Kostuleg greining á stöðu þjóðarbúsins birtist á vefsvæði efnahags- og fjármálaráðuneytisins í síðustu viku – og ekki í fyrsta skipti. Menn eru farnir að tala um greiningardeild fjármálaráðherra í daglegu tali, en hennar helsta hlutverk virðist vera að fegra stöðu ríkisfjármála, en af þeim er fullt tilefni til að hafa áhyggjur eins og ViðskiptaMogginn rakti í síðustu viku.
Markmið stjórnvalda um aukið efnahagslegt jafnvægi, minni verðbólgu og að skapa skilyrði fyrir lækkun vaxta ganga hratt eftir,“ segir í upphafi nýjustu greiningar ráðuneytisins. Í niðurlagi segir svo: „Í nýjustu yfirlýsingu peningastefnunefndar í maí sagði nefndin að auknar líkur væru á því að núverandi aðhaldsstig væri hæfilegt. Eðlilegast er að túlka það þannig að raunvextir séu taldir hæfilegir til þess að koma verðbólgu nægilega hratt í markmið.“
Yfirlýsing peningastefnunefndar (PSN) er frá því snemma í maí. Líklegt er að PSN hafi byggt skoðun sína um hæfilegt aðhald á heildar- og frumjöfnuði í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. PSN hefur þá ekki verið búin að kynna sér álitsgerð fjármálaráðs sem birtist viku fyrr, enda eru Peningamál nokkuð umfangsmikið rit og hafa að líkindum verið komin í prófarkalestur þegar álitsgerðin birtist. Álit fjármálaráðs sýnir svo engum vafa er undirorpið að meint aðhald ríkissjóðs byggir á sjónhverfingum.
Fram kemur að aðhaldið felist einkum í breytingum á bókhaldsaðferðum. Þá sé hið opinbera í vaxandi mæli að fjármagna verkefni utan A1-hluta ríkissjóðs með eiginfjárframlögum og endurlánum sem þannig birtast ekki á gjaldahliðinni og hafa þannig ekki áhrif á heildar- og frumjöfnuð, en auka samt sem áður lánsfjárþörf og vaxtakostnað ríkissjóðs. Dæmi um þetta eru Betri samgöngur, leigu- og íbúðafélögin Bríet og Bjarg, Grindavíkurverkefnið Þórkatla og félag um byggingu Þjóðarleikvangs. Þá er til skoðunar að fjármagna byggingu Ölfusárbrúar með þessum hætti.
Þegar frumjöfnuður á greiðslugrunni – frekar en rekstrargrunni – er skoðaður, ásamt lánsfjárjöfnuði og handbæru fé frá rekstri, blasir við að aðhald minnkar. Þó er þar enn tekið með í reikninginn óútfært aðhald og eignasala sem er ekki til þess fallið að auka trúverðugleika áætlunarinnar.
Fróðlegt verður að sjá næstu yfirlýsingu PSN eftir að álitsgerð fjármálaráðs er tekin með í reikninginn. Það er ekki hægt að lá henni fyrir að hafa ekki gert það síðast með svo skömmum fyrirvara, en fjármálaráðuneytið hefur enga afsökun fyrir því að halda áfram að fegra stöðuna með úreltri yfirlýsingu PSN, þegar fjármálaráðherra og hans fylgifé veit betur. Álitsgerð Fjármálaráðs getur ekki hafa farið fram hjá þeim.