„Þetta er ólýsanlegt, geggjuð tilfinning að vera búnar að tryggja þetta og geta eytt þessu ári fyrir EM bara í að undirbúa það,“ sagði Glódís Perla Viggósdóttir, fyrirliði íslenska landsliðsins, við Morgunblaðið eftir sigurinn glæsilega gegn Þýskalandi í gærkvöld

„Þetta er ólýsanlegt, geggjuð tilfinning að vera búnar að tryggja þetta og geta eytt þessu ári fyrir EM bara í að undirbúa það,“ sagði Glódís Perla Viggósdóttir, fyrirliði íslenska landsliðsins, við Morgunblaðið eftir sigurinn glæsilega gegn Þýskalandi í gærkvöld.

„Við náðum bara í okkar grunngildi aftur, unnum öll okkar einvígi út um allan völl, skoruðum þrjú frábær mörk og héldum hreinu á móti Þýskalandi sem er eitt af þremur Evrópuliðum sem eru að fara á Ólympíuleikana. Þetta er geggjaður dagur,“ sagði Glódís.

Geta borðað skítuga sokka

„Við höfum þróast mikið sem lið. Gagnrýnin var mikil eftir leikinn úti við Þýskaland, sem var ekki góður. Öll lið geta átt lélega leiki og mér fannst gagnrýnin árið 2023 mjög skrítin á köflum,“ sagði Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari við Morgunblaðið.

„Mér fannst liðið alltaf vera að þróast í rétta átt og við vorum búin að ná í góð úrslit þar til Þjóðadeildin byrjaði. Stelpurnar hafa tekið skref fram á við og við sem lið höfum orðið betri saman. Það er ekki óeðlilegt að það taki smá tíma.

Þetta er eina svarið sem við getum gefið. Allir þessir gagnrýnendur geta borðað skítuga sokka. Ég reyni að forðast að skoða þessa umræðu í verkefnum en auðvitað veit ég af gagnrýninni, ég veit hvað er í gangi. Sumir sem voru að gagnrýna hafa ekki hundsvit á kvennafótbolta,“ sagði Þorsteinn, hæstánægður með sína leikmenn sem leika á EM í Sviss næsta sumar og þurfa ekki að fara í umspil í haust.