Kristín Helga Schiöth
Kristín Helga Schiöth
Markmið líforkuvers er að vinna verðmæti úr lífrænum straumum á ábyrgan og gagnreyndan hátt.

Kristín Helga Schiöth

Í öllum lífmassa býr orka sem í dag fer að miklu til spillis. Þessa orku væri hægt að virkja í meira mæli en gert er, nýta í stað jarðefnaeldsneytis og færast nær markmiðum Íslands í loftslagsmálum.

Áskoranir í umhverfis- og loftslagsmálum samtímans krefjast þess að við hugsum ýmislegt upp á nýtt. Breytinga er þörf á viðhorfi til þess sem okkur þykir betra að hafa fjarri sjónum og fjarri huga, s.s. skólpi, seyru, aukaafurðum dýra og dýrahræja. En jafnvel í mesta óþverranum búa verðmæti, sé meðhöndlun rétt.

Markmið líforkuvers á Dysnesi við Eyjafjörð er að vinna verðmæti úr lífrænum straumum af ýmsum toga, á ábyrgan og markvissan hátt. Í fyrsta fasa verkefnisins er áhersla á uppbyggingu vinnslu fyrir dýrahræ. Í dag eru þeir innviðir ekki til staðar í landinu. Það var staðfest með neikvæðum úrskurði EFTA-dómstólsins í júlí 2022. Við honum þarf að bregðast vegna ímyndar, hreinleika og skilvirkra útflutningsmöguleika íslenskra matvæla.

Þarf að brenna hræ?

Reglulega kemur upp sú umræða að Ísland skorti einfaldlega fleiri brennslur til að geta tekist á við förgun hræja. Það er algengur misskilningur að brennsla sé eina færa leiðin varðandi dýraleifar í efsta áhættuflokki. Í löndunum í kringum okkur hafa dýraleifar áratugum saman verið unnar í líforkuverum með mölun, þrýstisæfingu, fituskiljun og þurrkun. Sú vinnsla óvirkjar möguleg smitefni og afurðir í formi fitu og kjötmjöls eru framleiddar. Fituna má vinna áfram í lífdísil sem nýtist í stað jarðefnaeldsneytis, og kjötmjöl má brenna til orkuvinnslu. Á meðan það kostar mjög mikla orku og eldsneyti að brenna blautt efni, líkt og dýraleifar, snýr líforkuver dæminu við og framleiðir orkugjafa.

Finnum ekki upp hjólið

Í fyrsta áfanga líforkuvers á Dysnesi yrðu þær skyldur sem Ísland hefur undirgengist með EES-samningnum uppfylltar, auk loftslagsávinnings og innleiðingu hringrásarhagkerfis í landbúnaði. Í framhaldinu er stefnt að vinnslu annarra lífrænna strauma en dýraleifa í efsta áhættuflokki. Þannig væri hægt að samnýta innviði, krafta og hugvit til enn frekari verðmætasköpunar.

Verkefnið sækir fyrirmynd og ráðgjöf til nágrannalanda, einkum Finnlands og Noregs, sem búa við mjög svipaðar aðstæður og við, sem og sama regluverk. Þar hefur verið leitað til helstu sérfræðinga á sviði fullnýtingar dýraleifa.

Miðlæg starfsemi hjá frændum okkar

Síðastliðið haust voru löndin tvö heimsótt og skoðað hvernig málaflokki dýraleifa er þar sinnt. Athygli vakti að í báðum löndum er um miðlæga starfsemi að ræða, þar sem efni er sótt um land allt til vinnslu og ferlarnir samnýttir. Oft er um að ræða verulegar vegalengdir á Íslandi, en síst eru þær styttri í Finnlandi þar sem öll dýrahræ eru sótt heim á bæi og komið til vinnslu á einum stað.

Í vinnslum Finna og Norðmanna er matvælaframleiðsla í næsta nágrenni, þar sem glatvarmi og koldíoxíð úr vinnsluferlinu er notað til vaxtarhvata grænmetis, auk þess sem unnið var lífgas og áburðarefni úr efni af lægri áhættuflokki. Uppbygging í þessum anda er vonandi það sem koma skal hjá líforkuveri á Dysnesi, umhverfi, atvinnulífi og samfélaginu öllu til hagsbóta.

Höfundur er framkvæmdastjóri Líforkuvers ehf.

Höf.: Kristín Helga Schiöth