Grensás Við undirritun samningsins á Grensásdeild Landspítalans í gær.
Grensás Við undirritun samningsins á Grensásdeild Landspítalans í gær. — Morgunblaðið/Eyþór
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra og Karl Andreassen, forstjóri Ístaks, undirrituðu samning vegna nýbyggingar við Grensásdeild Landspítalans í gær. Samningurinn er hluti af verkefnum Nýs Landspítala ohf

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra og Karl Andreassen, forstjóri Ístaks, undirrituðu samning vegna nýbyggingar við Grensásdeild Landspítalans í gær. Samningurinn er hluti af verkefnum Nýs Landspítala ohf. og var vottaður af Runólfi Pálssyni, forstjóra Landspítala, og Guðrúnu Pétursdóttur, formanni Hollvina Grensásdeildar. Byggingin verður um 4.400 fermetrar að stærð og mun rísa vestan við núverandi húsnæði Grensásdeildar. Í nýbyggingunni verður aðstaða fyrir sjúkraþjálfun og iðjuþjálfun með tengingum við núverandi byggingar. Einnig verður þar ný legudeild með 19 rúmum, útisvæði, tómstundarými, eldhús og matstofa. Stefnt er að því að framkvæmdir hefjist í ágúst og ljúki á árinu 2026.

„Grensásdeild er leiðandi í endurhæfingarþjónustu hér á landi og ég er sannfærður um að hið nýja húsnæði muni styðja vel það öfluga starf sem fram fer á Grensásdeild Landspítala á hverjum degi,“ segir Willum Þór Þórsson. Karl Andreassen, forstjóri Ístaks, segir að Ístak sé stolt af að vera partur af verkefni sem er í þágu samfélagsins.