Yngvi Harðarson
Yngvi Harðarson
Hagtölur eru farnar að benda til minnkandi umsvifa í hagkerfinu og þær endurspegla það sem mörg fyrirtæki finna fyrir um þessar mundir. Yngvi Harðarson, hagfræðingur og framkvæmdastjóri Analytica, fer yfir þetta í samtali við Morgunblaðið í gær og segir tölurnar benda til að heldur sé tekið að hægja á í hagkerfinu og að jafnvel stefni í samdrátt.

Hagtölur eru farnar að benda til minnkandi umsvifa í hagkerfinu og þær endurspegla það sem mörg fyrirtæki finna fyrir um þessar mundir. Yngvi Harðarson, hagfræðingur og framkvæmdastjóri Analytica, fer yfir þetta í samtali við Morgunblaðið í gær og segir tölurnar benda til að heldur sé tekið að hægja á í hagkerfinu og að jafnvel stefni í samdrátt.

Yngvi nefnir meðal annars loðnubrest og skerðingu á kvóta í þessu sambandi en einnig að útflutningstekjur af áli hafi dregist saman þó að búast megi við að útflutningsverðmæti þess aukist nú í sumar.

Enn fremur virðist ferðaþjónustan vera að gefa eftir og fréttir að undanförnu benda einmitt í þá átt.

Hagfræðingurinn telur líklegt að nú styttist í vaxtalækkunarferli sem muni hugsanlega glæða hagvöxt á næsta ári. Það kann að vera en stjórnvöld geta haft jákvæð áhrif í þessum efnum, einkum með því að slaka á skattheimtunni og draga úr íþyngjandi regluverki í atvinnulífinu.

Regluverkið hefur farið mjög vaxandi og skattheimtan er með mesta móti. Með því að gefa atvinnulífinu aukið svigrúm má vinna gegn samdrættinum en til að svo megi verða þarf að grípa hratt til slíkra ráðstafana og senda þannig skýr skilaboð inn í hagkerfið.