Macron málar sig út í horn og Frakkland orðið óstjórnhæft

Franski landsfaðirinn Charles de Gaulle spurði eitt sinn hvernig nokkur gæti stjórnað landi með 265 tegundir af ostum.

Það var þegar 4. lýðveldið í Frakklandi (1946-1958) var að liðast í sundur, en 21 ríkisstjórn sat í landinu á þeim 12 árum. Þá var hershöfðinginn kallaður til úr helgum steini og falið að smíða nýja stjórnarskrá. Hún fól forseta veruleg völd, sem áður voru hjá hinu sundraða þingi, en de Gaulle síðan kjörinn forseti.

Í Frakklandi eru nú um 1.200 ostategundir.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti vildi skáka Þjóðfylkingu Marine Le Pen með því að efna til þingkosninga, en árangurinn afleitur.

Ráðabruggið tókst, en það kostaði sitt. Macron málaði sig út í horn, Þjóðfylkingin með þriðjung þjóðarinnar að baki sér, hálfu öfgafyllra vinstrabandalag Nýju lýðfylkingarinnar með stærsta þingflokkinn, en stjórnarkreppa og upplausn blasir við.

Vonlaust virðist að á margklofnu þingi megi mynda lífvænlega meirihlutastjórn, þar sem flokkar skautast hægri vinstri, en fyrirlitning á Macron er slík að enginn vill vinna með flokki hans.

Hugsanlega gæti Macron myndað utanþingsstjórn, en þá er hætt við að fjendurnir í Þjóðfylkingunni og Nýju lýðfylkingunni næðu saman um sturluð ríkisútgjöld stjórninni til höfuðs, svo ríkisstjórnin stjórnaði í raun engu.

Macron gæti þá mögulega neytt stjórnarskrárákvæðis um neyðarstjórn, en þá er viðbúið að á brystu meiri óeirðir en þekkst hafa í París í mannsaldur eða meira.

Það hefði áhrif út fyrir Frakkland og spurning hve lengi þurfi að bíða 6. lýðveldisins og betri osta.