Það gerði mér gott að búa í París um skeið. Ég reyndi að drekka í mig menningu og sögu borgarinnar, og lagði mig fram við að læra ögn betur á vín, osta og ilmvötn.
Best af öllu var að ég tileinkaði mér þá sjálfsögðu frönsku kurteisi að heilsa nágrönnum mínum þegar ég mætti þeim á stigaganginum (frekar en að auka hraðann og bruna fram hjá þeim) og að bjóða líka afgreiðslufólki góðan daginn. Hátt og snjallt „bon jour“ er prýðilegt móteitur við félagsfælninni og feimninni sem plagar íslensku þjóðina.
Snobbið og tilgerðarstælana þurfti ég hins vegar ekki að læra af Parísarbúum enda er ég að eðlisfari svo góður með mig að það hálfa væri nóg.
Ég hef gaman af franska fasinu – sem sumir kalla hroka – og hef líka lært að það eru yfirleitt úthugsuð rök á bak við flóknar leikreglur fransks samfélags þó að íslenskum plebbum kunni að þykja þær skrítnar. Þannig gætti ég þess t.d. að fjárfesta, eins fljótt og ég gat, í góðum dökkbláum jakkafötum því öðru mega karlar helst ekki klæðast á frönskum fundum og ráðstefnum. Þessi stranga óskrifaða regla snýst ekki um einsleitni eða hjarðhegðun, heldur byggist hún á lýðræðislegri hugsjón og áherslu á vitsmuni frekar en útlit. Í Frakklandi eiga menn sumsé að gera sig gildandi á sínum vinnustað með því að hafa eitthvað fram að færa, frekar en að klæða sig í djarfa liti og mynstur.
Jakkafötin fékk ég hjá Jonas & Cie., norðvestur af Les Halles. Alla daga er kraðak í þessari litlu búð og samt er hún á annarri hæð í ómerkilegri byggingu og ekki einu sinni með sýningarglugga. Ástæðan fyrir því að allir vilja versla við einmitt þennan klæðskera er að þar kaupir Emmanuel Macron jakkafötin sín. Eins og myndir af franska forsetanum bera með sér eru jakkafötin hjá Jonas & Cie. vandlega sniðin og klæðileg, en best af öllu er að fötin eru ekki úr hófi dýr. Valið á Jonas & Cie. var úthugsað enda færi ekki vel í kjósendur ef vinnuföt forsetans kostuðu margföld mánaðarlaun hins dæmigerða Frakka.
Metsöluvara Jonas & Cie. eru jakkaföt saumuð úr dökkbláu klæði sem þeir kalla „bleu Macron“ en ég valdi mér ögn dekkri lit og borgaði rösklega 700 evrur fyrir flíkina. Rétt eins og Macron eru jakkafötin hugguleg en þó ekki óaðfinnanleg, og gera sitt gagn í frönsku samhengi.
Ég held ég versli ekki aftur við Jonas & Cie. og reikna ekki heldur með því að leggja það aftur á mig að búa í Frakklandi, þó ekki væri nema vegna þess hvað skattarnir þar eru svimandi háir og hvernig Frökkunum tekst að gera einföldustu hluti flókna.
Þjóðfylkingin hélt velli
Greinendur eru ekki á einu máli um hvort líta eigi á niðurstöður þingkosninga helgarinnar sem áfall eða varnarsigur fyrir Frakklandsforseta.
Macron leysti upp þingið og boðaði til kosninga í flýti í kjölfar þess að Þjóðfylkingarflokkurinn (fr. Rassemblement National), þjóðernissinnaði hægriflokkur þeirra Marine Le Pen og Jordan Bardella, rakaði til sín atkvæðum í nýafstöðnum Evrópuþingskosningum á meðan bandalag Macrons missti um það bil þriðjung fylgis síns.
Eins og lesendur vita aðskilja Frakkar þing- og forsetakosningarnar og Macron mun ekki þurfa að flytja úr forsetahöllinni fyrr en í fyrsta lagi 2027, en miðjuflokkabandalagið á bak við hann tapaði miklu fylgi um helgina og missti 86 af 245 þingsætum sínum og er núna næststærsta fylkingin á þinginu. Bandalag vinstriflokka bætti við sig miklu fylgi og hreppti 180 þingsæti og stendur með pálmann í höndunum þó þeim hafi ekki tekist að ná hreinum meirihluta – til þess myndi þurfa 289 sæti.
Væntanlega munu miðju- og vinstriflokkarnir mynda breiðfylkingu sem mun hægja á og jafnvel vinda ofan af ósköp hófsömum tilraunum Macrons til að gera franska hagkerfið ögn frjálsara og samkeppnishæfara. Ólympíuleikarnir í París eru að bresta á og Macron liggur eflaust á að reyna a.m.k. að finna bráðabirgðalausn svo hann fái að njóta sín í gestgjafahlutverkinu á íþróttaviðburðinum.
Veðmálið gekk upp, að vissu leyti. Þegar á hólminn var komið fjölmenntu Frakkar á kjörstað til að halda Þjóðfylkingarflokkinum frá völdum, nema að í stað þess að fylkja sér á bak við samflokksmenn Macrons á miðjunni fóru atkvæðin yfir til vinstriflokkanna. Samt er ekki hægt að segja að Þjóðfylkingarflokkurinn geti kvartað yfir niðurstöðunum og fjölgaði þingsætum flokksins úr 89 í 142. Þá fékk Þjóðfylkingin flest atkvæði samanlagt á landsvísu, en kosið er eftir einmenningskjördæmi sem útskýrir ójafna skiptingu þingsætanna.
