Hjördís Benediktsdóttir fæddist 15. júní 1930. Hún lést 21. júní 2024.

Útförin Hjördísar fór fram 1. júlí 2024.

Mér er það ljúft og skylt að minnast elsku frænku með nokkrum orðum.

Það var alltaf tilhlökkun að fara sem barn í sveit til Hjördísar. Hún var hlý, góð og glöð. Hún var sanngjörn og voru sveitastörfin alltaf í samræmi við aldur og getu.

Ég man eftir sem barn þegar við fjölskyldan fórum á Eyri að heimsækja Hjördísi og Jón þá nýflutt og bjuggu í gamla húsinu sem minnti nú helst á fornhús en þá þótti mér spennandi að fylgjast með henni í eldhúsinu að galdra fram veglegar veitingar þannig að kaffitíminn varð að sannkallaðri veislu. Allt var heimabakað og unnið frá grunni hjá Hjördísi.

Hjördís var með fjölda dýra í sveitinni sem vöktu mikinn áhuga hjá mér en þó sérstaklega hestarnir í hlíðunum fyrir ofan Eyri. Mér fannst skemmtilegustu stundirnar okkar vera þegar við fórum í göngutúra að stóðinu. Hjördís hélt ættartölu um hvert og eitt einasta hross sem hún hafði ræktað. Seinna átti hún eftir að sameina hjá sér tvo stofna frá systrum sínum þegar þær brugðu búi, annan frá Hrafnagili og hinn frá Efra-Núpi. Stofnarnir áttu eftir að skila henni góðum reiðhestum, keppnishestum og kynbótahrossum.

Hjördís átti hest sem hét Hnokki, fallegur og reistur rauðblesóttur hestur en hún átti eftir að skíra alla rauðblesótta hesta Hnokka eftir þennan sem er nú önnur saga. En þessi Hnokki var besti vinur Faxa, aðalreiðhests mömmu. Við mamma fórum með hestana okkar að Eyri og vinirnir hittust eftir nokkurra ára aðskilnað. Vinirnir voru ekki búnir að gleyma hvor öðrum því mikill var fögnuðurinn hjá þessum fallegu skepnum. Í þessari heimsókn settust þær systur á bak þeim vinum Faxa og Hnokka og var mynd tekin af þeim. Var það í síðasta skiptið sem Hjördís fór á bak en hestamennskan var á annan hátt hugleikin hjá henni en hún lagði meira upp úr ræktuninni og að njóta nærveru hestanna.

Hjördís var einstaklega sterk, röggsöm og mikill dugnaðarforkur sem aldrei hlífði sér til vinnu. Það var alltaf glatt yfir Hjördísi en hún var mjög hnyttin í máli og með gott skopskyn. Húmorinn var mikill hjá henni rétt eins og hjá þeim Núpssystkinum og ávallt mikið um glens og gaman með smá ívafi af stríðni.

Samband mömmu og Hjördísar var einstakt alla tíð og mikil væntumþykja í garð hvor annarrar. Þær töluðu saman á hverjum degi í símann og oft á tíðum marga tíma í senn.

Hjördís fylgdist vel með útför mömmu núna í maí síðastliðnum en þær systur voru einar eftirlifandi af stórum systkinahóp.

Ætli ég gefi ekki Hjördísi það að nú hafi hún saknað systkina sinna og tölt á leið til þeirra með ótrúlegri reisn, tignarleika, viljastyrk, stolti og sjálfstæði, stóðhryssa sem ég veit að hefur vakið mikla aðdáun og fögnuð á leiðarenda.

Ég mun sakna þín Hjördís mín, þú varst einstök og skilur spor í hjörtum okkar.

Ingibjörg
Guðmundsdóttir.

Eftir að ég fékk þær fréttir að elsku Hjördís væri látin hef ég hugsað mikið um okkar góðu kynni og þann einstaka vinskap sem við náðum að mynda.

Við kynntumst sumarið 2013 þegar ég sinnti heimaþjónustu í Hvalfjarðarsveit og okkar fyrstu kynni man ég vel. Ég kom heim að Eyri til að aðstoða við þrif og húsfreyjan Hjördís kom til dyra. Ég heilsaði og hún bauð mér inn. Mér fannst hún aðeins vör um sig sem er eðlilegt þegar ókunnug manneskja kemur inn á heimilið. Hún bauð mér kaffibolla sem ég þáði og upp frá því hófst kurteisislegt samtal eins og gengur og gerist. Áður en við vissum af voru kaffibollarnir orðnir þrír og samræðurnar voru á þann veg að það mætti halda að við hefðum þekkst alla tíð. Ég man að ég hafði orð á þessari sérstöku tengingu sem varð á milli okkar og reyndi að finna skýringar á henni en við vorum báðar í tvíburamerkinu, báðar aðkomukonur í sveitinni og skildum hvor aðra einstaklega vel þrátt fyrir tæplega fimmtíu ára aldursmun. Eitthvað var minna um þrif þessa fyrstu heimsókn mína til Hjördísar en heimsóknirnar urðu mun fleiri næstu árin. Kaffibolli og spjall var fastur liður áður en þrifin hófust og oft sátum við lengi og töluðum um allt á milli himins og jarðar eftir að þrifunum lauk. Ég sé Hjördísi svo vel fyrir mér fyrir mér í eldhúsinu á Eyri þar sem útsýnið var sérlega fallegt út um stóra gluggana. Hún var alltaf vel til höfð í fínum fötum, sannkölluð drottning. Hún gat verið alvarleg en það var samt svo stutt í prakkarann og hláturinn en okkar samskipti einkendust af mikilli gleði og hlátri. Það var alltaf gott að koma að Eyri. Eftir að ég flutti burt úr sveitinni varð sambandið minna en ég mun alltaf geyma í hjarta mér þá hlýju og gleði sem bæði Hjördís og Jón veittu mér. Ég bið þess að elsku Hjördís hvíli í friði og votta Jóni og afkomendum Hjördísar mína dýpstu samúð.

Kær kveðja,

Íris Dröfn
Kristjánsdóttir.