendinga hefur borist og sumum þeirra hafa fylgt skemmtilegar lýsingar, sögur og myndir. Til stendur að gera lista yfir merk tré í borginni, samhliða útnefningu hverfistrjánna.
Þekkt kennileiti og hluti af borgarmyndinni
Í eldri hverfum borgarinnar má finna gömul tré sem oft eiga sér merka sögu. Þarna má til nefna Miðborgina og Vesturbæinn; en við fjölda húsa þar og í almenningsgörðum má gjarnan finna tré sem mörg eiga sér sögu, eru þekkt kennileiti og hluti af borgarmyndinni
„Trjágróður setur þó ekki síður fallegan svip á nýrri hverfi. Hvort sem það eru tré í einkagörðum, trjálundir sem mynda skjól inni í hverfunum eða útivistarsvæði svo sem Öskjuhlíð, Elliðaárdalur og svona gæti ég haldið áfram. Í Norðlingaholti sem tilheyrir Árbænum, Grafarvogi og Grafarholti eru sums staðar líka til gamlir fallegir skógarreitir sem plantað var til fyrir áratugum. Þegar byggingarframkvæmdir hófust á þessum svæðum fengu sum þessara svæða að halda sér og bjóða upp á dýrmæta möguleika fyrir íbúa til að dvelja í náttúrunni,“ segir Auður og heldur áfram:
„Þekkt er úr fræðum að tré í borgum hafa mikil og góð áhrif á umhverfið og líf fóks. Trén skapa skjól, draga úr mengun, eru búsvæði fugla og skordýra og gera umhverfið fallegra og skemmtilegra. Rannsóknir hafa sýnt fram á bein og mælanleg tengsl milli trjágróðurs í borgum og betri heilsu. Til eru erlendar rannsóknir sem sýna að fólk sem dvelst á sjúkrahúsum í nágrenni trjágróðurs er fljótara að ná sér en ef spítalavistin er alfarið í manngerðu umhverfi.“
Hægt að senda inn ábendingar út júlímánuð
Hægt er að senda inn ábendingar um hverfistré Reykjavíkur út júlímánuði á netfangið heidmork@heidmork.is. Þegar allar tilnefningar eru komnar í hús verður farið yfir þær og niðurstaðan kynnt 25. ágúst; en þann dag verður Skógræktarfélag Reykjavíkur 123 ára. Auður segir að kostað verði kapps í þessu að hafa gott samráð við garðeigendur, því ætla megi að mörg hinna fallegu Reykjavíkurtrjáa sem útnefnd verða séu á einkalóðum.
„En einu gildir hvar trén eru; þetta er falleg heild. En fyrst og fremst vonum við að verkefnið verði til þess að fleiri gangi um sitt nærumhverfi og dáist að þeim mögnuðu lífverum sem tré eru,“ segir Auður að síðustu.