Loðin loforð um breytingar
Undanfarin misseri hefur greinendum orðið tíðrætt um vinstri- og hægrisveiflur í stjórnmálum. Í Bretlandi er Verkamannaflokkurinn nýkominn til valda í fyrsta skipti síðan 2010 og í Rómönsku Ameríku hafa kjósendur tekið beygju til vinstri allt frá Mexíkó í norðri til Síle í suðri. Á sama tíma þykjast menn sjá hægrisveiflu í Evrópu og birta fjölmiðlar reglulega viðtöl við stjórnmálafræðinga sem viðra miklar áhyggjur af uppgangi öfgakenndra afla á hægri væng evrópskra stjórnmála (öfgar á vinstri vængnum virðast hins vegar aldrei trufla álitsgjafana). Má í þessu sambandi nefna velgengni Geerts Wilders og samflokksmanna hans í hollensku þingkosningunum í fyrra, og Georgiu Meloni á Ítalíu árið þar á undan.
Frekar en að kjósendur séu orðnir meira hallir undir róttæka pólitíska hugmyndafræði á vinstri- eða hægrivængnum grunar mig að þær sveiflur sem við sjáum eiga sér stað hafi meira að gera með þreytu og gremju kjósenda frekar en að hinn almenni borgari sé skyndilega kominn með allt aðra sýn á pólitískar áskoranir líðandi stundar.
Slagorð breska Verkamannaflokksins kjarnaði þetta ágætlega, en slagorðið var einfaldlega „Change“. Stefnuskrá flokksins í þetta skiptið var bæði rýr, loðin og ófrumleg, enda kjósendur ekki á höttunum eftir úthugsaðri og sannfærandi hugmyndafræði heldur einfaldlega að leita að einhverju öðru en því sem Íhaldsflokkurinn hefur getað skaffað. Þeir sætta sig við hvað svo sem „Change“ stendur fyrir, í von um að ástandið skáni einhvern veginn.
Hið daglega hark
Þetta fyrirbæri nær líka til Íslands og sést m.a. á vaxandi áhuga landsmanna á Evrópusambandsaðild og miklum vinsældum Samfylkingarinnar í skoðanakönnunum. Nýleg könnun leiddi í ljós að rétt röskur helmingur landsmanna telur að hagur íslenskra heimila myndi batna með Evrópusambandsaðild og eins og lesendur vita hefur Samfylkingin verið á flugi í skoðanakönnunum eftir að kjörþokkabomban Kristrún Frostadóttir var gerð formaður.
Það er ekki eins og landsmenn séu allt í einu, og upp til hópa, farnir að brenna fyrir Evrópuhugsjóninni eða að þeir hafi kolfallið fyrir jafnaðarstefnu Samfylkingarinnar. Mun sennilegra er að þeim Íslendingum fari fjölgandi sem finnst þrengja að í heimilisbókhaldinu, og þá væntanlega fyrst og fremst vegna þess hvað húsnæði er dýrt og vextir háir. Lífsbaráttan hefur harðnað ögn og þá hallast fólk einfaldlega að öðrum valkostum í pólitíkinni án þess að djúp pólitísk sannfæring búi þar að baki.
Íslenskur athafnamaður súmmeraði þetta upp í samtali sem við áttum fyrir skemmstu. Hann hafði þá rekið sig á að þrátt fyrir að vera skuldlaus og með meira en tvöföld íslensk meðallaun gat hann ekki fengið lán hjá banka til að kaupa dæmigerða íbúð í Reykjavík á ósköp dæmigerðu verði. Bæði er íbúðaverðið hátt og lánakröfurnar líka svo strangar að tölvukerfi bankans sagði einfaldlega nei. Í ofanálag er orðið svo dýrt að taka lán að vextirnir éta upp allt sem kalla mætti eðlilega arðsemi af fjárfestingu í atvinnurekstri.
„Gunnar í Grafarvoginum er ekkert pólitískur, en hann hefur áhyggjur af því hvort hann eigi fyrir afborgununum af nýja pallbílnum. Konan hans er heldur ekki pólitísk en er að reikna það út hvenær fjölskyldan hefur efni á næsta ferðalagi til Spánar,“ útskýrði athafnamaðurinn og færði fyrir því sannfærandi rök að það væru helst húsnæðismálin sem væru að spilla fyrir Sjálfstæðisflokknum.
Í Evrópu eru það væntanlega orkumálin og húsnæðismálin sem íþyngja heimilunum mest, og í Rómönsku Ameríku er það almennur efnahagslegur hægagangur.
Hafi menn áhyggjur af uppgangi flokka á hægri-jaðrinum í Evrópu, eða óttist að Sjálfstæðisflokkurinn gjaldi afhroð í kosningunum 2025, þá er lausnin ósköp einföld: mál málanna er ekki loftslagið, ójöfnuður, innflytjendur, kynjamál, transmál eða áfengi í matvöruverslunum, heldur einfaldlega hvort lífskjör fólks séu góð og fari batnandi. Ef sú undirstaða er í lagi komast pólitíkusar upp með alls konar vitleysu.