— Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mikill áhugi virðist vera á ferðum til Íslands í tengslum við almyrkva á sólu hinn 12. ágúst 2026. Víða á netinu er fjallað um Ísland sem álitlegan áfangastað til að berja dýrðina augum og ferðaþjónustuaðilar hafa sett saman pakkaferðir hingað til lands

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Mikill áhugi virðist vera á ferðum til Íslands í tengslum við almyrkva á sólu hinn 12. ágúst 2026. Víða á netinu er fjallað um Ísland sem álitlegan áfangastað til að berja dýrðina augum og ferðaþjónustuaðilar hafa sett saman pakkaferðir hingað til lands.

Lausleg könnun Morgunblaðsins leiddi í ljós að minnst tvær ferðaþjónustur bjóða upp á vikuferðir hingað til lands af þessu tilefni og verð fyrir slíka ferð eru frá einni milljón króna á farþega. Þá er sömuleiðis hægt að skella sér í 12 daga siglingu um Grænland og Ísland og kostar hún frá 2.750 þúsund krónum á haus.

„Við höfum verið að skipuleggja þetta í þó nokkurn tíma og við elskum Ísland,“ segir Vicky Sahami, stjórnandi hjá Sirius Travel, sem býður átta daga ferð í kringum almyrkvann. Sahami kennir stjörnufræði við háskóla í Denver en hefur síðustu ár verið fararstjóri í sólmyrkvaferðum víða um heim. Þá hefur hún stýrt norðurljósaferðum hingað til lands.

Eins og komið hefur fram í Morgunblaðinu, meðal annars í máli Sævars Helga Bragasonar, má búast við þúsundum ferðamanna hingað þegar almyrkvi verður á sólu. Í vikunni var greint frá því að í Vesturbyggð hefur verið stofnaður starfshópur til að undirbúa komu þessara ferðamanna, enda er talið að myrkvinn sjáist einna best á Látrabjargi.

Vicky Sahami segir að ferð Sirius Travel hafi fengið frábærar viðtökur. „Við höfum boðið upp á sólmyrkvaferðir síðustu 25 árin um allan heim þannig að við getum gengið að traustum lista viðskiptavina. Ferðinni til Íslands hefur verið vel tekið. Við höfum haldið því vel til haga hverjar veðurhorfurnar eru svo fólk getur haldið væntingum sínum í hófi. Ég tel að það sé besta nálgunin því ef þú lofar heiðum himni geturðu setið uppi með hóp af reiðum ferðalöngum ef það verður skýjað. Sama gildir um norðurljósaferðirnar. Sem betur fer erum við orðin sjóuð í að haga seglum eftir vindi og munum nýta okkur þá þekkingu á degi almyrkvans,“ segir hún en bæði Sirius og Eclipse Traveler, sem býður svipaða ferð, eru með þrjá staði í huga fyrir gesti sína og munu velja áfangastaðinn eftir veðurhorfum.

„Þetta selur sig sjálft“

Fjölmargir áhugamenn um sólmyrkva hafa þegar munstrað sig um borð hjá Sahami og félögum og hún býst við fleirum. „Við höfum tekið frá 100 herbergi fyrir okkar hóp á ýmsum hótelum. Núna hafa 149 farþegar boðað komu sína og 6-8 stjörnufræðingar verða með í för sem leiðsögumenn. Af þessum 100 herbergjum eru um tíu laus en við væntum þess að þau verði bókuð á næstu tveimur árum. Við teljum okkur ekki þurfa að leggjast neina markaðssetningu, þetta selur sig sjálft.“

Eins og áður segir býður Sirius upp á átta daga ferð hingað. Verð er frá um 900 þúsund krónum en inni í því er gisting í sjö nætur, morgunverður, hádegisverðir og kvöldverðir flest kvöld. Ofan á þetta bætist vitaskuld við flug og önnur ferðalög til að komast til Íslands. Verðið miðast við að tveir ferðist saman og deili herbergi en þeir sem eru einir á ferð þurfa að greiða um 1,5 milljón fyrir sama pakka.

Gestum verður ekki beint í kot vísað á ferð sinni um landið. Þeir gista á fjögurra og fimm stjörnu hótelum. Auk almyrkvans sjálfs fara þeir í ferðir á þekkta ferðamannastaði, fara í Flyover Iceland, Himnalón í Kópavogi, Friðheima, til Vestmannaeyja og vitaskuld í Bláa lónið.

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon